tirsdag den 17. november 2009

Innantómar kosningar

x
Í dag var kosningadagur í Danmörku. Það væri svosem ekki í frásögur færandi, nema að fyrir nokkrum dögum síðan fékk ég sendan kjörseðil (eða loforð um kjörseðil) í póstinum. Ég horfði á seðilinn dágóða stund, alveg dolfallin yfir því að Danir skyldu treysta mér til að kjósa í borgarstjórnarkosningum. Ég, sem hef ekki einu sinni hundsvit á stjórnmálum heima á Íslandi. Það var samt svolítið spennandi tilhugsun að prófa að kjósa í Danmörku..........það er nú ekki eins og manni bjóðist það á hverjum degi!

Eins og góðri eiginkonu sæmir, þá ráðfærði ég mig við eiginmann minn, áður en ég lét til skarar skríða. Og, eins og góðum eiginmanni sæmir, þá hvatti hann mig að sjálfsögðu óspart til dáða! ;-)
Þannig að, þegar ég kom heim úr skólanum í dag, þá fór ég í mínu fínasta pússi á kjörstað.

Fyrsta hindrunin var auðveldlega yfirstigin, eða það að finna kjörstaðinn, því hann var í barnaskólanum hérna í næstu götu, sem ég hjóla alltaf framhjá á morgnana.........og Danir höfðu að sjálfsögðu verið svo hugulsamir við útlendinginn að skrifa það inn á seðilinn sem þeir sendu mér með póstinum. Það var auðvelt að finna réttu dyrnar, ég hafði séð hvar fólkið streymdi inn og út í morgun, þegar ég var á leiðinni í skólann. Þegar inn var komið, notaði ég svo bara gömlu, góðu aðferðina sem hefur aldrei brugðist mér þegar ég þarf að rata hérna í Kaupmannahöfn, sem er að elta bara næsta mann á undan mér og gera nákvæmlega eins og hann. Klikkar ALDREI! Inni voru borð sem voru merkt frá 1 og upp í 8. Eitthvað rámaði mig í að seðillinn minn væri merktur borði númer 5, sem reyndist rétt vera. Auðvitað hefði ég samt ekkert þurft að athuga það, því maðurinn sem ég var að elta gekk beinustu leið að borði númer 5, hvað annað?! Þegar búið var að afgreiða hann, gekk ég að borðinu og rétti fram seðilinn góða, eins og fylgdarmaður minn hafði gert, og bjóst til að veiða skilríkin upp úr vasanum. Sá danski fyrir framan mig kom mér þá að óvörum og í stað þess að biðja mig um skilríki, þá spurði hann mig hvenær ég ætti afmæli. Þetta kom svo flatt upp á mig, því fram að þessu hafði allt gengið svo nákvæmlega samkvæmt áætlun, að ég ætlaði í fyrsta lagi aldrei að fatta til hvers hann vildi vita hvenær ég ætti afmæli, og í öðru lagi hvernig ég ætti að segja það á dönsku. Ég er nefnilega svo vön því að þurfa að hugsa mig lengi um þegar ég þarf að segja 50, 60, 70, 80 og 90, að ég fór bara í kerfi og var lengi að átta mig á því að það væri sennilega ekkert vandamál að segja 10. febrúar. Þegar mér tókst svo loksins að segja 10. febrúar og bjó mig undir að finna 1972, þá nennti maðurinn ekki að bíða lengur, lét þetta bara gott heita og sendi mig áfram. Þá mætti mér annað áfall. Ég, ræfilstuskan, sem er vön að fá oggolitla kjörseðla í hendurnar heima á Íslandi, sbr. síðustu alþingiskosningar, og láta svo sýslumanninn segja mér hvaða bókstaf ég á að skrifa á miðann, fékk í hendurnar ekki bara eitt, heldur tvö, RISAVAXIN plaköt, sem ég vissi bara alls ekkert hvað ég átti að gera við. Ég hef bara aldrei á minni lífsfæddri ævi séð aðra eins kjörseðla!!! Á mig kom mikið fum og fát og ég bað konuna sem rétti mér kjörseðlana, vinsamlegast að taka mig á námskeið í notkun þeirra. Hún byrjaði að útskýra, þurfti svo að afgreiða fleiri og sendi mig til mannsins sem vísaði fólkinu inn í kjörklefana. Honum þótti nú ekki nema sjálfsagt að útskýra þetta allt saman fyrir mér: Ef ég vildi kjósa ákveðinn flokk, þá setti ég X fyrir aftan flokkinn og þá væri ég að kjósa fólkið í þeirri röð sem það væri á listanum. Ef ég vildi kjósa ákveðna manneskju, þá setti ég X fyrir aftan nafnið á þeirri manneskju og þá fengi hún atkvæðið, þótt hún væri fyrir aftan aðra í röðinni.

Þetta þótti mér með eindæmum gott kosningakerfi hjá Dönunum og þakkað með virktum fyrir kennsluna. Svo var mér að sjálfsögðu vísað næstri inn kjörklefa, enda þótt það væru margir komnir í biðröð á undan mér, enda merkileg manneskja og mikilvægt að ég fengi að kjósa sem fyrst.

Þegar inn í kjörklefann kom, mætti mér vandamál sem ég hafði ekki gert ráð fyrir. Ég sá sem sagt hvergi nokkursstaðar penna eða annað álíka verkfæri til að hripa atkvæðið mitt niður á plakatið! Árans vesen! Átti maður sjálfur að koma með skriffæri með sér, eða hvað?!? Þegar ég var um það bil að fara til baka út úr kjörklefanum og biðja vin minn um að lána mér penna, sá ég allt í einu spotta hanga niður með veggnum, við hliðina á púltinu sem nota átti til að kjósa. Þar sem ég er svo ákaflega skýr í hugsun og fljót að átta mig, fikraði ég mig niður eftir spottanum og dró svo sigri hrósandi upp risastóran blýant, í stíl við kjörseðilinn, auðvitað. Svo bara krossaði ég mig og þakkaði guði fyrir að ég skyldi ekki hafa gert mig að fífli með því að fara út úr kjörklefanum og biðja um aðstoð við að FINNA blýantinn!!!

Nú halda sjálfsagt flestir sem þetta lesa, að það versta hafi verið yfirstaðið og eftirleikurinn auðveldur. Svo var þó alls ekki. Nú fyrst rann upp fyrir mér að ég þurfti að velja hvar ég átti að setja krossinn. Og ekki bara einn, heldur tvo! Ég sem hélt að ég væri bara að kjósa borgarstjórn í Kaupmannahöfn, var með annan seðil í höndunum sem ég hafði ekki grænan grun um til hvers var. Og nú þurfti ég að velja. Ég ákvað að byrja á þeim gula, sem ég vissi ekki til hvers var. Þar sem ég kannaðist ekki við eitt einasta nafn á kjörseðlinum ákvað ég að það væri auðveldara að velja bara flokk. Mér leist ekki á Kristendemokraterne eða Nihilistisk Folkeparti og þorði ekki almennilega að taka afstöðu með Radikale Venstre, þeir hljómuðu eitthvað svo róttækir, ég veit ekki af hverju..................þannig að fyrir rest ákvað ég að setja kross við Socialdemokraterne, mér fannst þeir einhvernveginn huggulegasta nafnið af öllum flokkunum, svona mest traustvekjandi, einhvernveginn..................hmm, já................. og hafði heyrt þennan flokk nefndan áður, einhverntímann í sjónvarpinu...............! Vel hugsað, Elín!

Þá var bara eftir hinn kjörseðillinn, sá hvíti. Þar var ég þó aðeins meira inni í hlutunum.
Þar kom til greina hún Anna Mee Annerslev frá Radikale Venstre, sem hafði komið í háskólann og látið mig hafa dreifirit með stefnumálum sínum, sem ég hafði samviskusamlega lesið. Hún vildi leggja niður alla bílaumferð í Kaupmannahöfn og láta alla borgarana hjóla milli staða, og búa til "græna" økologiska stórborg með grænum görðum, fersku fjallalofti og engum glæpum. Þar sem ég á engan bíl hérna í Danmörku, þá fannst mér þetta bara vera virðingarverð kosningaloforð sem vel væri hægt að styðja við, með svona eins og einu atkvæði.

Nú, svo var auðvitað hann vinur minn, Michael Haugaard, sem bauð sig fram fyrir Venstre Liberale (sem mér fannst, nota bene, hljóma mun afslappaðra og meira traustvekjandi en Radikale Venstre). Hann hafði ég séð, hangandi á öðrum hverjum ljósastaur, nokkrar undanfarnar vikur og fannst hann bara býsna sætur. Ég meina, ekki færi ég að kjósa einhvern ljótan! Það bara kom augljóslega ekki til greina!!! Mér fannst ég óljóst hafa séð að hann vildi fjölga leikskólaplássum á höfuðborgarsvæðinu og styðja við barnafjölskyldur og aldraða, en ég var samt ekki ALVEG 100% viss um að það hefði verið hann. Þannig að, af því að ég er nú svona heldur meira gefin fyrir karlmenn en konur, og hann var sá eini sem ég gat verið alveg viss um að myndaðist vel þegar hann væri kominn í borgarstjórn, þá setti ég krossinn við Mikka vin minn. Mér fannst líka, því auðvitað var ég bara að kjósa alveg út í bláinn, að ef ég merkti við Socialdemokraterne (sem mér þótti hljóma svona dáldið "hægri") á öðrum seðlinum og Venstre Liberale (sem óneitanlega hljómuðu svolítið "vinstri", einhverra hluta vegna) á hinum seðlinum, þá myndi þetta bara núllast út og ég þyrfti ekkert að bera ábyrgð á gerðum mínum.

