onsdag den 18. marts 2009

Matarinnkaup.......

x
Þessa dagana er ég á kafi í að læra fyrir próf, þannig að það fer lítið fyrir bloggi á meðan. Ég hef reynt að fá Fíu til að blogga fyrir mig en hún telur það fyrir neðan sína virðingu (og mína reyndar líka......). Fía hefur nefnilega skoðanir á öllum hlutum og hennar skoðanir eru ævinlega réttar, að eigin mati. Hún má þó eiga það, að hún er hörkudugleg við heimilisstörfin. Í gær, t.d., þreif hún allt í hólf og gólf svo allt yrði hreint þegar Eyþór kemur á laugardaginn. Ég sat bara og las fyrir prófið á meðan.

Það eina sem gerst hefur markvert síðustu dagana er, að það hefur ítrekað verið reynt að svindla á okkur Fíu í dönskum matvöruverslunum. Okkur hefur nú oft þótt þetta slæmt heima, en hér í Danmörku þykir okkur það alveg keyra um þverbak. Þegar við förum saman í búðina þá fer Fía alltaf vandlega yfir strimilinn áður en hún leyfir mér að fara heim, og tvisvar núna undanfarið hefur hún uppgötvað svindlið á staðnum og fengið það leiðrétt. Hún er nefnilega assgoti snögg að reikna í huganum hún Fía, þannig að það er ákaflega gott að hafa hana með sér í búðina. Ekki eins og ég, sem hef ítrekað flaskað á margföldunartöflunni í tölfræðiáfanganum sem ég er í núna.........er eiginlega bara hætt að reyna og farin að reikna allt með vasareikninum....... :-(

Það er heldur verra þegar ég fer ein í búðina. Þá gleymi ég nefnilega alltaf að fara yfir strimilinn í búðinni. Þegar ég kem svo heim, þá situr Fía fyrir mér við dyrnar, finnur strimilinn í pokanum og svo þarf ég að fara að rifja upp hvernig hlutirnir voru verðmerktir í búðinni. Þegar hún kemst svo að því að eitthvað var vitlaust skannað inn, eða ég fékk ekki einhvern afslátt sem ég átti að fá, þá er ég miskunnarlaust send til baka til að fá endurgreitt. Þetta er bölvað vesen og ég hef alls engan tíma til að standa í þessu. Þess vegna tek ég Fíu bara alltaf með mér í búðina núna. Það er mun minni fyrirhöfn fyrir mig. ;-)

Bless í bili,
Elín
x

søndag den 15. marts 2009

Fermingarmartröð

x
Í nótt fékk ég fermingarmartröð.
Mig dreymdi að stóri dagurinn væri kominn og við Hallur mættum í kirkjuna í okkar fínasta pússi, eins og alllir hinir foreldrarnir. Við fórum upp á loftið, fengum okkur sæti og litum yfir fermingabarnahópinn. Mér til mikillar undrunar sátu fermingarbörnin niðri í kirkjunni í gallabuxum og stuttermabolum, sum þeirra jafnvel með tyggjó. Ég spurði Hall hvernig stæði á því að börnin væru ekki í fermingarfötunum sínum og hann sagðist ekki hafa hugmynd um það. Áður en ég gat farið að gera mál úr þessu, kom séra Þorgrímur inn í kirkjuna. Hann hespaði athöfninni af á innan við fimm mínútum og fermdi börnin. Þegar messunni var lokið, var svo sameiginlegt sundlaugarpartý fyrir alla!
Ég tók séra Þorgrím afsíðis eftir athöfnina og spurði hann hvernig stæði á því að fermingarbörnin hefðu ekki verið í fermingarkyrtlunum við athöfnina. Hann svaraði því til að þeim hefðu þótt kyrtlarnir bæði gamaldags og úreltir og hann hefði ákveðið að módernísera ferminguna aðeins með þvi að leyfa þeim að vera bara í gallabuxum og bol.
Ég var alveg miður mín þegar ég vaknaði í morgun!

