tirsdag den 2. december 2008

Ósýnilegi leigjandinn.

x
Ósýnilegi leigjandinn er snjall........og ber nafn með rentu. Þegar ég kom heim í gærkvöldi kl. 9 var hann með þvottavélina í gangi. Ég steikti mér fisk á pönnu og hafði mína hentisemi þar til ég fór að sofa kl. 11, en hann lét sko ekki sjá sig frammi. Hengdi þvottinn upp annaðhvort eftir að ég var sofnuð eða áður en ég vaknaði í morgun. Þegar ég loksins gat hugsað mér að opna augun kl. 8 í morgun heyrði ég útidyrnar lokast. Annaðhvort er maðurinn svona mikil mannafæla/ kvennafæla eða hann hefur eitthvað að fela.

Þegar maður býr svona með einhverjum sem maður þekkir ekki, er að ýmsu að hyggja. T.d., á ég að fara í slopp utanyfir.........mig........ef ég þarf að fara á klósettið á nóttunni?!? Á ég að læsa herberginu mínu yfir nóttina meðan ég sef, af ótta við.......tja, þið megið bara beita hugarfluginu........! ...........og ýmislegt fleira. Eftir töluverða umhugsun tók ég eftirfarandi ákvarðanir:

1. Já, það er smekklegra að fara í slopp, ef ósýnilegi leigjandinn skyldi líka vera næturgöltrari.
2. Nei, ég ætla ekki að læsa herberginu yfir nóttina, því ef ég þarf að fara fram, þá heyrist svo hátt í læsingunni að ég kann ekki við að vekja alla í húsinu um miðja nótt.

Reyndar er ég alveg hætt að hafa áhyggjur af að mæta honum neitt frammi yfirhöfuð, þannig að ákvörðun númer eitt er eiginlega óþörf. Hvað varðar ákvörðun númer tvö, þá leysti ósýnilegi leigjandinn það vandamál fyrir mig í gærkvöldi, þegar ég heyrði að hann læsti sínu herbergi fyrir nóttina.........hehe............svo það er allavega örugglega ein læst hurð á milli okkar. Honum hefur líklega litist þannig á mig að ég væri líkleg til að brjótast inn og "overfalde ham" einhverja nóttina.....................lít greinilega út fyrir að vera í örvæntingarfullri þörf fyrir karlmann!!! Hehe.........aldrei að vita!
Það er kannski bara gott að hann skuli vera hræddari við mig en ég við hann...................! ;-)

Það verður allavega greinilega ekki mikill félagsskapur í honum þessum.....!

Kveðja,
Elín
x

mandag den 1. december 2008

Sagan endalausa.......

x
Jæja, þá er ég loksins flutt. Úr dýru íbúðinni í Valby (8500 DKK), í helmingi ódýrara herbergið á Amager (4000 DKK). Það eina sem ég gæti hugsanlega séð eftir í Valby, var þegar ég sat í forstofunni á morgnana að reima skóna mína, og kallinn á neðri hæðinni stakk hausnum út um gættina á eldhúsinu, brosti sínu blíðasta til mín og sagði: „Go‘ morgen Elín!“ Það fannst mér ákaflega notaleg byrjun á deginum. Spurning hvort leigjandinn í hinu herberginu stendur sig eins vel, annars gæti ég þurft að fá mynd af kallinum á náttborðið hjá mér!?! ...................og það er líklega best að Hallur byrji að æfa sig í að stinga hausnum undan sænginni, nývaknaður og ferskur, brosa sínu blíðasta og segja: „Go‘ morgen Elín, min skat!“ Hann verður að standa sig í því, ef hann vill ekki að ég sé með mynd af þeim danska á náttborðinu!!!......hehe......

Nú, flutningarnir sjálfir tókust, sem var ekkert minna en kraftaverk, í rauninni. Ég pakkaði öllu niður á fimmtudeginum og keypti mér pizzu á ítalska staðnum á horninu í kvöldmatinn. Kona Ítalans gantaðist með að hann hefði búið til hjartalaga pizzu handa mér, sem mér fannst hæfa tilefninu vel, þar sem þetta var síðasta kvöldmáltíðin mín í Valby. Á föstudagsmorguninn byrjaði ég daginn á að fara í ofnæmissprautuna hjá lækninum. Það gekk bara vel, þótt blessaður læknirinn væri hjúkrunarkonulaus og útúrstressaður. Að því loknu fór ég heim og fékk mér kalda pizzu í morgunmatinn (lystin var nú ekki beint upp á marga fiska og ísskápurinn auðvitað galtómur). Svo hófst ég handa við að bera allt draslið niður áður en flutningabíllinn kæmi klukkan eitt. Fékk mér síðan súkkulaðiköku og eitt gamalt epli í hádegismat.