Þegar seinni krossinn var kominn á sinn stað, baksaði ég dágóða stund við að brjóta seðlana saman án þess að missa þá í gólfið þannig að þeir lentu inn í næsta kjörklefa, sem var nú ekkert áhlaupaverk. Það tókst samt fyrir rest og ég var mest hissa á að vinur minn þarna fyrir utan skyldi ekkert vera búinn að athuga hvort það væri allt í lagi með mig, því þetta hafði sko tekið tímann sinn. Svo fór ég út úr klefanum bakatil þar sem voru idiotproof kjörkassar, merktir með gulu og hvítu, (ég spurði nú samt til öryggis), stakk snyrtilega samanbrotnum miðunum ofan sitt hvorn kassann, og gekk út létt á fæti.

Þegar ég kom aftur heim, hringdi ég í Hall og sagði honum alla sólarsöguna. Hann sagði mér á móti að í vor yrðu sveitarstjórnarkosningar heima. Ég sagði honum að mér yrði líklega ekki skotaskuld úr því að kjósa til sveitarstjórnar, því nú væri ég komin með nýtt kerfi til að velja.
Ég kysi bara þann sem mér þætti sætastur!

Nú situr Hallur heima og veltir vöngum yfir því hver mér þyki nú sætastur; Ásvaldur, Garðar, Arnór, Hlynur eða Erlingur á Brún! ;-)

Kær kveðja,
Elín
x

tirsdag den 29. september 2009

Elín rasisti

x
Í síðustu viku skrapp ég í Fields.......vantaði blekhylki í prentarann, jólagjöf handa Eyþóri og ýmislegt smálegt. Á leiðinni til baka stóð ég úti á lestarstöð og var að bíða eftir metronum þegar ungur maður tók sér stöðu við hliðina á mér og kveikti sér í sígarettu. Vindurinn stóð af honum, á mig, og fyrsta "sogið" kom í heilu lagi beint upp í hægri nösina á mér. Af því að ég er mikill aðdáandi óbeinna reykinga og ákaflega kurteis og vel upp alin, þá hefði ég undir venjulegum kringumstæðum ekki sagt neitt, heldur bara fært mig um set, en af tveimur fullgildum ástæðum þá ákvað ég að gera það ekki: a) ég var með "dáldið" mikinn farangur sem ég nennti ekki að drösla fram og til baka, og b) ÉG KOM ÞARNA FYRST!!!

Þannig að...........ég tók snögga ákvörðun um að segja eitthvað við þessari augljósu árás inn á mitt "persónulega yfirráðasvæði"...........og, af því að ég er svo ofsalega kurteis og vel upp alin, þá ákvað ég að brosa bara fallega til aumingja strákræfilsins, sem augljóslega hafði hvorki reiknað út vindhraða né -stefnu af neinni nákvæmni áður en hann kveikti í rettunni, og biðja hann kurteislega um að standa frekar hinum megin við mig, þ.e. vinstra megin, undan vindi.
Um leið og ég tek þessa ákvörðun, hefur hann greinilega áttað sig á veðurfræðilegum mistökum sínum og tekur eitt skref fram á við til að losa mig úr mesta reykmekkinum. Í sömu andrá læt ég út úr mér þaulæfða kurteislega beiðnina á minni allra bestu dönsku og brosi mínu blíðasta til hans. "Nú?!" svarar hann og verður afar skrýtinn á svipinn..........sem mér finnst undarleg viðbrögð, því ég bjóst frekar við að hann myndi bara brosa kurteislega til baka og segja eitthvað í ætt við: "Já, auðvitað, afsakaðu tillitsleysið!" um leið og hann myndi svo færa sig hlémegin við mig. Eins og tvær fullorðnar manneskjur afgreiða hlutina! En, nei, hann sem sagt sagði bara "Nú?!", tónninn svolítið eins og þetta kæmi honum á óvart, ekkert bros, og...........svo fór hann hinumegin við mig, og ekki bara hinumegin við mig, heldur alveg út á endann á lestarstöðinni, eins langt og hann komst.............það munaði engu að maðurinn hallaði sér yfir grindverkið til að komast eins langt frá mér og hægt væri.

Ég er enn að velta því fyrir mér hvað ég sagði eiginlega við hann, en eina niðurstaðan sem ég hef komist að, er.........................að danskan mín þarfnast greinilega ennþá nokkurrar fínpússningar og fordómar mínir gagnvart reykingamönnum eru meiri en ég hélt!!!
;-)

Kveðja, Elín
x

lørdag den 26. september 2009

Fyrirlestur

x
Síðasta þriðjudag flutti ég fyrirlestur í skólanum. Ég vaknaði um morguninn, fór í sturtu, klæddi mig síðan í flegnasta bolinn sem ég fann í skápnum og fór í skólann. Þegar röðin kom að mér að tala, fór ég upp að töflu og var byrjuð að halla mér fram á kennaraborðið til að sýna brjóstaskoruna, þegar................ég fattaði allt í einu: "ANDSKOTINN!!! Ég týndi henni víst í sumar! Líklega um svipað leyti og ég fann aftur mittið á mér, sem hafði verið týnt lengi!!!"
Svona er lífið, aldrei getur maður verið ánægður með allt.................! :-(

Kveðja,
Elín
x

torsdag den 17. september 2009

Beuty is pain........

x
Fór hjólandi í skólann í morgun...........í pilsi..........og komst að því að það er allt annað en auðvelt að halda hnjánum saman meðan hjólað er! Skil ekki hvernig danskar konur fara að þessu!!! Hef samt ekki enn prófað að hjóla í háhæluðum skóm eins og ég hef séð sumar þeirra gera.......vá, hvað það gæti endað illa hjá mér!!! x ;-)

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 15. september 2009

Draumur...........eða birtingarmynd raunveruleikans?!?

x
Síðustu nótt dreymdi mig draum:
x
Ég var ein heima í Norðurbyggðinni. Það var vetur, úti var snjókoma og jörð alhvít. Ég leit út um forstofugluggann og fyrir framan húsið var úlfahjörð. Úlfarnir höfðu ráðist á hund (sem ég var, einhverra hluta vegna, nokkuð viss um að Olga Marta átti, .........) og sært hann illa á annarri afturlöppinni. Mig langaði til að fara út og bjarga hundinum, sem horfði á mig bænaraugum inn um gluggann, en vissi að ef ég færi út óvopnuð þá myndu úlfarnir bara rífa mig í sig líka. Eina mögulega vopnið sem ég fann í húsinu var stór eldhúshnífur en ég lagði ekki almennilega í að berjast við úlfana með hann einan að vopni, og hefði heldur viljað vera með byssu. Ég leitaði út um allt að betra vopni en fann ekkert. Að lokum tók ég hnífinn og fór út, staðráðin í að bjarga hundinum, en þá var það orðið of seint, því úlfarnir voru farnir og höfðu dregið hann á burt með sér. Ég barðist áfram í hríðinni og fylgdi blóðugri slóðinni eftir þá, alveg þangað til slóðin hvarf og ég vissi að það var orðið of seint að bjarga hundinum. Ég hét sjálfri mér því að ég skyldi leita þar til ég væri búin að drepa þá alla!
x
Needless to say, þá vaknaði ég í morgun, ákveðin í því að fá mér byssu og verða framúrskarandi skytta! Eyddi svo restinni af deginum í að velta því fyrir mér hvernig Freud myndi hafa túlkað þennan draum.
x
Nú er komið miðnætti, ég sé enn ásakandi augnaráð hundsins fyrir mér og þessi knýjandi þörf fyrir að læra að skjóta af byssu hefur ekkert minnkað!
x
Auglýsi hér með eftir sálfræðilegri túlkun á þessum draumi frá hæstbjóðanda!
..................og er farin aftur að sofa. Kannski ég nái þeim í nótt!

