torsdag den 5. marts 2009

Flugfarir

x
Fyrir nokkrum dögum síðan hringdi Eyþór í mig. Ég var inni í eldhúsi að vaska upp og þegar ég kom aftur inn í herbergi, sá ég ein 10 stk missed calls á símanum, þannig að ég hringdi til baka. Eyþór svaraði strax, og honum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði við mig:
"Mamma! Ég fékk alveg FRÁBÆRA hugmynd!!!"
"En gaman!" sagði ég. "Hvaða hugmynd fékkstu?"
"Hvað......ef........ég...........kem bara núna bráðum og heimsæki þig til Danmerkur!!!"
Ég varð orðlaus í eitt augnablik. Sem betur fer gerist það ekki oft og stendur ekki lengi yfir í einu. Svo svaraði ég:
"Ástin mín, þetta var frábær hugmynd hjá þér! Við þurfum bara að skoða hvenær það er hægt. Ég er nefnilega að fara í próf eftir tvær vikur, en þú gætir kannski komið þegar ég er búin í prófinu. Ég skal bara tala við pabba þinn og athuga hvort þetta er hægt. En.........þá þyrftirðu kannski að fara einn í flugvélinni aðra leiðina..........heldurðu að þú þorir það?"
"Jaaaá, sko, það eina sem ég veit ekki er sko hvert ég á að fara þegar ég kem út úr flugvélinni..........en þá get ég kannski bara beðið einhvern um að sýna mér það............"
"Nei, nei, þá myndu flugfreyjurnar passa þig," sagði ég, "og fylgja þér alveg til mín. Það er allt í lagi með það, þú þarft ekki að fara alveg einn! En við þurfum líka að athuga hvað þetta kostar áður en við ákveðum það."
"Jaaaá, sko ég er búinn að safna fullt af peningum...............þannig að ég get alveg borgað.......!"

Ég fékk nagandi samviskubit vegna litla barnsins míns sem saknaði mömmu sinnar svona óskaplega að hann var tilbúinn til að vaða eld og brennistein (svo ekki sé nú minnst á að eyða öllum sparnaðinum sínum) til að hitta hana. Við Hallur ræddum málið, komumst að því að Anita er að fara aftur út þann 21. mars (sama dag og ég er í prófinu) og sáum að það væri alveg upplagt að biðja hana um að taka Eyþór með sér. Svo gæti hann bara komið aftur heim með mér þann 27. mars. Við töluðum við Anitu sem sagði þetta sjálfsagt mál og svo fór ég í símann í morgun og hringdi í flugfélögin (því ég átti bókað með Icelandair og Anita með Iceland Express) til að fá að bæta Eyþóri við bókanirnar. Ég byrjaði á Icelandair, þar sem mér var tjáð að það væri ekki hægt að bæta við bókunina, en ..............það væri hægt að bóka hann sér.
"Fínt er," sagði ég, "hvað þarf ég þá að borga mikið fyrir hann?"
"53.000 krónur," svaraði konan í símanum.
"FIMMTÍUOGÞRJÚÞÚSUND KRÓNUR????" argaði ég í símann, því mér varð svo mikið um þetta. "Þú veist að hann er bara sjö ára gamall, er það ekki?!? Eruð þið ekki með barnafargjöld???"
"Þetta ER barnafargjaldið. Fullt fargjald er 76.000 kr. Ef það eru minna en 25 daga í brottför og þið pantið bara aðra leiðina, þá er ekki hægt að fá tilboðsfargjöld!"
"Þú ert að grínast!" sagði ég (ekki kurteis, en samt ekki ókurteis..........). "Ég fer ekki að borga 53.000 krónur fyrir barnið frá Kaupmannahöfn.......og það bara aðra leiðina!"
"Við getum kannski bókað hann báðar leiðir, þótt hann fari bara aðra leiðina, það gæti verið ódýrara!" sagði konan, "öll" af vilja gerð til að hjálpa mér. "Þá geturðu fengið þetta á 33.000 krónur!.......og þú SPARAR 20.000 krónur!!!"
"Já, en, hann fer bara aðra leiðina......?!" sagði ég, ekki alveg að skilja þetta. "Get ég þá afpantað hina leiðina seinna og fengið hana endurgreidda???"
"Neeei, ÞAÐ er ekki hægt!" og nú var oggolítið farið að síga í hana.
"Já, en mér finnst 33.000 krónur bara LÍKA allt of mikið fyrir sjö ára gamalt barn aðra leiðina til Kaupmannahafnar!" svaraði ég, og nú var oggolítið farið að síga í mig líka. "Sko, ég get fengið flug sama daginn með Iceland Express á 27.000 krónur, fyrir okkur BÆÐI! Ég verð þá bara að afpanta flugið mitt hjá ykkur og bóka okkur bæði hjá Iceland Express!"
"Já, gangi þér bara vel með þetta!" og svo skellti hún á mig. Svo mörg voru þau orð og ég mátti hringja aftur og tala við annan þjónustufulltrúa sem fannst líka að ég gæti bara borgað 53.000 krónur eða skilið barnið mitt eftir úti í Kaupmannahöfn. Þannig að ég bað hana um að afpanta flugið mitt og hún sagðist myndu "koma því í ferli", hvað svo sem það nú þýðir á mannamáli. Í viðleitni minni við að skilja það spurði ég hvort upphæðin yrði endurgreidd inn á kreditkortið mitt. Hún sagðist ekki geta svarað því, beiðnin færi bara í ferli og ég ætti að fá endurgreidda flugvallarskattana og helminginn af fargjaldinu (því ég hafði ekki pantað forfallatryggingu, þar sem ég vissi að ég færi heim þennan daginn, dead or alive!). Þá spurði ég hvað það væri mikið og hún svaraði með þótta, að það væri ekki hún sem reiknaði það út, hún sendi málið bara í F-E-R-L-I!!!" Þá gafst ég upp, þakkaði INNILEGA fyrir FRÁBÆRA þjónustu og strengdi þess dýran eið að ALDREI AFTUR skyldi ég bóka flug með Icelandair!!! ........og það mun ég svo sannarlega standa við.
Svo hringdi ég í Iceland Express og bað um að Eyþóri yrði bætt við bókunina hennar Anitu. "Ekkert mál!" svaraði konan, og það VAR ekkert mál og kostaði ekki nema 10.000 krónur + 1.500 króna breytingagjald. Ekkert nema lipurðin og liðlegheitin á þeim bænum, eins og ég svosem átti von á, því ég hef áður þurft að hringja þangað til að breyta bókun.

