mandag den 23. februar 2009

I have a dream........

x
Já, ég átti mér draum! Draum um að sitja fyrirlestrana í háskólanum glaðvakandi með einbeitinguna og skerpuna í hámarki. Skilja allt sem sagt var! Geta jafnvel túlkað það á svo nýstárlegan og frumlegan hátt að mín yrði lengi minnst í sögu Kaupmannahafnarháskóla sem íslenska stúdentsins sem ......... uppgötvaði..............hmm.....leyndardóma........hvað eigum við að segja............SJÁLFSINS!!! Of course! Hvað annað?!?
Tækið sem átti að láta þennan göfuga draum rætast, var nýhafin kaffidrykkja mín. Ég verð að viðurkenna að ég batt miklar vonir við kaffið (þótt enn þyki mér það fram úr hófi bragðvont) sem gafst líka með eindæmum vel í byrjun vetrar. Þegar leið að jólum fór hinsvegar að koma babb í bátinn þegar ég fór að tengja aukið stress ekki bara komandi prófum, heldur líka kaffidrykkjunni góðu. Eftir jólin gerði ég lokatilraun, fékk mér einn bolla og fann hvernig stressið (cortisolið) byrjaði að flæða um æðarnar. Þar með var kaffidrykkjunni sjálfhætt.
En, af því að ég er ekki týpan sem er tilbúin að gefa draumana upp á bátinn baráttulaust, þá fann ég aðra leið að markinu. Dag einn, þegar ég var úti í búð að kaupa í matinn, rakst ég á Ginseng á tilboði við kassann. Þar sem ég hef árum saman heyrt talað um undramátt Ginseng við nánast öllum kvillum jarðarbúa, (aukin orka, einbeiting og lífsgæði, svona svolítið eins og Maltölið okkar góða!!!) þá skellti ég mér á einn pakka og ákvað að prófa að taka einn "kúr". Mér fannst liggja í augum uppi að áhrifin yrðu bara eins og af kaffinu, bara án allra óþægilegu aukaverkananna! Algjörlega frábær hugmynd!
Mig rámaði samt óljóst í að hafa prófað þetta einhverntímann áður og hætt, einhverra hluta vegna. Ekki endilega vegna þess að þetta virkaði ekki, heldur af því að það dró úr virkni einhverra lyfja sem ég tók, líklegast annað hvort ofnæmislyfjanna eða bara venjulegra verkjalyfja. Mér fannst það samt ekkert atriði, því ég er ekki á neinum ofnæmislyfjum núna og ef ég þyrfti að taka verkjalyf, þá gæti ég bara sleppt Ginsengtöflunni þann daginn. Ekkert mál!
Og þar með hófst pilluátið! Ein tafla á dag og þetta hafði bara ágætis áhrif á mig. Glaðvaknaði á morgnana og það þótt ég færi ekkert snemma að sofa á kvöldin. Dásamlegt!
Svo, fyrir svona rúmri viku síðan, fór ég að finna fyrir alvarlegum aðkenningi af "middle life crisis" og það af verstu gerð. Ég tók allt í einu eftir því að ég var orðin alveg frámunalega allt of gömul til að vera að eyða dýrmætum tíma mínum í háskólanám, þegar dauðinn var alveg á næsta leiti!!! Þvílík vitleysa, að vera að skilja fjölskylduna eftir heima og þvælast þetta út í lönd, þar sem menn og málleysingjar eru skotnir á hverju götuhorni annan hvern dag! Ég held mér væri nær að vera heima og reyna að vinna fyrir mér eins og almennileg manneskja!
Það var orðið altalað í háskólanum hvernig ástandið á mér var orðið og ekkert gekk að hressa mig við, sama hvað menn reyndu. Enginn botnaði neitt í neinu og ég hélt bara áfram að ganga um með andlitið í götunni og vorkenna sjálfri mér fyrir aldurs sakir!
Síðastliðinn fimmtudag tók ég svo verkjatöflu og ákvað að sleppa Ginsenginu í tilefni dagsins. Það var býsna góður dagur og ég hélt að kreppan væri kannski bara liðin hjá. Hélt svo mínu striki á föstudaginn og komst að því að kreppan hafði bara tekið sér frí á fimmtudeginum, því hún mætti tvíefld til leiks á föstudeginum. Þá fór mig nú að gruna ýmislegt! Ég lagði Ginsenginu og yngdist upp um 20 ár um leið og miðaldurskreppan hrundi af mér!
Svo mætti ég í skólann í morgun, eiturhress, reif alla glugga upp á gátt til að hleypa vorinu inn og óloftinu út. Tina óskaði mér til hamingju með að vera orðin eðlileg aftur (eða eins eðlileg og hægt er að búast við af mér) á meðan Michelle bað mig í guðs bænum að loka gluggunum og byrja aftur á Ginsenginu!!! Hehe........!
Og þannig standa málin núna! Engin örvandi efni fyrir mig, bara gamla góða róandi B-vítamínið og endurnýjuð kynni við manneskjuna sem hérna í gamla daga lagði sig eftir hádegismatinn og svaf svo í tímum hjá Ingimari Eydal (ég er viss um að Linda skammast sín ennþá fyrir mig!!!......hehe.......) Skrambinn! Og ég sem var farin að hlakka til að prófa amfetamínið í vor........býst ekki við að það verði neitt úr því núna!
Svona er lífið......það er ekki á neitt treystandi í þessum heimi. Ég verð víst bara að sætta mig við það að ég er algjör hænuhaus! Þoli ekki áfengi, ekki kaffi, ekki Ginseng. Þakka bara Guði fyrir að ég skyldi byrja nógu snemma að byggja upp sykur- og súkkulaðiþolið.............sem er eina fíknin sem ég get stundað af fullum krafti í þessu lífi................ennþá! ;-)