Kveðja,
Elín
x

torsdag den 12. marts 2009

SIGUR!!!.............

x
...........AT LAST!!! Haldiði ekki að ósýnilegi leigjandinn hafi tæmt rusladallinn í eldhúsinu í dag!!! Ég ætlaði í sakleysi mínu að henda gamalli papriku í ruslið, opnaði dallinn og.......hélt ég væri bara að villast! Var lengi að ná áttum eftir þessa uppákomu. En, kraftaverkin gerast bersýnilega enn! Það verður spennandi að sjá hvort hann þrífur klósettið á morgun.......hehe........ ;-)

Ein spurning að lokum: Kallast það ekki örugglega eldamennska, að kaupa tilbúna, frosna pizzu úti í búð, bæta ofan á hana salamipylsu, gamalli papriku (samt ekki þeirri sem fór í ruslið) og auka osti og skella henni síðan í ofninn?!?

Kveðja,
Elín
x

fredag den 6. marts 2009

Damsel in distress........again!

x
Jæja, tókst í dag að endurtaka ævintýrið frá því um daginn, með þeirri einu undantekningu að nú hafði ég fengið leiðbeiningar og vissi hvað ég átti að gera.

Ég var sem sagt í skólanum að læra, í græna lessalnum sem hefur verið uppáhaldið mitt síðan ég uppgötvaði tilvist hans í gær. Á einhverjum tímapunkti fór ég fram að sækja mér vatn og þegar ég kom til baka voru dyrnar læstar, bara rétt sisvona af sjálfu sér. Inni í lessalnum var enginn, nema tölvan mín, skólataskan og gemsinn. Stúdentakortið mitt, sem ég hefði getað notað til að komast inn, var auðvitað líka læst inni! Mín fyrsta hugsun var sú að fara út og skríða inn um gluggann, en þá mundi ég eftir að hafa gert það að mínu síðasta verki að loka honum og læsa áður en ég fór út (svona aðallega til að einhver annar fengi ekki sömu frábæru hugmyndina að skríða inn um gluggann og stela tölvunni minni............hmm.......). Nú voru góð ráð dýr, en.........................minnug hrakfara minna um daginn og eins og Damsel in Distress einni sæmir, hóf ég þegar í stað leit að "The Knight in Shining Armour" sem ég fann svo í öðrum lessal, ekki langt fjarri. Sá hafði öll sín vopn við höndina (þ.e. stúdentakortið sitt) og var svo vingjarnlegur að fylgja mér til baka og opna fyrir mér. Nú hreyfi ég mig ekki án þess að vera með stúdentakortið upp á vasann.........! Svona sjálflæsandi húsnæði er alveg stórhættulegt!

Annars hefur þessi dagur verið tíðindalítill.........................liðið bara hægt við námsbókalestur og glósugerð.......................................geeeeisp!

Kveðja,
Elín
x

torsdag den 5. marts 2009

Flugfarir

x
Fyrir nokkrum dögum síðan hringdi Eyþór í mig. Ég var inni í eldhúsi að vaska upp og þegar ég kom aftur inn í herbergi, sá ég ein 10 stk missed calls á símanum, þannig að ég hringdi til baka. Eyþór svaraði strax, og honum var mikið niðri fyrir þegar hann sagði við mig:
"Mamma! Ég fékk alveg FRÁBÆRA hugmynd!!!"
"En gaman!" sagði ég. "Hvaða hugmynd fékkstu?"
"Hvað......ef........ég...........kem bara núna bráðum og heimsæki þig til Danmerkur!!!"
Ég varð orðlaus í eitt augnablik. Sem betur fer gerist það ekki oft og stendur ekki lengi yfir í einu. Svo svaraði ég:
"Ástin mín, þetta var frábær hugmynd hjá þér! Við þurfum bara að skoða hvenær það er hægt. Ég er nefnilega að fara í próf eftir tvær vikur, en þú gætir kannski komið þegar ég er búin í prófinu. Ég skal bara tala við pabba þinn og athuga hvort þetta er hægt. En.........þá þyrftirðu kannski að fara einn í flugvélinni aðra leiðina..........heldurðu að þú þorir það?"
"Jaaaá, sko, það eina sem ég veit ekki er sko hvert ég á að fara þegar ég kem út úr flugvélinni..........en þá get ég kannski bara beðið einhvern um að sýna mér það............"
"Nei, nei, þá myndu flugfreyjurnar passa þig," sagði ég, "og fylgja þér alveg til mín. Það er allt í lagi með það, þú þarft ekki að fara alveg einn! En við þurfum líka að athuga hvað þetta kostar áður en við ákveðum það."
"Jaaaá, sko ég er búinn að safna fullt af peningum...............þannig að ég get alveg borgað.......!"

