tirsdag den 2. december 2008

Ósýnilegi leigjandinn.

x
Ósýnilegi leigjandinn er snjall........og ber nafn með rentu. Þegar ég kom heim í gærkvöldi kl. 9 var hann með þvottavélina í gangi. Ég steikti mér fisk á pönnu og hafði mína hentisemi þar til ég fór að sofa kl. 11, en hann lét sko ekki sjá sig frammi. Hengdi þvottinn upp annaðhvort eftir að ég var sofnuð eða áður en ég vaknaði í morgun. Þegar ég loksins gat hugsað mér að opna augun kl. 8 í morgun heyrði ég útidyrnar lokast. Annaðhvort er maðurinn svona mikil mannafæla/ kvennafæla eða hann hefur eitthvað að fela.

Þegar maður býr svona með einhverjum sem maður þekkir ekki, er að ýmsu að hyggja. T.d., á ég að fara í slopp utanyfir.........mig........ef ég þarf að fara á klósettið á nóttunni?!? Á ég að læsa herberginu mínu yfir nóttina meðan ég sef, af ótta við.......tja, þið megið bara beita hugarfluginu........! ...........og ýmislegt fleira. Eftir töluverða umhugsun tók ég eftirfarandi ákvarðanir:

1. Já, það er smekklegra að fara í slopp, ef ósýnilegi leigjandinn skyldi líka vera næturgöltrari.
2. Nei, ég ætla ekki að læsa herberginu yfir nóttina, því ef ég þarf að fara fram, þá heyrist svo hátt í læsingunni að ég kann ekki við að vekja alla í húsinu um miðja nótt.

Reyndar er ég alveg hætt að hafa áhyggjur af að mæta honum neitt frammi yfirhöfuð, þannig að ákvörðun númer eitt er eiginlega óþörf. Hvað varðar ákvörðun númer tvö, þá leysti ósýnilegi leigjandinn það vandamál fyrir mig í gærkvöldi, þegar ég heyrði að hann læsti sínu herbergi fyrir nóttina.........hehe............svo það er allavega örugglega ein læst hurð á milli okkar. Honum hefur líklega litist þannig á mig að ég væri líkleg til að brjótast inn og "overfalde ham" einhverja nóttina.....................lít greinilega út fyrir að vera í örvæntingarfullri þörf fyrir karlmann!!! Hehe.........aldrei að vita!
Það er kannski bara gott að hann skuli vera hræddari við mig en ég við hann...................! ;-)

Það verður allavega greinilega ekki mikill félagsskapur í honum þessum.....!

Kveðja,
Elín
x

mandag den 1. december 2008

Sagan endalausa.......

x
Jæja, þá er ég loksins flutt. Úr dýru íbúðinni í Valby (8500 DKK), í helmingi ódýrara herbergið á Amager (4000 DKK). Það eina sem ég gæti hugsanlega séð eftir í Valby, var þegar ég sat í forstofunni á morgnana að reima skóna mína, og kallinn á neðri hæðinni stakk hausnum út um gættina á eldhúsinu, brosti sínu blíðasta til mín og sagði: „Go‘ morgen Elín!“ Það fannst mér ákaflega notaleg byrjun á deginum. Spurning hvort leigjandinn í hinu herberginu stendur sig eins vel, annars gæti ég þurft að fá mynd af kallinum á náttborðið hjá mér!?! ...................og það er líklega best að Hallur byrji að æfa sig í að stinga hausnum undan sænginni, nývaknaður og ferskur, brosa sínu blíðasta og segja: „Go‘ morgen Elín, min skat!“ Hann verður að standa sig í því, ef hann vill ekki að ég sé með mynd af þeim danska á náttborðinu!!!......hehe......

