tirsdag den 17. november 2009

Innantómar kosningar

x
Í dag var kosningadagur í Danmörku. Það væri svosem ekki í frásögur færandi, nema að fyrir nokkrum dögum síðan fékk ég sendan kjörseðil (eða loforð um kjörseðil) í póstinum. Ég horfði á seðilinn dágóða stund, alveg dolfallin yfir því að Danir skyldu treysta mér til að kjósa í borgarstjórnarkosningum. Ég, sem hef ekki einu sinni hundsvit á stjórnmálum heima á Íslandi. Það var samt svolítið spennandi tilhugsun að prófa að kjósa í Danmörku..........það er nú ekki eins og manni bjóðist það á hverjum degi!

Eins og góðri eiginkonu sæmir, þá ráðfærði ég mig við eiginmann minn, áður en ég lét til skarar skríða. Og, eins og góðum eiginmanni sæmir, þá hvatti hann mig að sjálfsögðu óspart til dáða! ;-)
Þannig að, þegar ég kom heim úr skólanum í dag, þá fór ég í mínu fínasta pússi á kjörstað.

Fyrsta hindrunin var auðveldlega yfirstigin, eða það að finna kjörstaðinn, því hann var í barnaskólanum hérna í næstu götu, sem ég hjóla alltaf framhjá á morgnana.........og Danir höfðu að sjálfsögðu verið svo hugulsamir við útlendinginn að skrifa það inn á seðilinn sem þeir sendu mér með póstinum. Það var auðvelt að finna réttu dyrnar, ég hafði séð hvar fólkið streymdi inn og út í morgun, þegar ég var á leiðinni í skólann. Þegar inn var komið, notaði ég svo bara gömlu, góðu aðferðina sem hefur aldrei brugðist mér þegar ég þarf að rata hérna í Kaupmannahöfn, sem er að elta bara næsta mann á undan mér og gera nákvæmlega eins og hann. Klikkar ALDREI! Inni voru borð sem voru merkt frá 1 og upp í 8. Eitthvað rámaði mig í að seðillinn minn væri merktur borði númer 5, sem reyndist rétt vera. Auðvitað hefði ég samt ekkert þurft að athuga það, því maðurinn sem ég var að elta gekk beinustu leið að borði númer 5, hvað annað?! Þegar búið var að afgreiða hann, gekk ég að borðinu og rétti fram seðilinn góða, eins og fylgdarmaður minn hafði gert, og bjóst til að veiða skilríkin upp úr vasanum. Sá danski fyrir framan mig kom mér þá að óvörum og í stað þess að biðja mig um skilríki, þá spurði hann mig hvenær ég ætti afmæli. Þetta kom svo flatt upp á mig, því fram að þessu hafði allt gengið svo nákvæmlega samkvæmt áætlun, að ég ætlaði í fyrsta lagi aldrei að fatta til hvers hann vildi vita hvenær ég ætti afmæli, og í öðru lagi hvernig ég ætti að segja það á dönsku. Ég er nefnilega svo vön því að þurfa að hugsa mig lengi um þegar ég þarf að segja 50, 60, 70, 80 og 90, að ég fór bara í kerfi og var lengi að átta mig á því að það væri sennilega ekkert vandamál að segja 10. febrúar. Þegar mér tókst svo loksins að segja 10. febrúar og bjó mig undir að finna 1972, þá nennti maðurinn ekki að bíða lengur, lét þetta bara gott heita og sendi mig áfram. Þá mætti mér annað áfall. Ég, ræfilstuskan, sem er vön að fá oggolitla kjörseðla í hendurnar heima á Íslandi, sbr. síðustu alþingiskosningar, og láta svo sýslumanninn segja mér hvaða bókstaf ég á að skrifa á miðann, fékk í hendurnar ekki bara eitt, heldur tvö, RISAVAXIN plaköt, sem ég vissi bara alls ekkert hvað ég átti að gera við. Ég hef bara aldrei á minni lífsfæddri ævi séð aðra eins kjörseðla!!! Á mig kom mikið fum og fát og ég bað konuna sem rétti mér kjörseðlana, vinsamlegast að taka mig á námskeið í notkun þeirra. Hún byrjaði að útskýra, þurfti svo að afgreiða fleiri og sendi mig til mannsins sem vísaði fólkinu inn í kjörklefana. Honum þótti nú ekki nema sjálfsagt að útskýra þetta allt saman fyrir mér: Ef ég vildi kjósa ákveðinn flokk, þá setti ég X fyrir aftan flokkinn og þá væri ég að kjósa fólkið í þeirri röð sem það væri á listanum. Ef ég vildi kjósa ákveðna manneskju, þá setti ég X fyrir aftan nafnið á þeirri manneskju og þá fengi hún atkvæðið, þótt hún væri fyrir aftan aðra í röðinni.