En.........ætli það sé ekki best að fara að leggja sig og safna orku fyrir morgundaginn...........sé engin önnur ráð til þess! ;-)

Kveðja,
Elín Eydís
x

2 kommentarer:

  1. Hehehe, étg lenti í því sama. Við Ingileif fórum a Gingseng kúr einn veturin og ég hef aldrei verið eins þreytt. Ingileif vaknaði kl 6 og fór að þrífa og svo í leikfimi á meðan ég snoozaði endalaust. Svo sat ég á kvöldin heima og geispaði út í eitt.
    Gingseng virkar svona á suma. Það versta var að ég gleymdi þessu, og þegar ég var að lesa undir prófin í meistaranáminu byrjaði ég á öðrum Gingseng kúr :) Dröslaði því einhvern tímann út úr mér, korteri fyrir próf, að ég skildi ekkert hvað ég væri þreytt- ég sem væri að taka Gingseng!! Ingileif stöðvaði þá vitleysu strax og ég hressist og brilleraði í prófunum.

    Gömæu góðu dagarnir??? Varstu ekki alltaf að koma of seint í menntó líka vegna þess að þú ælagðir þig í hádeginu?? :)
    Kv
    LInda

    SvarSlet
  2. Nei, nei, það var bara í Gagganum sem ég fór heim í hádegismat. Maður gat hvergi lagt sig í MA.......og sama sagan hérna......hér fæ ég ekki einu sinni alltaf hlé í hádeginu.....mætti halda að það hafi frést hingað að það borgaði sig ekki að sleppa mér lausri í hádeginu......hehe..... En þú veist að þegar ég var í Gagganum þá lagði ég mig bara í hádeginu af því að afi sagði mér að gera það.......hann lagði sig líka alltaf eftir hádegismatinn.......svo sagði hann mér líka alltaf að fara að sofa kl 10 á kvöldin.......sem ég gerði líka alltaf......svona var ég bara hlýðin......hérna í GAMLA DAGA!!! ;-)

    SvarSlet