Kveðja,
Elín
x

mandag den 14. september 2009

Ég.............og hjálmurinn minn!

x
Síðasta föstudag var ég sem endranær að hjóla í skólann. Bara í rólegheitunum í þetta skiptið, en samt á annatíma. Á fjölförnum gatnamótum lagði ég af stað yfir, á grænu ljósi, fremst í flokki hjólreiðamanna þarna á götuhorninu (hvað annað?!?). Hægra megin við mig er röð bíla sem eru stopp á rauðu ljósi og ég hjóla framhjá þeim. Þá kemur skyndilega bíll sem ekur á fullri ferð fram úr þeim og inn á gatnamótin á sama rauða ljósinu. Ég rétt náði að stoppa úti á miðri götunni og horfði á eftir bílnum lenda á öðrum bíl sem hafði verið að aka yfir gatnamótin við hliðina á mér.
Mikið ógurlega var ég þakklát fyrir að hafa haft augun hjá mér og athyglina í lagi í þetta skiptið, en ekki hjólað beinustu leið yfir, bara af því að ég var "í rétti"! Ég átti ekki erfitt með að sjá fyrir mér afleiðingarnar af því ef bílinn hefði lent á mér í staðinn. Ég og hjólið mitt hefðum líklega dældast heldur meira en hinn bíllinn og ökumaður hans gerðu..................og ég virkilega fann dauðann sleikja á mér tærnar þegar ég hjólaði áfram í skólann.
Þetta atvik vakti mig virkilega til umhugsunar um notkun hjálma við hjólreiðar hér í Kaupmannahöfn. Það er nefnilega svo merkilegt, að fæstir hjólreiðamenn hérna nota hjálm, þrátt fyrir það að þeir hjóli alltaf í umferðinni, innan um bílana.
Mín skoðun er hinsvegar sú, eftir allt sem ég hef lært í skólanum í vetur, að heilinn í mér sé eitthvert verðmætasta líffærið sem ég bý yfir og því beri mér að vernda hann með öllum ráðum og umfram öll önnur líffæri!
Lengi lifi hjálmurinn minn!!! Mikið er ég þakklát fyrir að vera á lífi..........! :-)

Kveðja,
Elín
x

søndag den 13. september 2009

Hormónarugl........?!?

x
Jæja, þá er ég búin að herða mig upp í að byrja aftur að blogga eftir sumarfríið.......og mig langar að segja ykkur frá þriðjudeginum í síðustu viku.
Á þriðjudaginn í síðustu viku lagði ég óvenjulega seint.....og að sjálfsögðu óþarflega seint..........af stað í skólann. Þar af leiðandi hjólaði ég eins og vitleysingur (skiljist: "hratt en ekki ógætilega"!) alla leiðina í skólann og setti nýtt hraðamet, fór alla leið á um 20 mínútum í stað 35 eins og venjulega. Ég kom 10 mín áður en kennsla átti að hefjast, ákaflega ánægð með sjálfa mig. Að sjálfsögðu kom kennarinn svo korteri of seint í tímann, því lestinni hennar seinkaði!!!
Í þessari sömu kennslustund voru tveir nemendur (ungar stúlkur) með fyrirlestur. Ég var búin að lesa heima, svo ég átti auðvelt með að fylgjast með fyrirlestrinum hjá þeirri fyrri, enda þótt mér þætti það hálfgerð tímasóun að fara tvisvar yfir þetta! Undir síðari fyrirlestrinum varð ég svo fyrir alveg glænýrri upplifun. Stúlkan sú var nefnilega með ákaflega stór brjóst og klædd í ákaflega fleginn bol, auk þess sem hún reglulega hallaði sér fram á kennaraborðið meðan hún talaði svo aðrir nemendur fengju örugglega nógu gott útsýni yfir alla dýrðina. Ég verð að játa, að aldrei hef ég haft eins mikla samúð með og skilning á karlmönnum sem afklæða konur með augunum! Mér var gjörsamlega fyrirmunað að fylgjast með nokkru öðru en brjóstunum á konunni allan tímann sem hún var að tala (enda andlitið á henni alls ekki eins áhugavert.............)! Hún hefði eins getað verið nakin uppi við töflu að tala, eins og að vera klædd á þennan hátt! En.......auðvitað var ekkert slæmt að fá eitthvað annað að gera en að hlusta, enda fyrirlesturinn drepleiðinlegur.................
Nú er stóra spurningin er bara sú, hvort hið sama hafi gilt um aðra nemendur þarna í stofunni, eða hvort ég þjáist bara af einhverju hormónarugli og sé smám saman að breytast í karlmann?!?
Kannski ég ætti að ræða þetta við heimilislækninn á miðvikudaginn...........! ;-)

Góðar stundir.
Elín
x

søndag den 24. maj 2009

Atorkusemi eiginmanna heimavið.........

x
Fyrir nokkru síðan skrapp ég út í búðina á horninu. Þegar ég var að koma aftur út eftir innkaupin, rak ég augun í mann sem var að vinna við að hreinsa gamla málningu af húsinu við hliðina á búðinni. Ég ákvað samstundis að þarna væri kominn duglegur og "hard-working" eigandi hússins að dytta að eign sinni (hvað annað?!?). Í sömu andra sá ég konuna hans fyrir mér í "sixties hillingum" inni í eldhúsi með svuntuna að baka handa honum vöfflur þegar verkinu væri lokið.
Næsta dag "þurfti" ég aftur út í búð (ókey, ókey.......hann VAR ber að ofan daginn áður þegar hann var að vinna í húsinu.........!) og þá var hann farinn að múra húsið að utan. Ég staldraði við dágóða stund og dáðist að dugnaðinum í honum (og upphandleggsvöðvunum......) áður en ég kláraði að versla og fór aftur heim.
Í gær skrapp ég svo í sömu búðina eftir nokkurt hlé. Mig rak í rogastans þegar ég gekk framhjá áðurnefndu húsi, því það var búið að múra það, mála allt að utan og félaginn var fyrir utan, hálfnaður með að helluleggja heimreiðina.
Því er spurning dagsins þessi: Hvort er líklegra að þessi blessaði maður eigi húsið sjálfur og sé atvinnulaus.................eða að þetta sé bara iðnaðarmaður í vinnunni sinni?!? (Þriðji kosturinn gæti reyndar verið sá að þetta sé náfrændi Sigga nágranna á Laugum, og atorkusemin sé bara svona svakalega mikil í ættinni..............!)
Mikið rosalega hlýtur konan hans að baka mikið magn af vöfflum þessa dagana.............. ;-)