Nú, flutningarnir sjálfir tókust, sem var ekkert minna en kraftaverk, í rauninni. Ég pakkaði öllu niður á fimmtudeginum og keypti mér pizzu á ítalska staðnum á horninu í kvöldmatinn. Kona Ítalans gantaðist með að hann hefði búið til hjartalaga pizzu handa mér, sem mér fannst hæfa tilefninu vel, þar sem þetta var síðasta kvöldmáltíðin mín í Valby. Á föstudagsmorguninn byrjaði ég daginn á að fara í ofnæmissprautuna hjá lækninum. Það gekk bara vel, þótt blessaður læknirinn væri hjúkrunarkonulaus og útúrstressaður. Að því loknu fór ég heim og fékk mér kalda pizzu í morgunmatinn (lystin var nú ekki beint upp á marga fiska og ísskápurinn auðvitað galtómur). Svo hófst ég handa við að bera allt draslið niður áður en flutningabíllinn kæmi klukkan eitt. Fékk mér síðan súkkulaðiköku og eitt gamalt epli í hádegismat.

Klukkan eitt kom flutningabíllinn,......allt of lítill sendlabíll, þar sem ég hafði annarsvegar greinilega gert of lítið úr dótinu sem ég er búin að sanka að mér, þegar ég pantaði bílinn, og hinsvegar vegna þess að maðurinn í símanum hafði bara heyrt orðið „bókahilla“ þegar ég sagði skýrt og greinilega, á minni bestu dönsku: „sófi, tvö rúm og bókahilla“. Þetta var mjög svekkjandi, ég hafði nefnilega verið svo svakalega ánægð með mig þegar kallinn í símanum skildi alveg dönskuna mína. Í haust fóru þessar símapantanir nefnilega allar fram á ensku. Jæja, flutningamaðurinn tók upp gemsann sinn, hringdi í símakallinn og skammaði hann, sagði mér svo að hann færi í annað verk, en það kæmi stærri bíll eftir hálftíma. Ég sá hálfpartinn eftir honum, hann var eitthvað svo glaðlegur og almennilegur, og nógu þrekvaxinn til að ég treysti honum til að bera sófann með mér........eða til að bera sófahelvítið einn, eftir að ég væri búin að gefast upp! (Þið afsakið orðbragðið, það er bara nauðsynlegt þegar ég fjalla um flutningana á hornsófanum!) Eftir hálftíma kom stærri flutningabíll, með hálf væskilslegum bílstjóra, að mér fannst. Ég er jafnvel ekki frá því að þetta sé sá sami og bar sófann með mér í haust, sá sem lét mig halda undir þyngri endann og stökkva svo með hann niður úr flutningabílnum svo ég sneri mig um hægri ökklann og sleit eitthvað í vinstra hnénu, sem er varla gróið ennþá. Það fauk í mig þegar ég rifjaði þetta upp, en þar sem ég var ekki 100% viss um að þetta væri maðurinn, (gat hugsanlega verið tvíburabróðir hans), þá var ég nú ekkert að gera neitt veður út af því. Og þótt hann stæðist engan veginn samanburð til fyrri bílstjórann sem hvarf á braut, þá var hann nú ekki svo slæmur, greyið. Mér fannst reyndar hálf skrýtið, hvernig hann spurði mig alltaf hvað við ættum að taka næst, og hvernig við ættum að raða húsgögnunum í bílinn, ég meina, átti hann ekki að vera sérfræðingurinn í því?!? En,.......þar sem ég er nú vön að hafa skoðanir á hlutunum, þá varð mér engin skotaskuld úr því að leiðbeina manninum við verkið,.....maður hefur nú flutt áður! ;-)

Þannig að fj....... sófaflykkinu var troðið út um dyrnar uppi með tilheyrandi skemmdum á dyrakarminum, (kallinn niðri tók því með stóískri ró og sagðist myndu geta málað sjálfur yfir skemmdirnar þegar þetta væri yfirstaðið,............... enda var honum nær að setja upp svona allt of mjóa hurð, segi ég nú bara!!!) Munurinn á þessum flutningum og þeim í haust, var hinsvegar sá, að núna vissi ég við hvað var að etja og var búin að undirbúa mig. Búin að skrúfa lappirnar undan sófanum, taka hurðina af hjörunum og myndirnar niður af veggnum í stiganum. Svo var ég ofsalega sniðug og spurði kallinn niðri hvort það „borgaði sig nokkuð að setja hurðina og myndirnar aftur upp fyrr en nýju leigjendurnir væru fluttir inn?“ Sem fyrir mig þýddi auðvitað bara að þá þurfti ÉG ekki að hafa fyrir því, hehe........mjög ánægð með mig að hafa sloppið við það!