Ég fékk nagandi samviskubit vegna litla barnsins míns sem saknaði mömmu sinnar svona óskaplega að hann var tilbúinn til að vaða eld og brennistein (svo ekki sé nú minnst á að eyða öllum sparnaðinum sínum) til að hitta hana. Við Hallur ræddum málið, komumst að því að Anita er að fara aftur út þann 21. mars (sama dag og ég er í prófinu) og sáum að það væri alveg upplagt að biðja hana um að taka Eyþór með sér. Svo gæti hann bara komið aftur heim með mér þann 27. mars. Við töluðum við Anitu sem sagði þetta sjálfsagt mál og svo fór ég í símann í morgun og hringdi í flugfélögin (því ég átti bókað með Icelandair og Anita með Iceland Express) til að fá að bæta Eyþóri við bókanirnar. Ég byrjaði á Icelandair, þar sem mér var tjáð að það væri ekki hægt að bæta við bókunina, en ..............það væri hægt að bóka hann sér.
"Fínt er," sagði ég, "hvað þarf ég þá að borga mikið fyrir hann?"
"53.000 krónur," svaraði konan í símanum.
"FIMMTÍUOGÞRJÚÞÚSUND KRÓNUR????" argaði ég í símann, því mér varð svo mikið um þetta. "Þú veist að hann er bara sjö ára gamall, er það ekki?!? Eruð þið ekki með barnafargjöld???"
"Þetta ER barnafargjaldið. Fullt fargjald er 76.000 kr. Ef það eru minna en 25 daga í brottför og þið pantið bara aðra leiðina, þá er ekki hægt að fá tilboðsfargjöld!"
"Þú ert að grínast!" sagði ég (ekki kurteis, en samt ekki ókurteis..........). "Ég fer ekki að borga 53.000 krónur fyrir barnið frá Kaupmannahöfn.......og það bara aðra leiðina!"
"Við getum kannski bókað hann báðar leiðir, þótt hann fari bara aðra leiðina, það gæti verið ódýrara!" sagði konan, "öll" af vilja gerð til að hjálpa mér. "Þá geturðu fengið þetta á 33.000 krónur!.......og þú SPARAR 20.000 krónur!!!"
"Já, en, hann fer bara aðra leiðina......?!" sagði ég, ekki alveg að skilja þetta. "Get ég þá afpantað hina leiðina seinna og fengið hana endurgreidda???"
"Neeei, ÞAÐ er ekki hægt!" og nú var oggolítið farið að síga í hana.
"Já, en mér finnst 33.000 krónur bara LÍKA allt of mikið fyrir sjö ára gamalt barn aðra leiðina til Kaupmannahafnar!" svaraði ég, og nú var oggolítið farið að síga í mig líka. "Sko, ég get fengið flug sama daginn með Iceland Express á 27.000 krónur, fyrir okkur BÆÐI! Ég verð þá bara að afpanta flugið mitt hjá ykkur og bóka okkur bæði hjá Iceland Express!"
"Já, gangi þér bara vel með þetta!" og svo skellti hún á mig. Svo mörg voru þau orð og ég mátti hringja aftur og tala við annan þjónustufulltrúa sem fannst líka að ég gæti bara borgað 53.000 krónur eða skilið barnið mitt eftir úti í Kaupmannahöfn. Þannig að ég bað hana um að afpanta flugið mitt og hún sagðist myndu "koma því í ferli", hvað svo sem það nú þýðir á mannamáli. Í viðleitni minni við að skilja það spurði ég hvort upphæðin yrði endurgreidd inn á kreditkortið mitt. Hún sagðist ekki geta svarað því, beiðnin færi bara í ferli og ég ætti að fá endurgreidda flugvallarskattana og helminginn af fargjaldinu (því ég hafði ekki pantað forfallatryggingu, þar sem ég vissi að ég færi heim þennan daginn, dead or alive!). Þá spurði ég hvað það væri mikið og hún svaraði með þótta, að það væri ekki hún sem reiknaði það út, hún sendi málið bara í F-E-R-L-I!!!" Þá gafst ég upp, þakkaði INNILEGA fyrir FRÁBÆRA þjónustu og strengdi þess dýran eið að ALDREI AFTUR skyldi ég bóka flug með Icelandair!!! ........og það mun ég svo sannarlega standa við.
Svo hringdi ég í Iceland Express og bað um að Eyþóri yrði bætt við bókunina hennar Anitu. "Ekkert mál!" svaraði konan, og það VAR ekkert mál og kostaði ekki nema 10.000 krónur + 1.500 króna breytingagjald. Ekkert nema lipurðin og liðlegheitin á þeim bænum, eins og ég svosem átti von á, því ég hef áður þurft að hringja þangað til að breyta bókun.