Kveðja,
Elín
x

onsdag den 13. maj 2009

Gervigreind

x
Þeir sem halda því fram að mennirnir séu greindustu lífverur jarðarinnar, hafa algjörlega rangt fyrir sér. Bakteríur eru okkur mun snjallari og kænni.
Fyrir þremur vikum síðan tóku sér bólfestu í mér bakteríur af áður óþekktri tegund, eða öllu heldur, með áður óþekkta greindarvísitölu. Að sjálfsögðu fór ég beint til heimilislæknisins þegar ég var þeirra fyrst vör og bað um pensillín. Eftir miklar prófanir og rannsóknir hjá hjúkrunarkonunni fékk ég ekkert pensillín, því þetta voru ekki streptókokkar, heldur einhverjir fjarskyldir frændur þeirra. Síðan hafa bölvaðar pöddurnar herjað grimmt á mig.
Fyrst fékk ég svæsna hálsbólgu, varð svo rám og byrjaði að hósta. Eftir einnar og hálfrar viku veikindi, vaknaði ég upp einn morguninn, hvorki með hósta né hálsbólgu og varð alveg ægilega glöð. Ég varð SVO glöð, að ég skellti mér í skógarferð með dönskum vinum mínum. Það sem ég áttaði mig ekki á, var að ofurgreindu bakteríurnar voru bara að plata mig. Þær vildu að ég færi út í kuldann, svo þær gætu gert mig enn veikari daginn eftir.
Morguninn eftir vaknaði ég svo stútfull af kvefi og hóstinn orðinn tíu sinnum verri. Næstu dagana fór ég ekkert í skólann, heldur lá bara heima í rúmi og barðist við innrásarliðið. Um miðja vikuna fór að heyrast brak og hvæs þegar ég andaði, þannig að ég ákvað að fara til læknisins á fimmtudeginum og láta kíkja á mig.
Ég vaknaði á fimmtudagsmorguninn, fór í sturtu og tók svo strætó til læknisins. Á leiðinni áttaði ég mig á því að hvæsið og brakið í lungunum á mér heyrðist ekkert lengur. Ég vissi sem var, að læknirinn myndi ekkert vilja gefa mér nema hann heyrði í kvikindunum, þannig að ég ákvað, full bjartsýni, að mér væri líklegast bara farið að batna, hætti við læknisferðina og fór í skólann í staðinn. Hringdi svo í lækninn til að fá að fresta ofnæmissprautunni minni, sem ég hafði átt að fá þennan dag, um viku. Hvæsið og brakið í lungunum á mér byrjaði að sjálfsögðu aftur uppúr klukkan þrjú, þegar læknastofan var búin að loka!
Sama kvöld, þegar ég fór að sofa, var ég farin að eiga örðugt um andardrátt. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að næsta dag var 1. maí = lokað hjá lækninum! Ég tók eina parkódín forte, fór að sofa og vonaði að þetta væri bara einhver ímyndun í mér...........vaknaði svo morguninn eftir og átti enn erfitt með að anda. Mér leist ekki á að vera svona fram á mánudag, þannig að ég hringdi í Tinu, sem hjálpaði mér að finna símanúmerið hjá vaktlækninum. Svo hringdi ég í vaktlækninn og sagðist vera búin að vera veik í tvær vikur, með hálsbólgu, hósta og kvef, og nú gæti ég ekki andað lengur. Manngreyinu leist auðvitað ekkert á lýsinguna og sagði mér að koma strax svo hann gæti hlustað mig. Mikið svakalega varð ég glöð, híaði á bakteríurnar og lagði af stað á hjólinu mínu. Sem betur fer hafði ég í einum ævintýraleiðangrinum óvart hjólað fram á sjúkrahúsið, þannig að ég vissi hvar það var og gat farið beinustu leið.
Vaktlæknirinn byrjaði á að draga upp trépinnann og skoða í hálsinn á mér. Þar sá hann auðvitað ekkert, því hálsbólgan var löngu bötnuð. Svo spurði hann um kvefið og ég gat ekki annað en viðurkennt að það væri líka heldur farið að skána. Á því augnabliki held ég að hann hafi alveg hætt að taka nokkurt mark á mér. Hann kíkti samt í eyrun á mér (sem ég hafði ekkert heyrt með alla vikuna út af kvefinu) en fullyrti að þetta væri bara „kvef í eyrunum“ á mér. Fyrsta skipti sem ég heyri talað um kvef í eyrum.......hmm. Næst dró maðurinn upp hlustunarpípuna og þá fór ég að kætast. Sá í hillingum allar pensillíntöflurnar sem ég fengi nú skrifað upp á. Ég er enn að reyna að átta mig á því sem gerðist næst: Vaktlæknirinn sagði mér að anda djúpt, sem ég og gerði, nema hvað, að hvæsið og brakið í lungunum var bara nærri alveg horfið. Það heyrðist oggolítið inn á milli, ég virkilega vandaði mig við að anda djúpt svo það myndi heyrast, en í hvert skipti sem það heyrðist, þá lyfti læknirinn hlustunarpípunni til að skipta um stað á bakinu á mér. Það var engu líkara en helvítis bakteríurnar héldu bara niðri í sér andanum meðan læknirinn var að hlusta og gripu svo andann á lofti inn á milli þegar hann færði hlustunarpípuna. Mannræfillinn sá auðvitað ekki við þessum ofurgreindu veirum, enda líklega ekki nema í meðallagi greindur sjálfur, sagði mér að ég væri bara með venjulegt kvef og yrði bara að bíða eftir að þetta lagaðist. Ég fylltist örvæntingu, (því ég vissi við hvaða ofurefli var að etja), lagðist á hnén fyrir framan hann, felldi fögur tár og grátbað hann um að skrifa að minnsta kosti upp á astmalyf fyrir mig, svo ég gæti andað meðan mér væri að batna! „Jú, það gæti kannski hjálpað,“ sagði hann, skrifaði resept og sendi mig heim í rúm. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að hvæsið og brakið upphófst aftur um leið og ég var komin út af læknastofunni!
Ég var nú samt heldur bjartsýnni en áður, hjólaði glöð í næsta apótek og sótti astmapústið mitt. Það verður að segjast eins og er, að það hjálpaði mikið við öndunina. Næstu daga á eftir smábatnaði kvefið, þótt það tæki alveg fimm daga í viðbót þar til ég fór að heyra eitthvað með hægra eyranu. Mér fannst hjálpa aðeins að hafa hitapoka á brjóstkassanum, þannig að næstu daga á eftir var ég mest heima í rúmi, með hitapokann og heitt te, og reyndi að lesa.
Í dag átti ég svo að mæta í ofnæmissprautuna hjá heimilislækninum mínum. Ég sagði við sjálfa mig að það þýddi ekkert að biðja hann um að hlusta mig, fyrst mér væri farið að skána, þannig að ég ákvað bara að láta það eiga sig...........gæti í mesta lagi spurt hann hvað ég ætti að nota pústið lengi! Ég fór til læknisins, fékk sprautuna, sýndi honum pústið og spurði hvort ég ætti að nota það alveg þar til mér væri batnað? Áður en ég vissi hvaðan á mig stóð veðrið, var hann búinn að rífa upp hlustunarpípuna, draga bolinn minn upp að öxlum og byrjaður að hlusta. Ég vandaði mig við að draga andann eins djúpt og ég gat, og pöddurnar, sem höfðu alls ekki átt von á þessari skyndiárás, gátu ekkert gert sér til bjargar. Ég var úrskurðuð með bæði bronkítis og lungnabólgu og send heim með resept upp á tíu daga pensillínkúr.

ÉG ELSKA DANSKA HEIMILISLÆKNINN MINN!!!

Kveðja,
Elín
x

onsdag den 6. maj 2009

Pöddulíf

x
Ég VISSI að ég hefði ekki átt að blogga í gær! Mig dreymdi eintómar pöddur í nótt og þar á meðal risastóran sporðdreka sem tók langan tíma að lóga........og þurfti sko verkfæri til.

Svo þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mætti mér þegar ég opnaði augun......hvað haldið þið?.............nú auðvitað kóngulóargerpi sem sat á gólfinu við hliðina á rúminu mínu og GLÁPTI á mig! Ég kann ekkert vel við að láta glápa svona á mig snemma á morgnana og hún fékk að sjálfsögðu fyrir ferðina. Stóð svo upp, klæddi mig í inniskóna og tókst að komast þrjú skref áður en ég gekk fram á margfætlu sem var á röltinu hinum megin við rúmið mitt. Ég var sem sagt umkringd og ekki nema von að mig dreymdi svona illa í nótt! En meðan kvikindin eru svona af svipaðri stærð og toga og frændur þeirra heima á Íslandi, þá held ég nú alveg sönsum.......

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 5. maj 2009

Vor í Kaupmannahöfn

x
Eitt kvöldið í síðustu viku sat ég við skrifborðið mitt og var að vinna í tölvunni..........eða "vinna" í tölvunni, réttara sagt! Allt í einu heyri ég dynk á bak við mig, eins og eitthvað hafi dottið niður á gólf. Mín fyrsta hugsun var, að þar sem það er teppi á gólfinu, þá þurfi nú líklegast frekar stór hlutur að detta á gólfið til að það heyrist. Mín önnur hugsun var að hlutir dyttu nú ekki bara svona af sjálfu sér, og þar sem mér fannst hljóðið vera rétt á bak við mig, og á bak við mig var ekkert nema glugginn (já, fyrir þá sem það ekki vita, þá bý ég í kjallaraherbergi), þá varð mér nú satt best að segja ekki um sel. Ég sat grafkyrr dálitla stund, meðan ég var að ákveða hvort það borgaði sig að athuga þetta eða ekki. Loks herti ég upp hugann, stóð upp og leit á gólfið bak við stólinn minn. Þar sá ég, liggjandi marflata á gólfinu, einhverja þá allra, ALLRA, RISASTÆRSTU kónguló sem ég hef á ævi minni séð. Hún var svo stór og feit að hún gat sem sagt ekki einu sinni klifrað niður vegginn eins og venjulegar kóngulær, eða rennt sér lipurlega eftir þræði sem hún spann, heldur bara hlunkaðist hún niður á gólfið eins og kartöflupoki! Ég byrjaði á að fá nett taugaáfall við þessa hræðilegu sjón, krossaði mig svo og þakkaði Guði fyrir að hún skyldi ekki hafa dottið niður á öxlina eða hárið á mér. Svo sótti ég ósköpin öll af eldhúspappír og henti yfir hana, (það varð mér til bjargar að hún var enn dálítið vönkuð eftir fallið) og hoppaði svo ofan á henni þar til blóðið spýttist upp um alla veggi og ófreskjan gaf upp öndina!!!

Það var alveg á mörkunum að ég gæti farið að sofa þetta kvöldið........ég gerði a.m.k. mjög nákvæma leit í rúminu mínu áður en ég lagðist til svefns. Svo ákvað ég að segja börnunum mínum ekki frá þessari lífsreynslu, því þá myndu þau pottþétt neita að koma í heimsókn til mín. (Gat samt ekki stillt mig um að segja Birgittu frá, bara til að heyra viðbrögðin, og það stóð sko ekki á þeim............vona bara að hún geti staðist það að kjafta þessu í bróður sinn, því hann er sko hálfu verri........hehe.......!)

Eftir þessa uppákomu hef ég stútað fimm maurum og einni lítilli kónguló hérna inni........síðan hefur ekkert kvikt sést. Ég er bara ákaflega glöð yfir að verða ekki hér í sumar..............!

Kveðja,
Elín
x

onsdag den 18. marts 2009

Matarinnkaup.......

x
Þessa dagana er ég á kafi í að læra fyrir próf, þannig að það fer lítið fyrir bloggi á meðan. Ég hef reynt að fá Fíu til að blogga fyrir mig en hún telur það fyrir neðan sína virðingu (og mína reyndar líka......). Fía hefur nefnilega skoðanir á öllum hlutum og hennar skoðanir eru ævinlega réttar, að eigin mati. Hún má þó eiga það, að hún er hörkudugleg við heimilisstörfin. Í gær, t.d., þreif hún allt í hólf og gólf svo allt yrði hreint þegar Eyþór kemur á laugardaginn. Ég sat bara og las fyrir prófið á meðan.