Fyrir rest vorum við komin á áfangastað með alla búslóðina og gekk mun betur að koma sófanum inn í herbergið en út úr íbúðinni...........ég var reyndar orðin svo máttfarin í restina að ég missti sófahelminginn hvað eftir annað úr höndunum á mér og flutningakallinn varð bara að velta honum á bakið og ýta svo síðasta spölinn því ég var orðin alveg vita gagnslaus. (Það er hart að þurfa að viðurkenna að stundum bara þarf maður á karlmönnum að halda.......nú, ef maður ekki stundar lyftingar að staðaldri. Spurning um að ég fari bara að byrja á því!) Svo borgaði ég manninum fyrir viðvikið og hann lét sig hverfa með háðslegum athugasemdum um að „gangi mér vel með framhaldið!“...... sem mér fannst nú aldeilis óviðeigandi og óþarfar.

Ég herti mig upp í að bera restina inn, tókst með harmkvælum að setja sófann aftur saman og fékk mér svo skyndinúðlur (það getur sko komið sér vel að eiga þær á heimilinu!) og súkkulaðiköku í kvöldmatinn áður en ég lagði af stað aftur upp í Valby til að þrífa íbúðina. Setti útvarpið á fullt, eintóm jólalög núna á Radio Soft, og tók svo allt í gegn, svona eftir því sem mér fannst þurfa þykja. Það sem gladdi mig einna mest við þrifin var að þetta skyldi vera allra síðasta skiptið sem ég þyrfti að þrífa helv...... nuddbaðkarið, það var sko ekki skemmtileg framkvæmd! Klukkan ellefu um kvöldið var ég búin og rölti af stað út á strætóstoppistöð, með skrúbbinn í annarri hendi og fötuna í hinni, minnug þess að Sibba frænka (hans Halls) sagði einn aðal kostinn við Kaupmannahöfn vera þann, að maður gæti gengið úti á götu eins undarlega til fara og manni sýndist, og það væri allt í lagi því enginn þekkti mann! Það tókst mér vel, þetta umrædda kvöld. Var komin heim í herbergið um kl. 12, fékk mér súkkulaðiköku og vatnsglas fyrir háttinn, fann tannburstann fyrir rest á góðum stað og fór að sofa um hálf tvö. Átakamesti dagur ársins hjá mér, alveg pottþétt!

Laugardagurinn fór að mestu í að þrífa herbergið og ganga frá dótinu. Ég hefði þurft að komast í búð og kaupa í matinn, en af því að það rigndi allan daginn og ég var svo eftir mig eftir föstudaginn (bakverkur og strengir bókstaflega alls staðar) að ég gat varla hreyft mig, þá lifði ég mest megnis á íbúfeni allan laugardaginn. Á einhverjum tímapunkti tók ég þá frábæru ákvörðun að ég vildi ekki hafa sófann þar sem hann var, svo ég tók hann aftur í sundur, færði hann og setti aftur saman. Ákaflega skemmtilegt! Þegar leið á seinnipartinn áttaði ég mig á því að ég hafði enn ekki rekist á nokkra manneskju þarna í húsinu. Það bólaði enn ekkert á leigjandanum í hinu herberginu og ég gerði úr því skóna að annaðhvort væri hann svona mikil mannafæla að hann hefði lokað sig inni til að þurfa ekki að hitta mig, eða hann hefði farið heim í sveitina yfir helgina. Tók þá ákvörðun að vísa hér eftir til hans sem „ósýnilega leigjandans“! Nú, fyrst Palli var einn í heiminum, þá bara hafði ég mína hentisemi, lagði undir mig eins mikið pláss og mér fannst hæfilegt í ísskápnum, eldhúsinu og baðherberginu og endaði svo daginn á að elda fyrirtaks máltíð úr hráefnum sem ég vissi ekki einu sinni að ég ætti; pylsur, spæld egg, bakaðar baunir og gervikartöflustappa. Hefur aldrei bragðast eins vel og eftir allar skyndinúðlurnar og súkkulaðikökuna.