Klukkan eitt kom flutningabíllinn,......allt of lítill sendlabíll, þar sem ég hafði annarsvegar greinilega gert of lítið úr dótinu sem ég er búin að sanka að mér, þegar ég pantaði bílinn, og hinsvegar vegna þess að maðurinn í símanum hafði bara heyrt orðið „bókahilla“ þegar ég sagði skýrt og greinilega, á minni bestu dönsku: „sófi, tvö rúm og bókahilla“. Þetta var mjög svekkjandi, ég hafði nefnilega verið svo svakalega ánægð með mig þegar kallinn í símanum skildi alveg dönskuna mína. Í haust fóru þessar símapantanir nefnilega allar fram á ensku. Jæja, flutningamaðurinn tók upp gemsann sinn, hringdi í símakallinn og skammaði hann, sagði mér svo að hann færi í annað verk, en það kæmi stærri bíll eftir hálftíma. Ég sá hálfpartinn eftir honum, hann var eitthvað svo glaðlegur og almennilegur, og nógu þrekvaxinn til að ég treysti honum til að bera sófann með mér........eða til að bera sófahelvítið einn, eftir að ég væri búin að gefast upp! (Þið afsakið orðbragðið, það er bara nauðsynlegt þegar ég fjalla um flutningana á hornsófanum!) Eftir hálftíma kom stærri flutningabíll, með hálf væskilslegum bílstjóra, að mér fannst. Ég er jafnvel ekki frá því að þetta sé sá sami og bar sófann með mér í haust, sá sem lét mig halda undir þyngri endann og stökkva svo með hann niður úr flutningabílnum svo ég sneri mig um hægri ökklann og sleit eitthvað í vinstra hnénu, sem er varla gróið ennþá. Það fauk í mig þegar ég rifjaði þetta upp, en þar sem ég var ekki 100% viss um að þetta væri maðurinn, (gat hugsanlega verið tvíburabróðir hans), þá var ég nú ekkert að gera neitt veður út af því. Og þótt hann stæðist engan veginn samanburð til fyrri bílstjórann sem hvarf á braut, þá var hann nú ekki svo slæmur, greyið. Mér fannst reyndar hálf skrýtið, hvernig hann spurði mig alltaf hvað við ættum að taka næst, og hvernig við ættum að raða húsgögnunum í bílinn, ég meina, átti hann ekki að vera sérfræðingurinn í því?!? En,.......þar sem ég er nú vön að hafa skoðanir á hlutunum, þá varð mér engin skotaskuld úr því að leiðbeina manninum við verkið,.....maður hefur nú flutt áður! ;-)

Þannig að fj....... sófaflykkinu var troðið út um dyrnar uppi með tilheyrandi skemmdum á dyrakarminum, (kallinn niðri tók því með stóískri ró og sagðist myndu geta málað sjálfur yfir skemmdirnar þegar þetta væri yfirstaðið,............... enda var honum nær að setja upp svona allt of mjóa hurð, segi ég nú bara!!!) Munurinn á þessum flutningum og þeim í haust, var hinsvegar sá, að núna vissi ég við hvað var að etja og var búin að undirbúa mig. Búin að skrúfa lappirnar undan sófanum, taka hurðina af hjörunum og myndirnar niður af veggnum í stiganum. Svo var ég ofsalega sniðug og spurði kallinn niðri hvort það „borgaði sig nokkuð að setja hurðina og myndirnar aftur upp fyrr en nýju leigjendurnir væru fluttir inn?“ Sem fyrir mig þýddi auðvitað bara að þá þurfti ÉG ekki að hafa fyrir því, hehe........mjög ánægð með mig að hafa sloppið við það!

Fyrir rest vorum við komin á áfangastað með alla búslóðina og gekk mun betur að koma sófanum inn í herbergið en út úr íbúðinni...........ég var reyndar orðin svo máttfarin í restina að ég missti sófahelminginn hvað eftir annað úr höndunum á mér og flutningakallinn varð bara að velta honum á bakið og ýta svo síðasta spölinn því ég var orðin alveg vita gagnslaus. (Það er hart að þurfa að viðurkenna að stundum bara þarf maður á karlmönnum að halda.......nú, ef maður ekki stundar lyftingar að staðaldri. Spurning um að ég fari bara að byrja á því!) Svo borgaði ég manninum fyrir viðvikið og hann lét sig hverfa með háðslegum athugasemdum um að „gangi mér vel með framhaldið!“...... sem mér fannst nú aldeilis óviðeigandi og óþarfar.

Ég herti mig upp í að bera restina inn, tókst með harmkvælum að setja sófann aftur saman og fékk mér svo skyndinúðlur (það getur sko komið sér vel að eiga þær á heimilinu!) og súkkulaðiköku í kvöldmatinn áður en ég lagði af stað aftur upp í Valby til að þrífa íbúðina. Setti útvarpið á fullt, eintóm jólalög núna á Radio Soft, og tók svo allt í gegn, svona eftir því sem mér fannst þurfa þykja. Það sem gladdi mig einna mest við þrifin var að þetta skyldi vera allra síðasta skiptið sem ég þyrfti að þrífa helv...... nuddbaðkarið, það var sko ekki skemmtileg framkvæmd! Klukkan ellefu um kvöldið var ég búin og rölti af stað út á strætóstoppistöð, með skrúbbinn í annarri hendi og fötuna í hinni, minnug þess að Sibba frænka (hans Halls) sagði einn aðal kostinn við Kaupmannahöfn vera þann, að maður gæti gengið úti á götu eins undarlega til fara og manni sýndist, og það væri allt í lagi því enginn þekkti mann! Það tókst mér vel, þetta umrædda kvöld. Var komin heim í herbergið um kl. 12, fékk mér súkkulaðiköku og vatnsglas fyrir háttinn, fann tannburstann fyrir rest á góðum stað og fór að sofa um hálf tvö. Átakamesti dagur ársins hjá mér, alveg pottþétt!