Það eina sem gerst hefur markvert síðustu dagana er, að það hefur ítrekað verið reynt að svindla á okkur Fíu í dönskum matvöruverslunum. Okkur hefur nú oft þótt þetta slæmt heima, en hér í Danmörku þykir okkur það alveg keyra um þverbak. Þegar við förum saman í búðina þá fer Fía alltaf vandlega yfir strimilinn áður en hún leyfir mér að fara heim, og tvisvar núna undanfarið hefur hún uppgötvað svindlið á staðnum og fengið það leiðrétt. Hún er nefnilega assgoti snögg að reikna í huganum hún Fía, þannig að það er ákaflega gott að hafa hana með sér í búðina. Ekki eins og ég, sem hef ítrekað flaskað á margföldunartöflunni í tölfræðiáfanganum sem ég er í núna.........er eiginlega bara hætt að reyna og farin að reikna allt með vasareikninum....... :-(

Það er heldur verra þegar ég fer ein í búðina. Þá gleymi ég nefnilega alltaf að fara yfir strimilinn í búðinni. Þegar ég kem svo heim, þá situr Fía fyrir mér við dyrnar, finnur strimilinn í pokanum og svo þarf ég að fara að rifja upp hvernig hlutirnir voru verðmerktir í búðinni. Þegar hún kemst svo að því að eitthvað var vitlaust skannað inn, eða ég fékk ekki einhvern afslátt sem ég átti að fá, þá er ég miskunnarlaust send til baka til að fá endurgreitt. Þetta er bölvað vesen og ég hef alls engan tíma til að standa í þessu. Þess vegna tek ég Fíu bara alltaf með mér í búðina núna. Það er mun minni fyrirhöfn fyrir mig. ;-)

Bless í bili,
Elín
x

søndag den 15. marts 2009

Fermingarmartröð

x
Í nótt fékk ég fermingarmartröð.
Mig dreymdi að stóri dagurinn væri kominn og við Hallur mættum í kirkjuna í okkar fínasta pússi, eins og alllir hinir foreldrarnir. Við fórum upp á loftið, fengum okkur sæti og litum yfir fermingabarnahópinn. Mér til mikillar undrunar sátu fermingarbörnin niðri í kirkjunni í gallabuxum og stuttermabolum, sum þeirra jafnvel með tyggjó. Ég spurði Hall hvernig stæði á því að börnin væru ekki í fermingarfötunum sínum og hann sagðist ekki hafa hugmynd um það. Áður en ég gat farið að gera mál úr þessu, kom séra Þorgrímur inn í kirkjuna. Hann hespaði athöfninni af á innan við fimm mínútum og fermdi börnin. Þegar messunni var lokið, var svo sameiginlegt sundlaugarpartý fyrir alla!
Ég tók séra Þorgrím afsíðis eftir athöfnina og spurði hann hvernig stæði á því að fermingarbörnin hefðu ekki verið í fermingarkyrtlunum við athöfnina. Hann svaraði því til að þeim hefðu þótt kyrtlarnir bæði gamaldags og úreltir og hann hefði ákveðið að módernísera ferminguna aðeins með þvi að leyfa þeim að vera bara í gallabuxum og bol.
Ég var alveg miður mín þegar ég vaknaði í morgun!

Kveðja,
Elín
x

torsdag den 12. marts 2009

SIGUR!!!.............

x
...........AT LAST!!! Haldiði ekki að ósýnilegi leigjandinn hafi tæmt rusladallinn í eldhúsinu í dag!!! Ég ætlaði í sakleysi mínu að henda gamalli papriku í ruslið, opnaði dallinn og.......hélt ég væri bara að villast! Var lengi að ná áttum eftir þessa uppákomu. En, kraftaverkin gerast bersýnilega enn! Það verður spennandi að sjá hvort hann þrífur klósettið á morgun.......hehe........ ;-)

Ein spurning að lokum: Kallast það ekki örugglega eldamennska, að kaupa tilbúna, frosna pizzu úti í búð, bæta ofan á hana salamipylsu, gamalli papriku (samt ekki þeirri sem fór í ruslið) og auka osti og skella henni síðan í ofninn?!?

Kveðja,
Elín
x

fredag den 6. marts 2009

Damsel in distress........again!

x
Jæja, tókst í dag að endurtaka ævintýrið frá því um daginn, með þeirri einu undantekningu að nú hafði ég fengið leiðbeiningar og vissi hvað ég átti að gera.

Ég var sem sagt í skólanum að læra, í græna lessalnum sem hefur verið uppáhaldið mitt síðan ég uppgötvaði tilvist hans í gær. Á einhverjum tímapunkti fór ég fram að sækja mér vatn og þegar ég kom til baka voru dyrnar læstar, bara rétt sisvona af sjálfu sér. Inni í lessalnum var enginn, nema tölvan mín, skólataskan og gemsinn. Stúdentakortið mitt, sem ég hefði getað notað til að komast inn, var auðvitað líka læst inni! Mín fyrsta hugsun var sú að fara út og skríða inn um gluggann, en þá mundi ég eftir að hafa gert það að mínu síðasta verki að loka honum og læsa áður en ég fór út (svona aðallega til að einhver annar fengi ekki sömu frábæru hugmyndina að skríða inn um gluggann og stela tölvunni minni............hmm.......). Nú voru góð ráð dýr, en.........................minnug hrakfara minna um daginn og eins og Damsel in Distress einni sæmir, hóf ég þegar í stað leit að "The Knight in Shining Armour" sem ég fann svo í öðrum lessal, ekki langt fjarri. Sá hafði öll sín vopn við höndina (þ.e. stúdentakortið sitt) og var svo vingjarnlegur að fylgja mér til baka og opna fyrir mér. Nú hreyfi ég mig ekki án þess að vera með stúdentakortið upp á vasann.........! Svona sjálflæsandi húsnæði er alveg stórhættulegt!

Annars hefur þessi dagur verið tíðindalítill.........................liðið bara hægt við námsbókalestur og glósugerð.......................................geeeeisp!

Kveðja,
Elín
x

torsdag den 5. marts 2009

Flugfarir

x
Fyrir nokkrum dögum síðan hringdi Eyþór í mig. Ég var inni í eldhúsi að vaska upp og þegar ég kom aftur inn í herbergi, sá ég ein 10 stk missed calls á símanum, þannig að ég hringdi til baka. Eyþór svaraði strax, og honum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði við mig:
"Mamma! Ég fékk alveg FRÁBÆRA hugmynd!!!"
"En gaman!" sagði ég. "Hvaða hugmynd fékkstu?"
"Hvað......ef........ég...........kem bara núna bráðum og heimsæki þig til Danmerkur!!!"
Ég varð orðlaus í eitt augnablik. Sem betur fer gerist það ekki oft og stendur ekki lengi yfir í einu. Svo svaraði ég:
"Ástin mín, þetta var frábær hugmynd hjá þér! Við þurfum bara að skoða hvenær það er hægt. Ég er nefnilega að fara í próf eftir tvær vikur, en þú gætir kannski komið þegar ég er búin í prófinu. Ég skal bara tala við pabba þinn og athuga hvort þetta er hægt. En.........þá þyrftirðu kannski að fara einn í flugvélinni aðra leiðina..........heldurðu að þú þorir það?"
"Jaaaá, sko, það eina sem ég veit ekki er sko hvert ég á að fara þegar ég kem út úr flugvélinni..........en þá get ég kannski bara beðið einhvern um að sýna mér það............"
"Nei, nei, þá myndu flugfreyjurnar passa þig," sagði ég, "og fylgja þér alveg til mín. Það er allt í lagi með það, þú þarft ekki að fara alveg einn! En við þurfum líka að athuga hvað þetta kostar áður en við ákveðum það."
"Jaaaá, sko ég er búinn að safna fullt af peningum...............þannig að ég get alveg borgað.......!"