Á sunnudeginum svaf ég fram að hádegi, tók svo strætó upp í Valby til að skila aukasettinu af lyklunum að íbúðinni sem ég tók „óvart“ með mér í flutningunum, (skv. Freud þá gerir maður svona lagað aldrei óvart, hann hefði fullyrt að þetta væri undirmeðvitundin hjá mér sem ekki vildi flytja.......) og fór svo í skólann til að reyna að læra aðeins. Kom við hjá McDonald‘s á leiðinni (já, Agnes mín, mataræðið er alveg farið í vaskinn þessa dagana....ekkert grænmetisfæði hjá mér núna!) til að kaupa í kvöldmatinn og sat svo í háskólanum og lærði til kl. hálf tíu. Tók metroinn heim og var komin heim nógu snemma til að sjá ljós í glugganum hjá „ósýnilega leigjandanum“. Hmm, var orðin mjög spennt að sjá framan í hann morguninn eftir.

Vaknaði síðan klukkan sex í morgun og fór í sturtu. Byrjaði auðvitað á að þrífa sturtubotninn, því það hafði greinilega ekki verið gert frá síðustu jólum, og ég gat ekki hugsað mér að stíga með mínum viðkvæmu fótum á þennan óþverra.......fótsveppir ábyggilega í algleymingi í þessari sturtu! Það var talsvert mikið auðveldara en þrifin á nuddbaðkarinu, sem gladdi mig að sjálfsögðu ósegjanlega mikið. „Ósýnilegi leigjandinn“ hélt sig til hlés þar til ég var nánast tilbúin til að fara út úr dyrunum, þá bara gat hann ekki haldið í sér lengur og skaust á klósettið þegar ég sá ekki til. Kom svo aftur fram þegar hann hélt að ég væri farin, en......hehe......ég var ekki farin, því ég hafði þurft að koma aftur inn til að sækja hjólaljósið mitt, svo, hann neyddist til að heilsa mér.

Ég á svo sem ekki von á að „ósýnilegi leigjandinn“ verði lífið og sálin í þessari sambúð okkar, en það er allt í lagi með hann..................hann virðist alla vega ekki vera neinn raðmorðingi eða nauðgari, svo ég ætti að geta sofið rólega á nóttunni þess vegna. ;-)

En, svona allt opsummerað, þá líst mér bara mjög vel á þessi nýju heimkynni. Ég hjólaði í skólann í morgun og jólaskreytingarnar á leiðinni eru bara STÓRKOSTLEGAR! Svo stórkostlegar að ég gat ekki einbeitt mér að því hvert ég var að fara og fór kolvitlausa leið. Endaði við Østerport lestarstöðina, sem er langt úr leið og bullaði mig svo einhvernveginn til baka í skólann, þannig að það fór allt vel að lokum.

En.......nú er best að fara að læra.
Kem heim eftir........eina viku........og .....................þrjá daga!!! VÍíííííííííííí!!!!
Kveðja,
Elín
x

torsdag den 27. november 2008

Undarlegar uppákomur

x
Ég lenti í sérdeilis skrýtinni uppákomu í gærkvöldi sem ég hef engar rökstuddar skýringar á en er búin að búa til eina kenningu um.

Kl. hálf átta í gær lagði ég af stað heim úr skólanum. Þegar ég var komin út á lestarstöð rak ég augun í konu eina sem var að tala í farsíma. Það var svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað að þegar ég var að ganga framhjá henni og virti hana fyrir mér af fullkomnu áhugaleysi, þá rak blessuð manneskjan út úr sér tunguna framan í mig. Ég hrökk hálfpartinn við, enda ekki vön svona löguðu frá fullorðnu fólki, hélt að þetta hefði bara verið vitleysa í mér, sneri mér við og leit aftur á hana. Þá bara rak hún aftur út úr sér tunguna framan í mig og því fylgdu viðeigandi fúkyrði á dönsku sem ég vissi ekki hvort var beint til mín eða viðmælandans í símanum.........til allrar hamingju skildi ég ekki orð af því sem hún sagði. Það var augljóst mál að ég hafði eitthvað gert þessari manneskju á móti skapi, þannig að ég reyndi að hugsa þessar fáu sekúndur aftur í tímann til að komast að því hvað það gæti verið. Ég taldi mig ekki hafa glápt á hana, a.m.k. ekki neitt meira en aðra sem ég mæti á götu, og ákvað fyrir rest að svona hefði atburðarásin verið:

Rétt áður en ég kom að "símakonunni", fór mig að klæja í nefið. Þar sem þetta var hvorki mjög alvarlegur né truflandi kláði, og ég bæði með báðar hendur fullar og í vettlingum, þá nennti ég ekki að leggja frá mér það sem ég hélt á til að geta klórað mér, svo málið var leyst á einu augabragði með því, að ég nuddaði efri vörinni á mér við nefið. Þetta gerði ég mjög ómeðvitað, á einu sekúndubroti, án nokkurrar umhugsunar. Kenning mín er sem sagt sú, að einmitt á þessu augnabliki, þegar ég var að "klóra mér í nefinu með efrivörinni" (getið þið gert þetta?!?), þá hafi aumingjans konan snúið sér við og litið á mig, og ............... haldið að ég væri að gretta mig framan í hana! (Ég sem sagt prófaði að endurtaka þetta fyrir framan spegilinn heima og ég verð bara að viðurkenna að þetta lítur ákaflega ankannalega út!) Auðvitað ákvað hún, eins og hver önnur þroskuð og vel upp alin manneskja hefði gert, að svara fyrir sig, og þar sem hún var ekki eins liðug í andlitinu eins og ég, þá varð tunguútrekstur fyrir valinu,......TVISVAR!
Hljómar þessi skýring ekki sennilega? Allir svo að fara að æfa sig fyrir framan spegilinn!

......................................................................

Í morgun fengum við Tina hópverkefnið sem ég vann í þarsíðustu viku (á dönsku) til baka. Bestået og með fullt af góðum umsögnum frá kennaranum. Mikið svakalega var ég ánægð. Þetta var fyrsta verkefnið sem ég vinn á dönsku, alein, og alls ekki viss um að hafa skilið fyrirmælin rétt, og Tina gerði ekkert nema fara yfir málfræðina hjá mér. Þá er ég allavega pottþétt með að hafa lagt mitt á vogarskálarnar í þessari hópavinnu og get hætt að hafa áhyggjur af ritgerðinni sem ég á að skila 18. des. Vel gert, Elín!

..................................................................

Það er alveg furðulegt, hvað ég hef undanfarið mætt mörgum manneskjum hérna á förnum vegi, sem líkjast alveg rosalega einhverjum sem ég þekki heima. Hafið þið lent í þessu?!? Í gærkvöldi t.d. sat ég á móti Ísey Dísu í lestinni á leiðinni heim og í búðinni í fyrradag var ég nærri því búin að heilsa einhverjum manni sem var nauðalíkur einhverjum heima. Ætli þetta gefi vísbendingar um að genasamsetningum heimsins séu takmörk sett, eða er ég bara að verða svona illa haldin af heimþrá?!? Verst er samt þegar maður mætir einhverjum sem manni finnst vera líkur manni sjálfum. Ég hef lent í því, held ég, þrisvar á ævinni og það er sko með óþægilegri upplifunum.

Nákvæmlega tvær vikur í dag þangað til ég kem heim!!!

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 18. november 2008

Regntímabilið.....

x
Ég botna bara ekkert í þessu. Í hvert skipti sem ég ákveð að skreppa í búðina að versla, (þetta gildir um allar búðir aðrar en matvöruverslanir), þá byrjar að rigna eins og hellt væri úr fötu. Þetta hlýtur að tengjast kreppunni á einhvern hátt. Mér dettur helst í hug að Davíð Oddsson sé eitthvað viðriðinn þetta.......hafi á einhvern yfirnáttúrulegan hátt haft samband við æðri máttarvöld og beðið þau um að gæta þess að íslenskir námsmenn erlendis séu nú ekki að spreða gjaldeyrisforðanum okkar í óþarfa, heldur haldi sig bara sem mest við lestur námsbóka! Ætli það verði ekki bara það sem ég geri þá restina af deginum,........ekki fer ég að hjóla langar leiðir í ToysR Us í þessu veðri........!

Kann einhver betri skýringu á þessu?!?