Þegar ég kom svo heim seinnipartinn, leit ég í póstkassann til að athuga hvort pakkinn sem Hallur sendi mér fyrir helgi væri kominn. Enginn miði í póstkassanum, svo ég bölvaði B-póstinum í hljóði og fór inn, frekar pirruð eftir daginn, og.......sá....................pakkann minn liggjandi við herbergisdyrnar mínar. Mikið óskaplega þótti mér þá vænt um ósýnilega leigjandann.........fyrir að hafa tekið við pakkanum fyrir mig. Hann var bara heppinn að vera farinn í vinnuna, því annars hefði ég líklega kysst hann fyrir, ég var svo þakklát! Ég verð bara að játa, að hann var ekki manna líklegastur til að bjarga deginum fyrir mér, en, það gerði hann svo sannarlega. Best að hætta að fjasa yfir því þótt hann þrífi ekki klósettið og baka bara pönnukökur handa honum um helgina..........hehe..........blessaður vinurinn...........

Svo hringdi ég í Eyþór til að segja honum góðu fréttirnar, þ.e. að hann fengi að koma í heimsókn og það væri búið að panta flugið handa honum:
"Hæ Eyþór! Veistu bara hvað?! Ég er búin að panta flugið handa þér!"
"Jaaaaá......" (frekar dræmt)
"Hvað? Langar þig ekki lengur til að koma? Varstu hættur við?" (panik í röddinni)
"Neeei........það er samt ekki á morgun, er það?"
"Nei, nei, ekki fyrr en eftir tvær vikur. Langar þig ekki að koma?"
"Júúúú..............."
............................og nú velti ég því fyrir mér hvort hann hafi kannski bara verið að biðja um að fá að koma af því að honum hafi fundist ÉG sakna HANS svona mikið..........hafi bara vorkennt mömmu gömlu.......og viljað gera þetta fyrir hana! Hvað um það! Annað okkar hlakkar allavega mikið til.................... :-)))

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 3. marts 2009

Það er draumur að vera með dáta......

x
Mig dreymdi Jón Ásgeir í nótt! Ég fór og heimsótti hann í stóra, fallega húsið hans í Innbænum á Akureyri, þar sem það stóð hátt uppi í brekkunni með útsýni yfir fjörðinn. Á einhverjum tímapunkti losnaði húsið frá undirstöðum sínum, rann niður í fjöru og út í sjó. Svo sigldum við á húsinu hans til Cayman eyja og lifðum hamingjusöm til æviloka.

Eins og heyra má, ber ég engan kala í brjósti til útrásarvíkinganna, heldur geri mér ennþá vonir um að fá að taka þátt í svallinu með þeim! ;-)

Kveðja,
Elín
x

søndag den 1. marts 2009

Heilbrigð sál í hraustum líkama!

x
Á föstudaginn endaði kennarinn kennslustundina með því að minna okkur á, að líkamsrækt fjölgar heilafrumunum í hausnum á okkur og hvatti okkur jafnframt til að hreyfa okkur duglega um helgina. Líklega vegna þess að við eigum að mæta i fyrsta tíma hjá honum aftur á mánudagsmorguninn...hehe...!