Þetta þótti mér með eindæmum gott kosningakerfi hjá Dönunum og þakkað með virktum fyrir kennsluna. Svo var mér að sjálfsögðu vísað næstri inn kjörklefa, enda þótt það væru margir komnir í biðröð á undan mér, enda merkileg manneskja og mikilvægt að ég fengi að kjósa sem fyrst.

Þegar inn í kjörklefann kom, mætti mér vandamál sem ég hafði ekki gert ráð fyrir. Ég sá sem sagt hvergi nokkursstaðar penna eða annað álíka verkfæri til að hripa atkvæðið mitt niður á plakatið! Árans vesen! Átti maður sjálfur að koma með skriffæri með sér, eða hvað?!? Þegar ég var um það bil að fara til baka út úr kjörklefanum og biðja vin minn um að lána mér penna, sá ég allt í einu spotta hanga niður með veggnum, við hliðina á púltinu sem nota átti til að kjósa. Þar sem ég er svo ákaflega skýr í hugsun og fljót að átta mig, fikraði ég mig niður eftir spottanum og dró svo sigri hrósandi upp risastóran blýant, í stíl við kjörseðilinn, auðvitað. Svo bara krossaði ég mig og þakkaði guði fyrir að ég skyldi ekki hafa gert mig að fífli með því að fara út úr kjörklefanum og biðja um aðstoð við að FINNA blýantinn!!!

Nú halda sjálfsagt flestir sem þetta lesa, að það versta hafi verið yfirstaðið og eftirleikurinn auðveldur. Svo var þó alls ekki. Nú fyrst rann upp fyrir mér að ég þurfti að velja hvar ég átti að setja krossinn. Og ekki bara einn, heldur tvo! Ég sem hélt að ég væri bara að kjósa borgarstjórn í Kaupmannahöfn, var með annan seðil í höndunum sem ég hafði ekki grænan grun um til hvers var. Og nú þurfti ég að velja. Ég ákvað að byrja á þeim gula, sem ég vissi ekki til hvers var. Þar sem ég kannaðist ekki við eitt einasta nafn á kjörseðlinum ákvað ég að það væri auðveldara að velja bara flokk. Mér leist ekki á Kristendemokraterne eða Nihilistisk Folkeparti og þorði ekki almennilega að taka afstöðu með Radikale Venstre, þeir hljómuðu eitthvað svo róttækir, ég veit ekki af hverju..................þannig að fyrir rest ákvað ég að setja kross við Socialdemokraterne, mér fannst þeir einhvernveginn huggulegasta nafnið af öllum flokkunum, svona mest traustvekjandi, einhvernveginn..................hmm, já................. og hafði heyrt þennan flokk nefndan áður, einhverntímann í sjónvarpinu...............! Vel hugsað, Elín!

Þá var bara eftir hinn kjörseðillinn, sá hvíti. Þar var ég þó aðeins meira inni í hlutunum.
Þar kom til greina hún Anna Mee Annerslev frá Radikale Venstre, sem hafði komið í háskólann og látið mig hafa dreifirit með stefnumálum sínum, sem ég hafði samviskusamlega lesið. Hún vildi leggja niður alla bílaumferð í Kaupmannahöfn og láta alla borgarana hjóla milli staða, og búa til "græna" økologiska stórborg með grænum görðum, fersku fjallalofti og engum glæpum. Þar sem ég á engan bíl hérna í Danmörku, þá fannst mér þetta bara vera virðingarverð kosningaloforð sem vel væri hægt að styðja við, með svona eins og einu atkvæði.