Laugardagurinn fór að mestu í að þrífa herbergið og ganga frá dótinu. Ég hefði þurft að komast í búð og kaupa í matinn, en af því að það rigndi allan daginn og ég var svo eftir mig eftir föstudaginn (bakverkur og strengir bókstaflega alls staðar) að ég gat varla hreyft mig, þá lifði ég mest megnis á íbúfeni allan laugardaginn. Á einhverjum tímapunkti tók ég þá frábæru ákvörðun að ég vildi ekki hafa sófann þar sem hann var, svo ég tók hann aftur í sundur, færði hann og setti aftur saman. Ákaflega skemmtilegt! Þegar leið á seinnipartinn áttaði ég mig á því að ég hafði enn ekki rekist á nokkra manneskju þarna í húsinu. Það bólaði enn ekkert á leigjandanum í hinu herberginu og ég gerði úr því skóna að annaðhvort væri hann svona mikil mannafæla að hann hefði lokað sig inni til að þurfa ekki að hitta mig, eða hann hefði farið heim í sveitina yfir helgina. Tók þá ákvörðun að vísa hér eftir til hans sem „ósýnilega leigjandans“! Nú, fyrst Palli var einn í heiminum, þá bara hafði ég mína hentisemi, lagði undir mig eins mikið pláss og mér fannst hæfilegt í ísskápnum, eldhúsinu og baðherberginu og endaði svo daginn á að elda fyrirtaks máltíð úr hráefnum sem ég vissi ekki einu sinni að ég ætti; pylsur, spæld egg, bakaðar baunir og gervikartöflustappa. Hefur aldrei bragðast eins vel og eftir allar skyndinúðlurnar og súkkulaðikökuna.

Á sunnudeginum svaf ég fram að hádegi, tók svo strætó upp í Valby til að skila aukasettinu af lyklunum að íbúðinni sem ég tók „óvart“ með mér í flutningunum, (skv. Freud þá gerir maður svona lagað aldrei óvart, hann hefði fullyrt að þetta væri undirmeðvitundin hjá mér sem ekki vildi flytja.......) og fór svo í skólann til að reyna að læra aðeins. Kom við hjá McDonald‘s á leiðinni (já, Agnes mín, mataræðið er alveg farið í vaskinn þessa dagana....ekkert grænmetisfæði hjá mér núna!) til að kaupa í kvöldmatinn og sat svo í háskólanum og lærði til kl. hálf tíu. Tók metroinn heim og var komin heim nógu snemma til að sjá ljós í glugganum hjá „ósýnilega leigjandanum“. Hmm, var orðin mjög spennt að sjá framan í hann morguninn eftir.

Vaknaði síðan klukkan sex í morgun og fór í sturtu. Byrjaði auðvitað á að þrífa sturtubotninn, því það hafði greinilega ekki verið gert frá síðustu jólum, og ég gat ekki hugsað mér að stíga með mínum viðkvæmu fótum á þennan óþverra.......fótsveppir ábyggilega í algleymingi í þessari sturtu! Það var talsvert mikið auðveldara en þrifin á nuddbaðkarinu, sem gladdi mig að sjálfsögðu ósegjanlega mikið. „Ósýnilegi leigjandinn“ hélt sig til hlés þar til ég var nánast tilbúin til að fara út úr dyrunum, þá bara gat hann ekki haldið í sér lengur og skaust á klósettið þegar ég sá ekki til. Kom svo aftur fram þegar hann hélt að ég væri farin, en......hehe......ég var ekki farin, því ég hafði þurft að koma aftur inn til að sækja hjólaljósið mitt, svo, hann neyddist til að heilsa mér.

Ég á svo sem ekki von á að „ósýnilegi leigjandinn“ verði lífið og sálin í þessari sambúð okkar, en það er allt í lagi með hann..................hann virðist alla vega ekki vera neinn raðmorðingi eða nauðgari, svo ég ætti að geta sofið rólega á nóttunni þess vegna. ;-)

En, svona allt opsummerað, þá líst mér bara mjög vel á þessi nýju heimkynni. Ég hjólaði í skólann í morgun og jólaskreytingarnar á leiðinni eru bara STÓRKOSTLEGAR! Svo stórkostlegar að ég gat ekki einbeitt mér að því hvert ég var að fara og fór kolvitlausa leið. Endaði við Østerport lestarstöðina, sem er langt úr leið og bullaði mig svo einhvernveginn til baka í skólann, þannig að það fór allt vel að lokum.

En.......nú er best að fara að læra.
Kem heim eftir........eina viku........og .....................þrjá daga!!! VÍíííííííííííí!!!!
Kveðja,
Elín
x