Þegar ég kom svo heim seinnipartinn, leit ég í póstkassann til að athuga hvort pakkinn sem Hallur sendi mér fyrir helgi væri kominn. Enginn miði í póstkassanum, svo ég bölvaði B-póstinum í hljóði og fór inn, frekar pirruð eftir daginn, og.......sá....................pakkann minn liggjandi við herbergisdyrnar mínar. Mikið óskaplega þótti mér þá vænt um ósýnilega leigjandann.........fyrir að hafa tekið við pakkanum fyrir mig. Hann var bara heppinn að vera farinn í vinnuna, því annars hefði ég líklega kysst hann fyrir, ég var svo þakklát! Ég verð bara að játa, að hann var ekki manna líklegastur til að bjarga deginum fyrir mér, en, það gerði hann svo sannarlega. Best að hætta að fjasa yfir því þótt hann þrífi ekki klósettið og baka bara pönnukökur handa honum um helgina..........hehe..........blessaður vinurinn...........

Svo hringdi ég í Eyþór til að segja honum góðu fréttirnar, þ.e. að hann fengi að koma í heimsókn og það væri búið að panta flugið handa honum:
"Hæ Eyþór! Veistu bara hvað?! Ég er búin að panta flugið handa þér!"
"Jaaaaá......" (frekar dræmt)
"Hvað? Langar þig ekki lengur til að koma? Varstu hættur við?" (panik í röddinni)
"Neeei........það er samt ekki á morgun, er það?"
"Nei, nei, ekki fyrr en eftir tvær vikur. Langar þig ekki að koma?"
"Júúúú..............."
............................og nú velti ég því fyrir mér hvort hann hafi kannski bara verið að biðja um að fá að koma af því að honum hafi fundist ÉG sakna HANS svona mikið..........hafi bara vorkennt mömmu gömlu.......og viljað gera þetta fyrir hana! Hvað um það! Annað okkar hlakkar allavega mikið til.................... :-)))

Kveðja,
Elín
x

3 kommentarer:

  1. Sæl Elín.
    Skemmtilegt samtal ykkar Eyþórs.
    Ekki alveg eins upplífgandi samtalið við flugfélagið. Þeir eru klókir að ná sínu.
    En það verður gaman hjá ykkur.
    Kv. Guðný þ

    SvarSlet
  2. Já, það endar kannski með því að maður lærir á smáa letrið hjá flugfélaginu.......og getur þá metið út frá því hvar best er að eiga viðskipti.
    En það er alltaf gaman að spjalla við Eyþór. Hann er eins og hver önnur dæmigerð unglingsstúlka að því leytinu að hann getur blaðrað í símann svo klukkustundum skiptir, hvort heldur er við mig eða Benna. Mér finnst þetta ákaflega góður eiginleiki hjá karlmanni.........hehe........spurning hvort Hallur verður á sama máli þegar hann fær símreikninginn...........

    SvarSlet
  3. Eg verð bara að vona að þið notið ykkur það að það er ótakmörkuð notkun innifalin ef þú átt frumkvæðið. Annars borga ég reikninginn með glöðu geði.

    Hallur

    SvarSlet