Kveðja,
Elín

U.þ.b. hálftíma eftir að ég skrifaði þetta, var ég inni í eldhúsi að elda matinn og varð litið út um gluggann. Hvað?! Var ekki bara hætt að rigna.............og klukkan ekki nema tvö! "Kannski ég hjóli bara í búðina, eftir allt saman?!" hugsaði ég með mér. Einni og hálfri mínútu síðar heyrði ég regndropana byrja að dynja á rúðunni að nýju. "Hmm, jæja, ég verð þá bara heima í dag," hugsaði ég. Hálftíma seinna var sólin farin að skína og ég fór aftur að velta því fyrir mér að fara í búðina. Það var eins og við manninn mælt að nokkrum mínútum seinna var aftur komin ausandi rigning.
Ég sá samt við þessum dyntum í veðurfarinu, fyrir rest! Næst þegar ég sá að það var stytt upp, skellti ég mér í strigaskóna og hjálminn á hausinn og hjólaði svo beinustu leið út í búð..........á náttfötunum....................og keypti mér.................súkkulaðistykki og negrakossa!
Þá var það afgreitt!
Skyndnúðlur og súkkulaði í kvöldmatinn, og ég get haldið áfram að læra.

Bless aftur,
Elín
x
x

Páll postuli........

x
Í síðasta tíma í personlighedspsykologi, minntist kennarinn einhverra hluta vegna á fyrirmæli Páls postula í Nýja Testamentinu um að konur ættu að þegja á samkomum (man ekki alveg hvert samhengið var við námsefnið........) og ræddi um mismunandi þjóðfélög og siði þá og nú, sem væru ástæður þessarar reglu. Í kjölfarið var rætt um samfélagsleg réttindi kvenna, femínisma og fleira. Þessi tilvitnun í Nýja Testamentið olli töluverðu fjaðrafoki meðal nemendanna í salnum, þar sem mikill meirihluti þeirra er kvenkyns. Mig hinsvegar, langaði mest til að rétta upp hendina og leiðrétta þennan mikla misskilning. Þessi tilskipun Páls postula, að mínu mati, var alls ekki tilkomin vegna þess að honum þætti eitthvað minna til kvenna koma en karla. Blessaðar konurnar geta bara aldrei haldið sér saman við nokkurt tækifæri! Þetta voru bara vinsamleg tilmæli til þeirra um að sýna öðrum þá sjálfsögðu tillitssemi og virðingu að vera ekki að trufla með stöðugu blaðri um eitthvert fánýti, þegar mikilvægir menn eru að flytja ræðu og aðrir að reyna að hlusta á þá!
Ég hef nefnilega ítrekað lent í því að ákveðinn hópur kvenkyns samnemenda minna sest beint fyrir aftan mig á fyrirlestrum og blaðrar svo út í eitt þannig að erfitt er að einbeita sér að því að hlusta og tileinka sér kennsluefnið. Þetta verð ég ekki vör við að karlkyns nemendurnir geri, (svo maður hleypi nú karlrembunni í sér upp á yfirborðið.......!) Þannig að frá mínum bæjardyrum séð, voru þessi tilmæli Páls postula afar réttmæt og viðeigandi, bæði þá og nú.
Ég get samt ekki að mér gert að reyna að ímynda mér viðbrögðin sem ég hefði fengið, hefði ég rétt upp höndina og sagt þetta fyrir framan hópinn.........hefði líklega verið grýtt fyrir framan skólann eftir kennslustund............eða, gera sálfræðinemendur kannski ekki svoleiðis?!?

Eigið góðan dag.
Kveðja,
Elín
x

fredag den 14. november 2008

Hörðu efnin og aukaverkanir þeirra

x

Fyrst í haust kom það stundum fyrir að ég fengi mér lítinn kaffibolla inn á milli fyrirlestra. Ekkert á hverjum degi, heldur meira svona einu sinni í viku, að meðaltali. Þar sem ég hef aldrei drukkið kaffi og mér finnst það með eindæmum vont, þá var eini tilgangurinn með þessari drykkju að koma heilasellunum í gang. Ég er nefnilega búin að komast að því að kaffi hefur sérlega góð áhrif á námsframvinduna hjá mér, einkum og sér í lagi ef ég er illa sofin. Heilasellurnar bara spretta á fætur og fara í gang og skyndilega skil ég allt sem sagt er við mig.