Ég fékk nagandi samviskubit vegna litla barnsins míns sem saknaði mömmu sinnar svona óskaplega að hann var tilbúinn til að vaða eld og brennistein (svo ekki sé nú minnst á að eyða öllum sparnaðinum sínum) til að hitta hana. Við Hallur ræddum málið, komumst að því að Anita er að fara aftur út þann 21. mars (sama dag og ég er í prófinu) og sáum að það væri alveg upplagt að biðja hana um að taka Eyþór með sér. Svo gæti hann bara komið aftur heim með mér þann 27. mars. Við töluðum við Anitu sem sagði þetta sjálfsagt mál og svo fór ég í símann í morgun og hringdi í flugfélögin (því ég átti bókað með Icelandair og Anita með Iceland Express) til að fá að bæta Eyþóri við bókanirnar. Ég byrjaði á Icelandair, þar sem mér var tjáð að það væri ekki hægt að bæta við bókunina, en ..............það væri hægt að bóka hann sér.
"Fínt er," sagði ég, "hvað þarf ég þá að borga mikið fyrir hann?"
"53.000 krónur," svaraði konan í símanum.
"FIMMTÍUOGÞRJÚÞÚSUND KRÓNUR????" argaði ég í símann, því mér varð svo mikið um þetta. "Þú veist að hann er bara sjö ára gamall, er það ekki?!? Eruð þið ekki með barnafargjöld???"
"Þetta ER barnafargjaldið. Fullt fargjald er 76.000 kr. Ef það eru minna en 25 daga í brottför og þið pantið bara aðra leiðina, þá er ekki hægt að fá tilboðsfargjöld!"
"Þú ert að grínast!" sagði ég (ekki kurteis, en samt ekki ókurteis..........). "Ég fer ekki að borga 53.000 krónur fyrir barnið frá Kaupmannahöfn.......og það bara aðra leiðina!"
"Við getum kannski bókað hann báðar leiðir, þótt hann fari bara aðra leiðina, það gæti verið ódýrara!" sagði konan, "öll" af vilja gerð til að hjálpa mér. "Þá geturðu fengið þetta á 33.000 krónur!.......og þú SPARAR 20.000 krónur!!!"
"Já, en, hann fer bara aðra leiðina......?!" sagði ég, ekki alveg að skilja þetta. "Get ég þá afpantað hina leiðina seinna og fengið hana endurgreidda???"
"Neeei, ÞAÐ er ekki hægt!" og nú var oggolítið farið að síga í hana.
"Já, en mér finnst 33.000 krónur bara LÍKA allt of mikið fyrir sjö ára gamalt barn aðra leiðina til Kaupmannahafnar!" svaraði ég, og nú var oggolítið farið að síga í mig líka. "Sko, ég get fengið flug sama daginn með Iceland Express á 27.000 krónur, fyrir okkur BÆÐI! Ég verð þá bara að afpanta flugið mitt hjá ykkur og bóka okkur bæði hjá Iceland Express!"
"Já, gangi þér bara vel með þetta!" og svo skellti hún á mig. Svo mörg voru þau orð og ég mátti hringja aftur og tala við annan þjónustufulltrúa sem fannst líka að ég gæti bara borgað 53.000 krónur eða skilið barnið mitt eftir úti í Kaupmannahöfn. Þannig að ég bað hana um að afpanta flugið mitt og hún sagðist myndu "koma því í ferli", hvað svo sem það nú þýðir á mannamáli. Í viðleitni minni við að skilja það spurði ég hvort upphæðin yrði endurgreidd inn á kreditkortið mitt. Hún sagðist ekki geta svarað því, beiðnin færi bara í ferli og ég ætti að fá endurgreidda flugvallarskattana og helminginn af fargjaldinu (því ég hafði ekki pantað forfallatryggingu, þar sem ég vissi að ég færi heim þennan daginn, dead or alive!). Þá spurði ég hvað það væri mikið og hún svaraði með þótta, að það væri ekki hún sem reiknaði það út, hún sendi málið bara í F-E-R-L-I!!!" Þá gafst ég upp, þakkaði INNILEGA fyrir FRÁBÆRA þjónustu og strengdi þess dýran eið að ALDREI AFTUR skyldi ég bóka flug með Icelandair!!! ........og það mun ég svo sannarlega standa við.
Svo hringdi ég í Iceland Express og bað um að Eyþóri yrði bætt við bókunina hennar Anitu. "Ekkert mál!" svaraði konan, og það VAR ekkert mál og kostaði ekki nema 10.000 krónur + 1.500 króna breytingagjald. Ekkert nema lipurðin og liðlegheitin á þeim bænum, eins og ég svosem átti von á, því ég hef áður þurft að hringja þangað til að breyta bókun.

Þegar ég kom svo heim seinnipartinn, leit ég í póstkassann til að athuga hvort pakkinn sem Hallur sendi mér fyrir helgi væri kominn. Enginn miði í póstkassanum, svo ég bölvaði B-póstinum í hljóði og fór inn, frekar pirruð eftir daginn, og.......sá....................pakkann minn liggjandi við herbergisdyrnar mínar. Mikið óskaplega þótti mér þá vænt um ósýnilega leigjandann.........fyrir að hafa tekið við pakkanum fyrir mig. Hann var bara heppinn að vera farinn í vinnuna, því annars hefði ég líklega kysst hann fyrir, ég var svo þakklát! Ég verð bara að játa, að hann var ekki manna líklegastur til að bjarga deginum fyrir mér, en, það gerði hann svo sannarlega. Best að hætta að fjasa yfir því þótt hann þrífi ekki klósettið og baka bara pönnukökur handa honum um helgina..........hehe..........blessaður vinurinn...........

Svo hringdi ég í Eyþór til að segja honum góðu fréttirnar, þ.e. að hann fengi að koma í heimsókn og það væri búið að panta flugið handa honum:
"Hæ Eyþór! Veistu bara hvað?! Ég er búin að panta flugið handa þér!"
"Jaaaaá......" (frekar dræmt)
"Hvað? Langar þig ekki lengur til að koma? Varstu hættur við?" (panik í röddinni)
"Neeei........það er samt ekki á morgun, er það?"
"Nei, nei, ekki fyrr en eftir tvær vikur. Langar þig ekki að koma?"
"Júúúú..............."
............................og nú velti ég því fyrir mér hvort hann hafi kannski bara verið að biðja um að fá að koma af því að honum hafi fundist ÉG sakna HANS svona mikið..........hafi bara vorkennt mömmu gömlu.......og viljað gera þetta fyrir hana! Hvað um það! Annað okkar hlakkar allavega mikið til.................... :-)))

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 3. marts 2009

Það er draumur að vera með dáta......

x
Mig dreymdi Jón Ásgeir í nótt! Ég fór og heimsótti hann í stóra, fallega húsið hans í Innbænum á Akureyri, þar sem það stóð hátt uppi í brekkunni með útsýni yfir fjörðinn. Á einhverjum tímapunkti losnaði húsið frá undirstöðum sínum, rann niður í fjöru og út í sjó. Svo sigldum við á húsinu hans til Cayman eyja og lifðum hamingjusöm til æviloka.

Eins og heyra má, ber ég engan kala í brjósti til útrásarvíkinganna, heldur geri mér ennþá vonir um að fá að taka þátt í svallinu með þeim! ;-)

Kveðja,
Elín
x

søndag den 1. marts 2009

Heilbrigð sál í hraustum líkama!

x
Á föstudaginn endaði kennarinn kennslustundina með því að minna okkur á, að líkamsrækt fjölgar heilafrumunum í hausnum á okkur og hvatti okkur jafnframt til að hreyfa okkur duglega um helgina. Líklega vegna þess að við eigum að mæta i fyrsta tíma hjá honum aftur á mánudagsmorguninn...hehe...!

Þegar ég vaknaði í morgun mundi ég svo skyndilega eftir þessari áskorun og ákvað að það væri líklega ekki svo vitlaust að reyna að fjölga þessum greyjum aðeins, þar sem það eru nú aðeins 2 vikur og 6 dagar í næsta próf! Ég fór á netið og fann næstu sundlaug (sem er reyndar bara mjög nálægt mér), skellti í mig einni pizzusneið og hjólaði af stað. Þegar þangað var komið spurði ég glaðbeittan manninn í afgreiðslunni um það, hvert hitastigið væri á vatninu í lauginni. "Um 26-27 °C" svaraði hann og ég hugsaði í beinu framhaldi með sjálfri mér: "Já, er það ekki bara fínt! Það er bara svipað og í lauginni heima!" enda þótt ég gerði mér fulla grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um hvert hitastigið væri í sundlauginni heima. Fór inn í búningsklefann, fékk hraðnámskeið í að opna og loka skápnum mínum, sem var mjög flókið, tæknilegt ferli, fór í sturtu og út í laug. Byrjaði á að dýfa litlu tánni ofaní, bara til öryggis. "DJÍSUS!!! HVAÐ VATNIÐ ER KALT!!! #$"$%%##$ NÍSKA ER ÞETTA Í DÖNUNUM AÐ TÍMA EKKI AÐ HITA VATNIÐ!!!" flaug á leifturhraða í gegnum gaddfreðnar heilafrumurnar. Definitely MIKLU kaldara en í lauginni heima! Ég sneri við á staðnum og lagði af stað til baka inn í búningsklefann, en mætti Fíu á leiðinni sem rak mig af stað aftur ofan í laugina, því "hún var búin að BORGA!!!" Ég gekk MJÖG HÆGT niður tröppurnar niður í sundlaugina (með Fíu þétt að baki mér), virkilega eins hægt og mögulegt var, án þess að vekja sérstaka athygli sundlaugarvarðarins. Að lokum náði vatnið mér upp að mitti...........og..........ég lifði enn. Ég prófaði að láta mig síga aðeins neðar í laugina og uppgötvaði að mér var það lífsins ómögulegt. Mér varð bara óglatt af kulda ef ég reyndi að fara lengra ofaní. Ég ákvað að taka þetta á ferðinni og skellti mér hratt ofaní, upp að öxlum, og strax upp aftur. Nú sá ég að sundlaugarvörðurinn var farinn að veita mér athygli.........sem var auðvitað gott ef ég fengi nú hjartastopp af kuldanum! Ákveðið öryggi í því! Ég lét mig síga hægt niður aftur og prófaði að dýfa andlitinu.........................brrr.............það var orðið erfitt að draga andann vegna kulda. Nú vantaði bara síðasta skrefið, þ.e. að komast hinumegin við línuna, sem var auðvitað stærsta áskorunin, því þá yrði ég að fara alveg í kaf. Ég notaði sömu taktík og á ófærðina heima, tók það á ferðinni og...........komst alla leið, mér til mikillar undrunar. Byrjaði svo að synda, fyrst bara með höfuðið upp úr, en harkaði af mér eftir fjórðu ferðina og stakk því í kaf. Svo mótaði ég sundreglur Elínar í Danmörku, en þær eru eftirfarandi:

Sundregla 1: Í hverri sundlaugarferð skulu syntar nákvæmlega 20 ferðir, hvorki meira né minna. (Ef áhugi er fyrir hendi og Danir ákveða að hita vatnið í lauginni meira, má síðarmeir taka þessa reglu til endurskoðunar.)

