lørdag den 28. februar 2009

Þolinmæðikeppnin

x
Ég er í þolinmæðikeppni við ósýnilega leigjandann!
Keppnin snýst um það hvort okkar gefst upp fyrr og fer út með ruslið í eldhúsinu. Síðan ég kom til baka úr jólafríinu hef ég eingöngu gert það. Ég hef með ýmsum brögðum reynt að fá hann til þess, en ekki tekist. Þrisvar sinnum hef ég verið búin að loka pokanum og setja út fyrir dyrnar þegar ég hef heyrt ósýnilega leigjandann fara í vinnuna. Framan af var ég vongóð um að hann myndi kannski kippa pokanum með sér og henda í ruslatunnuna (þetta er jú, eftir allt saman, hans rusl líka!) en þær vonir hafa algjörlega brugðist. Maðurinn bara strunsaði framhjá eins og þetta kæmi honum ekki við og ég mátti fara með pokann í tunnuna. Núna, í þessum töluðum orðum er rusladallurinn í eldhúsinu orðinn fullur. (Reyndar er rusladallurinn á klósettinu orðinn fullur líka, en af því að hann er bara fullur af tómum klósettpappírrúllum sem hafa greinilega verið að safnast upp þar í áraraðir, þá geri ég mér engar væntingar um að hann skilji að sá rusladallur tæmi sig ekki sjálfur.........!) Að mínu mati var rusladallurinn í eldhúsinu þegar orðinn fullur fyrir nokkrum dögum síðan, en, ég hef lítið verið heima síðustu dagana og hefur tekist, með þó nokkru átaki, að stilla mig um að tæma hann þegar ég er heima. Núna bara treð ég öllu nýju rusli ofan á hitt og bíð eftir að vinurinn taki við sér. Ég er jafnvel að velta því fyrir mér að mæla á hverjum morgni hæðina á ruslinu til að hafa nákvæmar vísindalegar niðurstöður úr þessari tilraun. Ég hef nú dálítið gaman af svona tilraunastarfsemi..........! ;-)

Þegar ég tók herbergið hérna á Parosvej til leigu, þá sagði leigusalinn mér að leigjendurnir tveir skiptust á um að þrífa sameiginlega rýmið, þ.e. eldhúsið, klósettið og þvottahúsið, einu sinni í viku. Ég taldi að það yrði nú ekki vandamál og hann sagði mér bara að tala við ósýnilega leigjandann til að fá upplýsingar um hvernig skipulagið á því væri. Sem ég svo gerði í byrjun desember. Samtalið fór svona fram:

E: „Hvernig er það með að gera hreint hérna frammi,.......skiptumst við á að þrífa?.....er einhver regla á því?............eða.....?!? (Dönskukunnáttan mín leyfir enn ekki miklu flóknari setningamyndun en þetta..........því miður........)

Ó: „Nei, bara passa að það verði ekki skítugt.“ (Orðrétt: „Nej, bare det ikke bliver beskidt.“)

Svo mörg voru þau orð.................og ég er enn að reyna að skilja hvað maðurinn átti við, því síðan ég kom, fyrir fjórum vikum síðan, hef ég ekki orðið vör við að hann gerði nokkurntímann nokkuð hreint hérna. Ég hef þrifið sturtubotninn, vaskana og skúrað eldhúsgólfið. Svo hef ég að sjálfsögðu tekið mitt eigið herbergi í gegn. Er hann bara einn af þessum mörgu karlmönnum sem ekki sjá skítinn þótt hann sé til staðar? Eða er það bara ég sem er að sjá skít sem „er ekki til staðar“!?! Hvernig „passar“ maður að húsið verði ekki skítugt, ef það er aldrei þrifið???? Vill einhver í almáttugs bænum segja mér hvernig á að fara að því, því ég kann það ekki! Plíííííís!

Ég er samt að hugsa um að gefast upp í þolinmæðikeppninni hvað varðar þrif á klósettinu. Ég hef bara alls ekki endingu í að bíða eftir að honum finnist það nógu skítugt til að þrífa það.....bjakk.....!
Stóra spurningin er: Er þetta bara hormónatengt vandamál sem allir karlmenn glíma við, eða ber að skella skuldinni á slæmt uppeldi? Ég hneigist mest að því að kenna móður hans um!........og í rauninni er ég þeirrar skoðunar að hún ætti að koma hingað á hálfsmánaðar fresti og þrífa sameignina, fyrst hún brást svona gjörsamlega hlutverki sínu!!!