Eins og með önnur vímuefni, þá kemur samt að því fyrir rest að virknin fer að minnka. Þess vegna var ég í gær, námsins vegna, tilneydd að byrja í hörðu efnunum, þ.e.a.s. stórum kaffibolla (+ einni kökusneið, til að geta þolað bragðið af kaffinu!). Þetta virkaði svo vel að í gær vann ég það afrek (heilmikið afrek á minn prívat og persónulega mælikvarða) að sitja samfleytt í sex klukkustundir og skrifa verkefni á dönsku. Með hjálp kaffibollans og orðabókar gekk það alveg vonum framar. Svo bara vona ég að stóri kaffibollinn hætti ekki að virka fyrr en eftir jól, því þá þarf ég líklega að byrja á amfetamíninu..............svo þegar það hættir að virka, þá verður vonandi bara komið vor!!!

Skrambinn, það er eiginlega verst með aukaverkanirnar af stóru bollunum. Þótt hjálpin við námið sé óumdeilanleg, þá satt best að segja "renna þeir beint í gegn". Auðvitað er ákveðin tilbreyting fólgin í því að brjóta upp námið á 10 mín fresti til að fara á klósettið................en................öllu má nú ofgera. Fór örugglega 15 sinnum í dag!

Þetta minnir mig eiginlega á það þegar ég var að kenna ákveðnum nemendum í fyrravetur (engin nöfn nefnd). Mér þótti einum drengnum í bekknum verða óvenju tíðförult á klósettið í stæðfræðitímum (hefur líklega vantað tilbreytingu!), gjarnan fljótlega eftir frímínútur, sem ég reyni nú að segja krökkunum að sé ákaflega heppilegt að nýta til klósettferða. Þegar ég var farin að hafa verulegar áhyggjur af því að þessi reglubundna fjarvera úr tímum færi að há stærðfræðinámi drengsins, þá setti ég á hann kvóta. Þrisvar í viku fengi hann leyfi til að fara á klósettið úr stærðfræðitíma!!! (Gribba!) Þetta gekk mjög vel og hann stóð við samninginn. Um svipað leyti byrjaði ég á grænmetisfæðinu sem minnst var á hér í fyrra bloggi og fór að taka nesti með mér í skólann til að borða í hádeginu. Megin uppistaðan í nestinu var hrátt grænmeti; gúrka, paprika, tómatar og gulrætur, svona mestmegnis. Gallinn við hráa grænmetið er hinsvegar sá, að það líkist kaffinu að einu leyti: Það er afskaplega vatnslosandi og RENNUR BARA BEINT Í GEGN! Afleiðingarnar voru þær, að u.þ.b. klukkutíma eftir að ég borðaði, þá bara varð ég MJÖG nauðsynlega að komast á klósettið! Því miður var ég alltaf í miðri kennslustund á þeim tímapunkti.......og........viljiði giska á hvaða bekk ég var yfirleitt að kenna??? Nú, auðvitað bekknum þar sem ég setti klósettkvótann!!! Nú voru góð ráð dýr! Ekki getur maður sett klósettkvóta á nemendur sína og farið svo sjálfur á klósettið tvisvar í hverjum tíma! (Á þessu tímabili var ég semsagt líka að reyna að auka vatnsdrykkjuna......hehe.....og hellti alltaf líka í mig hálfum lítra af vatni í hádeginu). Hvað átti ég eiginlega til bragðs að taka? Það endaði með því að ég leysti málið með alls konar lygum og undanbrögðum..........."Þarf aaaaðeins að skreppa og ljósrita, krakkar!"................"Æ, ég bara alveg STEINGLEYMDI verkefnablaðinu inni á kennarastofu, krakkar!"...................."Þarf aaaaðeins að skjótast í símann, veriði stillt á meðan!" Það var mikið að ekki var dregið af laununum mínum vegna umtalsverðrar fjarveru frá kennslustundum!! Ég segi nú ekki annað............!

Bless í bili.......og passiði ykkur á kaffinu/grænmetinu!
Elín Eydís

x

onsdag den 12. november 2008

Látum rétta fólkið sæta ábyrgð!

x
Já, ég veit að ég lofaði að blogga ekkert um kreppumál, en nú get ég bara ekki orða bundist lengur. Þess vegna spyr ég, eins og öll þjóðin:

ÞVÍ ER FÓLKIÐ SEM BER ÁBYRGÐ Á KREPPUNNI EKKI LÁTIÐ SÆTA ÁBYRGÐ Í ÞESSU MÁLI???