Sundregla 2: Allar 20 ferðirnar skal synda í einum rykk, því ef stoppað er milli ferða til að ná andanum, þá kólnar vatnið svo svakalega á meðan!

Sundregla 3: Allar 20 ferðirnar skal synda með hæsta leyfilegum hámarkshraða til að stytta veru mína ofan í lauginni af fremsta megni.

Sundregla 4: Hjóla/strætóreglan er í fullu gildi í sundlauginni, þ.e. til að halda fullum hámarkshraða skal ávallt leitast við að taka framúr næsta sundmanni fyrir framan.

Sundregla 5: Leyfilegt er að sparka öðrum sundmönnum til hliðar, yfir á næstu braut, ef þeir á einhvern hátt tefja fyrir fullum hámarkshraða með því að þvælast fyrir mér.

Ég hugsa að þetta komi bara til með að ganga nokkuð vel. Við Fía urðum samt sammála um að það borgaði sig ekki að kaupa mánaðarkort í sundlaugina, við kæmum aldrei til með að ná fullri nýtingu út úr því! Athugum kannski með 10 tíma kort (sem gildir, nota bene, í 2 ár!!!) í næstu ferð!

Kær kveðja,
Elín og Fía
x

lørdag den 28. februar 2009

Þolinmæðikeppnin

x
Ég er í þolinmæðikeppni við ósýnilega leigjandann!
Keppnin snýst um það hvort okkar gefst upp fyrr og fer út með ruslið í eldhúsinu. Síðan ég kom til baka úr jólafríinu hef ég eingöngu gert það. Ég hef með ýmsum brögðum reynt að fá hann til þess, en ekki tekist. Þrisvar sinnum hef ég verið búin að loka pokanum og setja út fyrir dyrnar þegar ég hef heyrt ósýnilega leigjandann fara í vinnuna. Framan af var ég vongóð um að hann myndi kannski kippa pokanum með sér og henda í ruslatunnuna (þetta er jú, eftir allt saman, hans rusl líka!) en þær vonir hafa algjörlega brugðist. Maðurinn bara strunsaði framhjá eins og þetta kæmi honum ekki við og ég mátti fara með pokann í tunnuna. Núna, í þessum töluðum orðum er rusladallurinn í eldhúsinu orðinn fullur. (Reyndar er rusladallurinn á klósettinu orðinn fullur líka, en af því að hann er bara fullur af tómum klósettpappírrúllum sem hafa greinilega verið að safnast upp þar í áraraðir, þá geri ég mér engar væntingar um að hann skilji að sá rusladallur tæmi sig ekki sjálfur.........!) Að mínu mati var rusladallurinn í eldhúsinu þegar orðinn fullur fyrir nokkrum dögum síðan, en, ég hef lítið verið heima síðustu dagana og hefur tekist, með þó nokkru átaki, að stilla mig um að tæma hann þegar ég er heima. Núna bara treð ég öllu nýju rusli ofan á hitt og bíð eftir að vinurinn taki við sér. Ég er jafnvel að velta því fyrir mér að mæla á hverjum morgni hæðina á ruslinu til að hafa nákvæmar vísindalegar niðurstöður úr þessari tilraun. Ég hef nú dálítið gaman af svona tilraunastarfsemi..........! ;-)

Þegar ég tók herbergið hérna á Parosvej til leigu, þá sagði leigusalinn mér að leigjendurnir tveir skiptust á um að þrífa sameiginlega rýmið, þ.e. eldhúsið, klósettið og þvottahúsið, einu sinni í viku. Ég taldi að það yrði nú ekki vandamál og hann sagði mér bara að tala við ósýnilega leigjandann til að fá upplýsingar um hvernig skipulagið á því væri. Sem ég svo gerði í byrjun desember. Samtalið fór svona fram:

E: „Hvernig er það með að gera hreint hérna frammi,.......skiptumst við á að þrífa?.....er einhver regla á því?............eða.....?!? (Dönskukunnáttan mín leyfir enn ekki miklu flóknari setningamyndun en þetta..........því miður........)

Ó: „Nei, bara passa að það verði ekki skítugt.“ (Orðrétt: „Nej, bare det ikke bliver beskidt.“)

Svo mörg voru þau orð.................og ég er enn að reyna að skilja hvað maðurinn átti við, því síðan ég kom, fyrir fjórum vikum síðan, hef ég ekki orðið vör við að hann gerði nokkurntímann nokkuð hreint hérna. Ég hef þrifið sturtubotninn, vaskana og skúrað eldhúsgólfið. Svo hef ég að sjálfsögðu tekið mitt eigið herbergi í gegn. Er hann bara einn af þessum mörgu karlmönnum sem ekki sjá skítinn þótt hann sé til staðar? Eða er það bara ég sem er að sjá skít sem „er ekki til staðar“!?! Hvernig „passar“ maður að húsið verði ekki skítugt, ef það er aldrei þrifið???? Vill einhver í almáttugs bænum segja mér hvernig á að fara að því, því ég kann það ekki! Plíííííís!

Ég er samt að hugsa um að gefast upp í þolinmæðikeppninni hvað varðar þrif á klósettinu. Ég hef bara alls ekki endingu í að bíða eftir að honum finnist það nógu skítugt til að þrífa það.....bjakk.....!
Stóra spurningin er: Er þetta bara hormónatengt vandamál sem allir karlmenn glíma við, eða ber að skella skuldinni á slæmt uppeldi? Ég hneigist mest að því að kenna móður hans um!........og í rauninni er ég þeirrar skoðunar að hún ætti að koma hingað á hálfsmánaðar fresti og þrífa sameignina, fyrst hún brást svona gjörsamlega hlutverki sínu!!!

Kveðja,
Elín
x

mandag den 23. februar 2009

I have a dream........

x
Já, ég átti mér draum! Draum um að sitja fyrirlestrana í háskólanum glaðvakandi með einbeitinguna og skerpuna í hámarki. Skilja allt sem sagt var! Geta jafnvel túlkað það á svo nýstárlegan og frumlegan hátt að mín yrði lengi minnst í sögu Kaupmannahafnarháskóla sem íslenska stúdentsins sem ......... uppgötvaði..............hmm.....leyndardóma........hvað eigum við að segja............SJÁLFSINS!!! Of course! Hvað annað?!?
Tækið sem átti að láta þennan göfuga draum rætast, var nýhafin kaffidrykkja mín. Ég verð að viðurkenna að ég batt miklar vonir við kaffið (þótt enn þyki mér það fram úr hófi bragðvont) sem gafst líka með eindæmum vel í byrjun vetrar. Þegar leið að jólum fór hinsvegar að koma babb í bátinn þegar ég fór að tengja aukið stress ekki bara komandi prófum, heldur líka kaffidrykkjunni góðu. Eftir jólin gerði ég lokatilraun, fékk mér einn bolla og fann hvernig stressið (cortisolið) byrjaði að flæða um æðarnar. Þar með var kaffidrykkjunni sjálfhætt.
En, af því að ég er ekki týpan sem er tilbúin að gefa draumana upp á bátinn baráttulaust, þá fann ég aðra leið að markinu. Dag einn, þegar ég var úti í búð að kaupa í matinn, rakst ég á Ginseng á tilboði við kassann. Þar sem ég hef árum saman heyrt talað um undramátt Ginseng við nánast öllum kvillum jarðarbúa, (aukin orka, einbeiting og lífsgæði, svona svolítið eins og Maltölið okkar góða!!!) þá skellti ég mér á einn pakka og ákvað að prófa að taka einn "kúr". Mér fannst liggja í augum uppi að áhrifin yrðu bara eins og af kaffinu, bara án allra óþægilegu aukaverkananna! Algjörlega frábær hugmynd!
Mig rámaði samt óljóst í að hafa prófað þetta einhverntímann áður og hætt, einhverra hluta vegna. Ekki endilega vegna þess að þetta virkaði ekki, heldur af því að það dró úr virkni einhverra lyfja sem ég tók, líklegast annað hvort ofnæmislyfjanna eða bara venjulegra verkjalyfja. Mér fannst það samt ekkert atriði, því ég er ekki á neinum ofnæmislyfjum núna og ef ég þyrfti að taka verkjalyf, þá gæti ég bara sleppt Ginsengtöflunni þann daginn. Ekkert mál!
Og þar með hófst pilluátið! Ein tafla á dag og þetta hafði bara ágætis áhrif á mig. Glaðvaknaði á morgnana og það þótt ég færi ekkert snemma að sofa á kvöldin. Dásamlegt!
Svo, fyrir svona rúmri viku síðan, fór ég að finna fyrir alvarlegum aðkenningi af "middle life crisis" og það af verstu gerð. Ég tók allt í einu eftir því að ég var orðin alveg frámunalega allt of gömul til að vera að eyða dýrmætum tíma mínum í háskólanám, þegar dauðinn var alveg á næsta leiti!!! Þvílík vitleysa, að vera að skilja fjölskylduna eftir heima og þvælast þetta út í lönd, þar sem menn og málleysingjar eru skotnir á hverju götuhorni annan hvern dag! Ég held mér væri nær að vera heima og reyna að vinna fyrir mér eins og almennileg manneskja!
Það var orðið altalað í háskólanum hvernig ástandið á mér var orðið og ekkert gekk að hressa mig við, sama hvað menn reyndu. Enginn botnaði neitt í neinu og ég hélt bara áfram að ganga um með andlitið í götunni og vorkenna sjálfri mér fyrir aldurs sakir!
Síðastliðinn fimmtudag tók ég svo verkjatöflu og ákvað að sleppa Ginsenginu í tilefni dagsins. Það var býsna góður dagur og ég hélt að kreppan væri kannski bara liðin hjá. Hélt svo mínu striki á föstudaginn og komst að því að kreppan hafði bara tekið sér frí á fimmtudeginum, því hún mætti tvíefld til leiks á föstudeginum. Þá fór mig nú að gruna ýmislegt! Ég lagði Ginsenginu og yngdist upp um 20 ár um leið og miðaldurskreppan hrundi af mér!
Svo mætti ég í skólann í morgun, eiturhress, reif alla glugga upp á gátt til að hleypa vorinu inn og óloftinu út. Tina óskaði mér til hamingju með að vera orðin eðlileg aftur (eða eins eðlileg og hægt er að búast við af mér) á meðan Michelle bað mig í guðs bænum að loka gluggunum og byrja aftur á Ginsenginu!!! Hehe........!
Og þannig standa málin núna! Engin örvandi efni fyrir mig, bara gamla góða róandi B-vítamínið og endurnýjuð kynni við manneskjuna sem hérna í gamla daga lagði sig eftir hádegismatinn og svaf svo í tímum hjá Ingimari Eydal (ég er viss um að Linda skammast sín ennþá fyrir mig!!!......hehe.......) Skrambinn! Og ég sem var farin að hlakka til að prófa amfetamínið í vor........býst ekki við að það verði neitt úr því núna!
Svona er lífið......það er ekki á neitt treystandi í þessum heimi. Ég verð víst bara að sætta mig við það að ég er algjör hænuhaus! Þoli ekki áfengi, ekki kaffi, ekki Ginseng. Þakka bara Guði fyrir að ég skyldi byrja nógu snemma að byggja upp sykur- og súkkulaðiþolið.............sem er eina fíknin sem ég get stundað af fullum krafti í þessu lífi................ennþá! ;-)