Kveðja,
Elín
x

mandag den 23. februar 2009

I have a dream........

x
Já, ég átti mér draum! Draum um að sitja fyrirlestrana í háskólanum glaðvakandi með einbeitinguna og skerpuna í hámarki. Skilja allt sem sagt var! Geta jafnvel túlkað það á svo nýstárlegan og frumlegan hátt að mín yrði lengi minnst í sögu Kaupmannahafnarháskóla sem íslenska stúdentsins sem ......... uppgötvaði..............hmm.....leyndardóma........hvað eigum við að segja............SJÁLFSINS!!! Of course! Hvað annað?!?
Tækið sem átti að láta þennan göfuga draum rætast, var nýhafin kaffidrykkja mín. Ég verð að viðurkenna að ég batt miklar vonir við kaffið (þótt enn þyki mér það fram úr hófi bragðvont) sem gafst líka með eindæmum vel í byrjun vetrar. Þegar leið að jólum fór hinsvegar að koma babb í bátinn þegar ég fór að tengja aukið stress ekki bara komandi prófum, heldur líka kaffidrykkjunni góðu. Eftir jólin gerði ég lokatilraun, fékk mér einn bolla og fann hvernig stressið (cortisolið) byrjaði að flæða um æðarnar. Þar með var kaffidrykkjunni sjálfhætt.
En, af því að ég er ekki týpan sem er tilbúin að gefa draumana upp á bátinn baráttulaust, þá fann ég aðra leið að markinu. Dag einn, þegar ég var úti í búð að kaupa í matinn, rakst ég á Ginseng á tilboði við kassann. Þar sem ég hef árum saman heyrt talað um undramátt Ginseng við nánast öllum kvillum jarðarbúa, (aukin orka, einbeiting og lífsgæði, svona svolítið eins og Maltölið okkar góða!!!) þá skellti ég mér á einn pakka og ákvað að prófa að taka einn "kúr". Mér fannst liggja í augum uppi að áhrifin yrðu bara eins og af kaffinu, bara án allra óþægilegu aukaverkananna! Algjörlega frábær hugmynd!
Mig rámaði samt óljóst í að hafa prófað þetta einhverntímann áður og hætt, einhverra hluta vegna. Ekki endilega vegna þess að þetta virkaði ekki, heldur af því að það dró úr virkni einhverra lyfja sem ég tók, líklegast annað hvort ofnæmislyfjanna eða bara venjulegra verkjalyfja. Mér fannst það samt ekkert atriði, því ég er ekki á neinum ofnæmislyfjum núna og ef ég þyrfti að taka verkjalyf, þá gæti ég bara sleppt Ginsengtöflunni þann daginn. Ekkert mál!
Og þar með hófst pilluátið! Ein tafla á dag og þetta hafði bara ágætis áhrif á mig. Glaðvaknaði á morgnana og það þótt ég færi ekkert snemma að sofa á kvöldin. Dásamlegt!
Svo, fyrir svona rúmri viku síðan, fór ég að finna fyrir alvarlegum aðkenningi af "middle life crisis" og það af verstu gerð. Ég tók allt í einu eftir því að ég var orðin alveg frámunalega allt of gömul til að vera að eyða dýrmætum tíma mínum í háskólanám, þegar dauðinn var alveg á næsta leiti!!! Þvílík vitleysa, að vera að skilja fjölskylduna eftir heima og þvælast þetta út í lönd, þar sem menn og málleysingjar eru skotnir á hverju götuhorni annan hvern dag! Ég held mér væri nær að vera heima og reyna að vinna fyrir mér eins og almennileg manneskja!
Það var orðið altalað í háskólanum hvernig ástandið á mér var orðið og ekkert gekk að hressa mig við, sama hvað menn reyndu. Enginn botnaði neitt í neinu og ég hélt bara áfram að ganga um með andlitið í götunni og vorkenna sjálfri mér fyrir aldurs sakir!
Síðastliðinn fimmtudag tók ég svo verkjatöflu og ákvað að sleppa Ginsenginu í tilefni dagsins. Það var býsna góður dagur og ég hélt að kreppan væri kannski bara liðin hjá. Hélt svo mínu striki á föstudaginn og komst að því að kreppan hafði bara tekið sér frí á fimmtudeginum, því hún mætti tvíefld til leiks á föstudeginum. Þá fór mig nú að gruna ýmislegt! Ég lagði Ginsenginu og yngdist upp um 20 ár um leið og miðaldurskreppan hrundi af mér!
Svo mætti ég í skólann í morgun, eiturhress, reif alla glugga upp á gátt til að hleypa vorinu inn og óloftinu út. Tina óskaði mér til hamingju með að vera orðin eðlileg aftur (eða eins eðlileg og hægt er að búast við af mér) á meðan Michelle bað mig í guðs bænum að loka gluggunum og byrja aftur á Ginsenginu!!! Hehe........!
Og þannig standa málin núna! Engin örvandi efni fyrir mig, bara gamla góða róandi B-vítamínið og endurnýjuð kynni við manneskjuna sem hérna í gamla daga lagði sig eftir hádegismatinn og svaf svo í tímum hjá Ingimari Eydal (ég er viss um að Linda skammast sín ennþá fyrir mig!!!......hehe.......) Skrambinn! Og ég sem var farin að hlakka til að prófa amfetamínið í vor........býst ekki við að það verði neitt úr því núna!
Svona er lífið......það er ekki á neitt treystandi í þessum heimi. Ég verð víst bara að sætta mig við það að ég er algjör hænuhaus! Þoli ekki áfengi, ekki kaffi, ekki Ginseng. Þakka bara Guði fyrir að ég skyldi byrja nógu snemma að byggja upp sykur- og súkkulaðiþolið.............sem er eina fíknin sem ég get stundað af fullum krafti í þessu lífi................ennþá! ;-)