Nú, svo var auðvitað hann vinur minn, Michael Haugaard, sem bauð sig fram fyrir Venstre Liberale (sem mér fannst, nota bene, hljóma mun afslappaðra og meira traustvekjandi en Radikale Venstre). Hann hafði ég séð, hangandi á öðrum hverjum ljósastaur, nokkrar undanfarnar vikur og fannst hann bara býsna sætur. Ég meina, ekki færi ég að kjósa einhvern ljótan! Það bara kom augljóslega ekki til greina!!! Mér fannst ég óljóst hafa séð að hann vildi fjölga leikskólaplássum á höfuðborgarsvæðinu og styðja við barnafjölskyldur og aldraða, en ég var samt ekki ALVEG 100% viss um að það hefði verið hann. Þannig að, af því að ég er nú svona heldur meira gefin fyrir karlmenn en konur, og hann var sá eini sem ég gat verið alveg viss um að myndaðist vel þegar hann væri kominn í borgarstjórn, þá setti ég krossinn við Mikka vin minn. Mér fannst líka, því auðvitað var ég bara að kjósa alveg út í bláinn, að ef ég merkti við Socialdemokraterne (sem mér þótti hljóma svona dáldið "hægri") á öðrum seðlinum og Venstre Liberale (sem óneitanlega hljómuðu svolítið "vinstri", einhverra hluta vegna) á hinum seðlinum, þá myndi þetta bara núllast út og ég þyrfti ekkert að bera ábyrgð á gerðum mínum.

Þegar seinni krossinn var kominn á sinn stað, baksaði ég dágóða stund við að brjóta seðlana saman án þess að missa þá í gólfið þannig að þeir lentu inn í næsta kjörklefa, sem var nú ekkert áhlaupaverk. Það tókst samt fyrir rest og ég var mest hissa á að vinur minn þarna fyrir utan skyldi ekkert vera búinn að athuga hvort það væri allt í lagi með mig, því þetta hafði sko tekið tímann sinn. Svo fór ég út úr klefanum bakatil þar sem voru idiotproof kjörkassar, merktir með gulu og hvítu, (ég spurði nú samt til öryggis), stakk snyrtilega samanbrotnum miðunum ofan sitt hvorn kassann, og gekk út létt á fæti.

Þegar ég kom aftur heim, hringdi ég í Hall og sagði honum alla sólarsöguna. Hann sagði mér á móti að í vor yrðu sveitarstjórnarkosningar heima. Ég sagði honum að mér yrði líklega ekki skotaskuld úr því að kjósa til sveitarstjórnar, því nú væri ég komin með nýtt kerfi til að velja.
Ég kysi bara þann sem mér þætti sætastur!

Nú situr Hallur heima og veltir vöngum yfir því hver mér þyki nú sætastur; Ásvaldur, Garðar, Arnór, Hlynur eða Erlingur á Brún! ;-)

Kær kveðja,
Elín
x

4 kommentarer:

  1. Aðalbjörg Tryggvadóttir17. november 2009 kl. 13.15

    Hehehe já valið verður erfitt í vor. Virkar Ugla sat á kvisti ekki alltaf ágætlega? Hljómar annars spennandi að kjósa í útlöndum ;)

    SvarSlet
  2. Væri ekki best fyrir þig að fá að mynda þá sjálf og fá að vita hvernig þeir eru sem fyrirsætur líka?

    SvarSlet
  3. Góð hugmynd Lilja! Kannski ég taki bara að mér að mynda fyrir kosningaauglýsingarnar í vor! Ætli þeir fáist nokkuð til að vera berir að ofan...hehe...?!?

    Abba.....þarft þú nokkuð að nota "ugla sat á kvisti"........?!?

    SvarSlet
  4. Það eru aldeilis ævintýri sem þú lendir í þarna í útlöndunum. Þurftir þú ekki bara að fara heim og hvíla þig eftir þetta alltsaman! En þú stóðst þig vel. Ég skil alveg röksemdirnar sem liggja að baki vali þínu ;o)
    KV. Kolla.

    SvarSlet