onsdag den 18. marts 2009

Matarinnkaup.......

x
Þessa dagana er ég á kafi í að læra fyrir próf, þannig að það fer lítið fyrir bloggi á meðan. Ég hef reynt að fá Fíu til að blogga fyrir mig en hún telur það fyrir neðan sína virðingu (og mína reyndar líka......). Fía hefur nefnilega skoðanir á öllum hlutum og hennar skoðanir eru ævinlega réttar, að eigin mati. Hún má þó eiga það, að hún er hörkudugleg við heimilisstörfin. Í gær, t.d., þreif hún allt í hólf og gólf svo allt yrði hreint þegar Eyþór kemur á laugardaginn. Ég sat bara og las fyrir prófið á meðan.

Það eina sem gerst hefur markvert síðustu dagana er, að það hefur ítrekað verið reynt að svindla á okkur Fíu í dönskum matvöruverslunum. Okkur hefur nú oft þótt þetta slæmt heima, en hér í Danmörku þykir okkur það alveg keyra um þverbak. Þegar við förum saman í búðina þá fer Fía alltaf vandlega yfir strimilinn áður en hún leyfir mér að fara heim, og tvisvar núna undanfarið hefur hún uppgötvað svindlið á staðnum og fengið það leiðrétt. Hún er nefnilega assgoti snögg að reikna í huganum hún Fía, þannig að það er ákaflega gott að hafa hana með sér í búðina. Ekki eins og ég, sem hef ítrekað flaskað á margföldunartöflunni í tölfræðiáfanganum sem ég er í núna.........er eiginlega bara hætt að reyna og farin að reikna allt með vasareikninum....... :-(

Það er heldur verra þegar ég fer ein í búðina. Þá gleymi ég nefnilega alltaf að fara yfir strimilinn í búðinni. Þegar ég kem svo heim, þá situr Fía fyrir mér við dyrnar, finnur strimilinn í pokanum og svo þarf ég að fara að rifja upp hvernig hlutirnir voru verðmerktir í búðinni. Þegar hún kemst svo að því að eitthvað var vitlaust skannað inn, eða ég fékk ekki einhvern afslátt sem ég átti að fá, þá er ég miskunnarlaust send til baka til að fá endurgreitt. Þetta er bölvað vesen og ég hef alls engan tíma til að standa í þessu. Þess vegna tek ég Fíu bara alltaf með mér í búðina núna. Það er mun minni fyrirhöfn fyrir mig. ;-)

Bless í bili,
Elín
x

1 kommentar:

  1. Já, eins gott að þið farið tvær í búðina. Láttu ekki þessa útlendinga svindla á þér!!!
    Kv. Kolla.

    SvarSlet