En.........ætli það sé ekki best að fara að leggja sig og safna orku fyrir morgundaginn...........sé engin önnur ráð til þess! ;-)

Kveðja,
Elín Eydís
x

mandag den 16. februar 2009

Gjaldeyrisbrask.......margborgar sig!

x
Almáttugur minn! Hvað haldiði?! Ég skrifaði Nýja Glitni síðasta föstudag og bað um að láta millifæra til mín 10.000 danskar krónur (u.þ.b. 200.000 ISK) svo ég geti keypt mér öskudagsbollur (fastelavnsboller) á sunnudaginn.

Nýi Glitnir brást skjótt og vel við, tók 10.000 EVRUR (nákvæmlega 1.474.000 ISK) út af reikningnum mínum og bað Davíð Oddsson um að millifæra þetta smáræði. Gallinn var auðvitað sá, að það voru ekki nema 200.000 kr inni á reikningnum mínum....................þ.e.a.s. ef LÍN hefði ekki brugðist snöggt við og lagt námslánin mín, sjöhundruð og eitthvað þúsund inn á reikninginn minn á sömu stundu.................og restina tók Nýi Glitnir bara af yfirdráttarheimildinni minni, þannig að nú er ég 458.000 kr í mínus.

Hvort finnst ykkur nú að ég ætti að gera:

A) Skrifa snarlega til baka og láta leiðrétta mistökin? eða

B) Láta bara leggja allt saman inn í Danske Bank og millifæra svo til Cayman eyja?

Spyr sá sem ekki veit!

..........þ.e.a.s. ef Fía hefur ekki stolist í tölvuna og látið stoppa millifærsluna.......ég held satt best að segja að hún treysti mér ekki fyrir öllum þessum peningum......hehe.......

Bless í bili,
Elín
x

onsdag den 11. februar 2009

Frábær dagur.......

x
........skreið í skólann bara til að láta merkja við mig, því það var mætingarskylda í tímana í morgun. Eyddi svo næstu þremur klukkustundunum í að hlusta á eldri nema útskýra vandlega fyrir mér mengjafræði og líkindareikning ......... sem ég kann auðvitað EKKERT í!!! (kaldhæðni). Afsakið, ég er víst að verða örg á þessu kvefi, enda með ólíkindum óþolinmóður sjúklingur.