Þegar ég vaknaði í morgun mundi ég svo skyndilega eftir þessari áskorun og ákvað að það væri líklega ekki svo vitlaust að reyna að fjölga þessum greyjum aðeins, þar sem það eru nú aðeins 2 vikur og 6 dagar í næsta próf! Ég fór á netið og fann næstu sundlaug (sem er reyndar bara mjög nálægt mér), skellti í mig einni pizzusneið og hjólaði af stað. Þegar þangað var komið spurði ég glaðbeittan manninn í afgreiðslunni um það, hvert hitastigið væri á vatninu í lauginni. "Um 26-27 °C" svaraði hann og ég hugsaði í beinu framhaldi með sjálfri mér: "Já, er það ekki bara fínt! Það er bara svipað og í lauginni heima!" enda þótt ég gerði mér fulla grein fyrir því að ég hafði ekki hugmynd um hvert hitastigið væri í sundlauginni heima. Fór inn í búningsklefann, fékk hraðnámskeið í að opna og loka skápnum mínum, sem var mjög flókið, tæknilegt ferli, fór í sturtu og út í laug. Byrjaði á að dýfa litlu tánni ofaní, bara til öryggis. "DJÍSUS!!! HVAÐ VATNIÐ ER KALT!!! #$"$%%##$ NÍSKA ER ÞETTA Í DÖNUNUM AÐ TÍMA EKKI AÐ HITA VATNIÐ!!!" flaug á leifturhraða í gegnum gaddfreðnar heilafrumurnar. Definitely MIKLU kaldara en í lauginni heima! Ég sneri við á staðnum og lagði af stað til baka inn í búningsklefann, en mætti Fíu á leiðinni sem rak mig af stað aftur ofan í laugina, því "hún var búin að BORGA!!!" Ég gekk MJÖG HÆGT niður tröppurnar niður í sundlaugina (með Fíu þétt að baki mér), virkilega eins hægt og mögulegt var, án þess að vekja sérstaka athygli sundlaugarvarðarins. Að lokum náði vatnið mér upp að mitti...........og..........ég lifði enn. Ég prófaði að láta mig síga aðeins neðar í laugina og uppgötvaði að mér var það lífsins ómögulegt. Mér varð bara óglatt af kulda ef ég reyndi að fara lengra ofaní. Ég ákvað að taka þetta á ferðinni og skellti mér hratt ofaní, upp að öxlum, og strax upp aftur. Nú sá ég að sundlaugarvörðurinn var farinn að veita mér athygli.........sem var auðvitað gott ef ég fengi nú hjartastopp af kuldanum! Ákveðið öryggi í því! Ég lét mig síga hægt niður aftur og prófaði að dýfa andlitinu.........................brrr.............það var orðið erfitt að draga andann vegna kulda. Nú vantaði bara síðasta skrefið, þ.e. að komast hinumegin við línuna, sem var auðvitað stærsta áskorunin, því þá yrði ég að fara alveg í kaf. Ég notaði sömu taktík og á ófærðina heima, tók það á ferðinni og...........komst alla leið, mér til mikillar undrunar. Byrjaði svo að synda, fyrst bara með höfuðið upp úr, en harkaði af mér eftir fjórðu ferðina og stakk því í kaf. Svo mótaði ég sundreglur Elínar í Danmörku, en þær eru eftirfarandi:

Sundregla 1: Í hverri sundlaugarferð skulu syntar nákvæmlega 20 ferðir, hvorki meira né minna. (Ef áhugi er fyrir hendi og Danir ákveða að hita vatnið í lauginni meira, má síðarmeir taka þessa reglu til endurskoðunar.)

Sundregla 2: Allar 20 ferðirnar skal synda í einum rykk, því ef stoppað er milli ferða til að ná andanum, þá kólnar vatnið svo svakalega á meðan!

Sundregla 3: Allar 20 ferðirnar skal synda með hæsta leyfilegum hámarkshraða til að stytta veru mína ofan í lauginni af fremsta megni.

Sundregla 4: Hjóla/strætóreglan er í fullu gildi í sundlauginni, þ.e. til að halda fullum hámarkshraða skal ávallt leitast við að taka framúr næsta sundmanni fyrir framan.

Sundregla 5: Leyfilegt er að sparka öðrum sundmönnum til hliðar, yfir á næstu braut, ef þeir á einhvern hátt tefja fyrir fullum hámarkshraða með því að þvælast fyrir mér.

Ég hugsa að þetta komi bara til með að ganga nokkuð vel. Við Fía urðum samt sammála um að það borgaði sig ekki að kaupa mánaðarkort í sundlaugina, við kæmum aldrei til með að ná fullri nýtingu út úr því! Athugum kannski með 10 tíma kort (sem gildir, nota bene, í 2 ár!!!) í næstu ferð!

Kær kveðja,
Elín og Fía
x