En.........ætli það sé ekki best að fara að leggja sig og safna orku fyrir morgundaginn...........sé engin önnur ráð til þess! ;-)

Kveðja,
Elín Eydís
x

mandag den 16. februar 2009

Gjaldeyrisbrask.......margborgar sig!

x
Almáttugur minn! Hvað haldiði?! Ég skrifaði Nýja Glitni síðasta föstudag og bað um að láta millifæra til mín 10.000 danskar krónur (u.þ.b. 200.000 ISK) svo ég geti keypt mér öskudagsbollur (fastelavnsboller) á sunnudaginn.

Nýi Glitnir brást skjótt og vel við, tók 10.000 EVRUR (nákvæmlega 1.474.000 ISK) út af reikningnum mínum og bað Davíð Oddsson um að millifæra þetta smáræði. Gallinn var auðvitað sá, að það voru ekki nema 200.000 kr inni á reikningnum mínum....................þ.e.a.s. ef LÍN hefði ekki brugðist snöggt við og lagt námslánin mín, sjöhundruð og eitthvað þúsund inn á reikninginn minn á sömu stundu.................og restina tók Nýi Glitnir bara af yfirdráttarheimildinni minni, þannig að nú er ég 458.000 kr í mínus.

Hvort finnst ykkur nú að ég ætti að gera:

A) Skrifa snarlega til baka og láta leiðrétta mistökin? eða

B) Láta bara leggja allt saman inn í Danske Bank og millifæra svo til Cayman eyja?

Spyr sá sem ekki veit!

..........þ.e.a.s. ef Fía hefur ekki stolist í tölvuna og látið stoppa millifærsluna.......ég held satt best að segja að hún treysti mér ekki fyrir öllum þessum peningum......hehe.......

Bless í bili,
Elín
x

onsdag den 11. februar 2009

Frábær dagur.......

x
........skreið í skólann bara til að láta merkja við mig, því það var mætingarskylda í tímana í morgun. Eyddi svo næstu þremur klukkustundunum í að hlusta á eldri nema útskýra vandlega fyrir mér mengjafræði og líkindareikning ......... sem ég kann auðvitað EKKERT í!!! (kaldhæðni). Afsakið, ég er víst að verða örg á þessu kvefi, enda með ólíkindum óþolinmóður sjúklingur.

Ég fór með kartöflusalat handa Tinu í skólann í morgun, þar sem ég þarf alltaf að elda fyrir a.m.k. 10 manns í einu, finnst þetta ekki taka sig fyrir neitt minna. Vandamálið er bara að ég á í rauninni ekki að vera að nota nema helminginn af ísskápnum. Reyndin er hinsvegar sú að ósýnilegi leigjandinn er með eina hillu, hálfan frystinn og hálfa hillu í hurðinni........og ég er búin að troðfylla restina! Hmm, Michelle spurði mig í morgun hvort ég hefði ekki gefið ósýnilega leigjandanum eitthvað af kartöflusalatinu. Ég sagði henni að það hefði vissulega hvarflað að mér, en ég hefði ekki lagt í það. Svo þegar ég heyrði hann vera að bardúsa í eldhúsinu áðan, þá ákvað ég að fara fram og taka áhættuna...........og.........viti menn..........hann sagði bara "Ja,tak!" (........enda borðar maðurinn aldrei neitt annað en frosnar kjötbollur úr örbylgjuofninum.....hehe....). Kraftaverkin gerast enn. Hallur heldur að hann verði kannski bara orðinn hinn kumpánlegasti í vor......................og heimsæki okkur líklega í sumar!!! ....hehe.....sénsinn! Annars sagði Hallur líka að það væri nú allt í lagi þótt ég legði undir mig allan ísskápinn, fyrst ég væri farin að gefa ósýnilega leigjandanum að borða!!! Mér þóttu þetta mjög skynsamleg rök.

Ég skrapp á pósthúsið í dag til að senda bréf til LÍN, og byrjaði ferðalagið á að læsa mig úti. Vá, hvað ég svitnaði.....hugsaði bara: ".......ég er ekki með lyklana......það er enginn heima.......ég þarf örugglega að bíða hérna úti þar til sonurinn uppi kemur heim úr vinnunni................... x.......NEIIIII!........HJÁÁÁÁLP!...........ÉG ER VEIK!!!!!!!!......fæ örugglega lungnabólgu...................eða eitthvað þaðan af verra!" Ég virkilega sá mína sæng útbreidda, hamaðist á bjöllunni hjá ósýnilega leigjandanum því ég hélt að hann væri heima........bölvaði honum í sand og ösku fyrir að svara ekki bjöllunni.....(svo kom reyndar í ljós að hann var alls ekkert heima, þannig að ég "fyrirgaf" honum allt saman síðar).............og ákvað svo að prófa báðar bjöllurnar uppi. Þá var sonurinn (hér eftir verður hann bara kallaður sonurinn, því hann er sonur hjónanna sem leigja mér) heima eftir allt saman......GUÐI SÉ LOF!...........og hann hleypti mér inn. Sagði mér í leiðinni að hann hefði sjálfur læst sig úti fyrr um daginn, en komist inn um svaladyrnar hjá sér sem hefðu verið opnar (þá veit ég hvar ég get komist inn næst þegar ég læsi mig úti,......hehe.......!) Ég fékk hann til að skipta um síu á krananum í eldhúsinu (ég er á fullu í endurbótum á húsnæðinu........hehe........geri ábyggilega miklu meiri þægindakröfur en Danirnir) og sleppti honum svo lausum.

En, nú ætti ég líklega að fara að lesa aðeins......maður getur nú ekki látið eins og maður eigi afmæli á HVERJUM degi og bara leikið sér.............eða kannski ég fái mér bara aðeins að borða..........kartöflusalat kannski?!? Hmm! ;-)

Bless í bili,
Elín
x

tirsdag den 10. februar 2009

Þyrnirós vaknar eftir 100 ára jólafríið.........

x
F: Góðan daginn Elín og til hamingju með afmælið! Ég keypti þessi blóm handa þér í tilefni dagsins......
E: Æ, þakka þér fyrir Fía mín, það var fallega hugsað af þér........ Hvað finnst þér að við ættum að gera til að halda upp á daginn?
F: Þú liggur nú bara í rúminu í dag fyrst þú ert með kvef. Ég ætla ekki að láta kvefið í þér eyðileggja helgarferðina okkar til Berlínar. Ég skal fara út í búð og á pósthúsið að sækja pakkana.
E: Já, það er líklega skynsamlegast. Finnst þér að við ættum að fara að blogga aftur eftir jólafríið?
F: Endilega, ef þú passar bara að það tefji þig ekki frá náminu!
E: Auðvitað. Heldurðu að það sé slæmt að vera með klofinn persónuleika?
F: Tja, hvað finnst þér.........?!?
x