tirsdag den 29. september 2009

Elín rasisti

x
Í síðustu viku skrapp ég í Fields.......vantaði blekhylki í prentarann, jólagjöf handa Eyþóri og ýmislegt smálegt. Á leiðinni til baka stóð ég úti á lestarstöð og var að bíða eftir metronum þegar ungur maður tók sér stöðu við hliðina á mér og kveikti sér í sígarettu. Vindurinn stóð af honum, á mig, og fyrsta "sogið" kom í heilu lagi beint upp í hægri nösina á mér. Af því að ég er mikill aðdáandi óbeinna reykinga og ákaflega kurteis og vel upp alin, þá hefði ég undir venjulegum kringumstæðum ekki sagt neitt, heldur bara fært mig um set, en af tveimur fullgildum ástæðum þá ákvað ég að gera það ekki: a) ég var með "dáldið" mikinn farangur sem ég nennti ekki að drösla fram og til baka, og b) ÉG KOM ÞARNA FYRST!!!

Þannig að...........ég tók snögga ákvörðun um að segja eitthvað við þessari augljósu árás inn á mitt "persónulega yfirráðasvæði"...........og, af því að ég er svo ofsalega kurteis og vel upp alin, þá ákvað ég að brosa bara fallega til aumingja strákræfilsins, sem augljóslega hafði hvorki reiknað út vindhraða né -stefnu af neinni nákvæmni áður en hann kveikti í rettunni, og biðja hann kurteislega um að standa frekar hinum megin við mig, þ.e. vinstra megin, undan vindi.
Um leið og ég tek þessa ákvörðun, hefur hann greinilega áttað sig á veðurfræðilegum mistökum sínum og tekur eitt skref fram á við til að losa mig úr mesta reykmekkinum. Í sömu andrá læt ég út úr mér þaulæfða kurteislega beiðnina á minni allra bestu dönsku og brosi mínu blíðasta til hans. "Nú?!" svarar hann og verður afar skrýtinn á svipinn..........sem mér finnst undarleg viðbrögð, því ég bjóst frekar við að hann myndi bara brosa kurteislega til baka og segja eitthvað í ætt við: "Já, auðvitað, afsakaðu tillitsleysið!" um leið og hann myndi svo færa sig hlémegin við mig. Eins og tvær fullorðnar manneskjur afgreiða hlutina! En, nei, hann sem sagt sagði bara "Nú?!", tónninn svolítið eins og þetta kæmi honum á óvart, ekkert bros, og...........svo fór hann hinumegin við mig, og ekki bara hinumegin við mig, heldur alveg út á endann á lestarstöðinni, eins langt og hann komst.............það munaði engu að maðurinn hallaði sér yfir grindverkið til að komast eins langt frá mér og hægt væri.

Ég er enn að velta því fyrir mér hvað ég sagði eiginlega við hann, en eina niðurstaðan sem ég hef komist að, er.........................að danskan mín þarfnast greinilega ennþá nokkurrar fínpússningar og fordómar mínir gagnvart reykingamönnum eru meiri en ég hélt!!!
;-)

Kveðja, Elín
x

Ingen kommentarer:

Send en kommentar