Ég fór með kartöflusalat handa Tinu í skólann í morgun, þar sem ég þarf alltaf að elda fyrir a.m.k. 10 manns í einu, finnst þetta ekki taka sig fyrir neitt minna. Vandamálið er bara að ég á í rauninni ekki að vera að nota nema helminginn af ísskápnum. Reyndin er hinsvegar sú að ósýnilegi leigjandinn er með eina hillu, hálfan frystinn og hálfa hillu í hurðinni........og ég er búin að troðfylla restina! Hmm, Michelle spurði mig í morgun hvort ég hefði ekki gefið ósýnilega leigjandanum eitthvað af kartöflusalatinu. Ég sagði henni að það hefði vissulega hvarflað að mér, en ég hefði ekki lagt í það. Svo þegar ég heyrði hann vera að bardúsa í eldhúsinu áðan, þá ákvað ég að fara fram og taka áhættuna...........og.........viti menn..........hann sagði bara "Ja,tak!" (........enda borðar maðurinn aldrei neitt annað en frosnar kjötbollur úr örbylgjuofninum.....hehe....). Kraftaverkin gerast enn. Hallur heldur að hann verði kannski bara orðinn hinn kumpánlegasti í vor......................og heimsæki okkur líklega í sumar!!! ....hehe.....sénsinn! Annars sagði Hallur líka að það væri nú allt í lagi þótt ég legði undir mig allan ísskápinn, fyrst ég væri farin að gefa ósýnilega leigjandanum að borða!!! Mér þóttu þetta mjög skynsamleg rök.

Ég skrapp á pósthúsið í dag til að senda bréf til LÍN, og byrjaði ferðalagið á að læsa mig úti. Vá, hvað ég svitnaði.....hugsaði bara: ".......ég er ekki með lyklana......það er enginn heima.......ég þarf örugglega að bíða hérna úti þar til sonurinn uppi kemur heim úr vinnunni................... x.......NEIIIII!........HJÁÁÁÁLP!...........ÉG ER VEIK!!!!!!!!......fæ örugglega lungnabólgu...................eða eitthvað þaðan af verra!" Ég virkilega sá mína sæng útbreidda, hamaðist á bjöllunni hjá ósýnilega leigjandanum því ég hélt að hann væri heima........bölvaði honum í sand og ösku fyrir að svara ekki bjöllunni.....(svo kom reyndar í ljós að hann var alls ekkert heima, þannig að ég "fyrirgaf" honum allt saman síðar).............og ákvað svo að prófa báðar bjöllurnar uppi. Þá var sonurinn (hér eftir verður hann bara kallaður sonurinn, því hann er sonur hjónanna sem leigja mér) heima eftir allt saman......GUÐI SÉ LOF!...........og hann hleypti mér inn. Sagði mér í leiðinni að hann hefði sjálfur læst sig úti fyrr um daginn, en komist inn um svaladyrnar hjá sér sem hefðu verið opnar (þá veit ég hvar ég get komist inn næst þegar ég læsi mig úti,......hehe.......!) Ég fékk hann til að skipta um síu á krananum í eldhúsinu (ég er á fullu í endurbótum á húsnæðinu........hehe........geri ábyggilega miklu meiri þægindakröfur en Danirnir) og sleppti honum svo lausum.

En, nú ætti ég líklega að fara að lesa aðeins......maður getur nú ekki látið eins og maður eigi afmæli á HVERJUM degi og bara leikið sér.............eða kannski ég fái mér bara aðeins að borða..........kartöflusalat kannski?!? Hmm! ;-)

Bless í bili,
Elín
x

tirsdag den 10. februar 2009

Þyrnirós vaknar eftir 100 ára jólafríið.........

x
F: Góðan daginn Elín og til hamingju með afmælið! Ég keypti þessi blóm handa þér í tilefni dagsins......
E: Æ, þakka þér fyrir Fía mín, það var fallega hugsað af þér........ Hvað finnst þér að við ættum að gera til að halda upp á daginn?
F: Þú liggur nú bara í rúminu í dag fyrst þú ert með kvef. Ég ætla ekki að láta kvefið í þér eyðileggja helgarferðina okkar til Berlínar. Ég skal fara út í búð og á pósthúsið að sækja pakkana.
E: Já, það er líklega skynsamlegast. Finnst þér að við ættum að fara að blogga aftur eftir jólafríið?
F: Endilega, ef þú passar bara að það tefji þig ekki frá náminu!
E: Auðvitað. Heldurðu að það sé slæmt að vera með klofinn persónuleika?
F: Tja, hvað finnst þér.........?!?
x