Nú halda líklega sumir að ég sé að tala um ríkisstjórnina, ........ eða seðlabankastjóra,........jafnvel fjármálaeftirlitið.........eða útrásarvíkingana sjálfa! Nei, ekki aldeilis! Ég er að tala um fólkið sem ber RAUNVERULEGA ábyrgð í þessu máli,.............fólkið sem brást algjörlega hlutverki sínu,....... fólkið sem átti að sinna uppeldinu á þessum mönnum sem finnst allt í lagi að ræna peningum almúgans, og kunna svo ekki einu sinni að skammast sín fyrir það!.............nei, ég er ekki að tala um foreldra þeirra, varla eru það þeir sem bera ábyrgð á uppeldinu?! Nei, ég er að tala um hina einu réttu sökudólga í þessu máli: GRUNNSKÓLAKENNARA!!! Hverjir eru það aðrir en íslenskir grunnskólakennarar sem áttu að innræta þessum mönnum almenna siðgæðisvitund og náungakærleika og brugðust því hlutverki sínu hrapallega?!?

Ég legg til að allar þessar skuldir þjóðarinnar sem við erum að glíma við núna, verði DREGNAR AF LAUNUM GRUNNSKÓLAKENNARA næstu..............hvað eigum við að segja,..........643 árin!!! Þá kannski skilur þetta fólk loksins hvað það gegnir mikilli ábyrgðarstöðu........og fer vonandi að sinna vinnunni sinni af einhverjum metnaði!

Svo maður tali nú ekki um LEIKSKÓLAKENNARANA sem ekki gátu einu sinni komið sögunni af Hróa Hetti óbjagaðri til þessara manna fyrir fimm ára aldurinn.................LÁTUM ÞÁ BARA BORGA LÍKA!!! (.........stela frá þeim fátæku til að gefa þeim ríku............?!)

Ég er svo miður mín yfir að enginn skuli hingað til hafa séð sannleikann í þessu máli. Vonandi ratar þetta blogg mitt í réttar hendur, (veit einhver e-mailið hans Geirs Haarde...???) þannig að hægt verði að draga þessa einstaklinga til ábyrgðar og rétta þjóðarskútuna af.

Verið sæl í bili.
Kreppukveðja,
Elín
x

Verslunarferðin mikla

x
Nú þarf ég aldeilis að vinna upp fyrst ég skrifaði ekkert í gær. Ég var nefnilega heima að læra allan daginn í gær og gerði ekkert mér til skemmtunar nema að skreppa eina ferð í búðina. Mér fannst allt í einu Læra-Sofa-Kaupaímatinn rútínan orðin full einhæf til að skrifa um.
Ég er að samt að hugsa um að segja ykkur aðeins frá deginum í gær til að komast aftur á "the right track".

Til að byrja með, þá fékk ég tölvupóst í gærmorgun frá vinnufélaga mínum, henni Agnesi. Þar spurði hún mig meðal annars: ".......en hvernig gengur með grænmetisfæðið?". Ég varð að sjálfsögðu eitt stórt spurningamerki: "Ætlaði ég að vera á einhverju grænmetisfæði í vetur?!? Hmm.......heldur hún kannski að ég sé í Puerto Rico á hráfæðisnámskeiðinu.....? Nei, það er ekki fyrr en næsta vetur!!! Í öllu falli heldur hún að ég sé að hugsa um heilsuna hérna í Köben! Hvað ætti ég að gera í þessu? Allavega ekki láta hana frétta af namminu sem ég keypti í gær!"

Svo hætti ég hugsa um þetta og ákvað að fara niður í Spinderiet (nálægasta verslunarmiðstöð) til að lyfta mér aðeins upp. Var líka búin að fá leyfi frá Halli til að fara og kaupa jólagjöf handa Birgittu (ekki það að við ætluðum ekki að gefa henni jólagjöf, við vorum bara búin að koma okkur saman um hvað það ætti að vera). Þar sem Birgitta fær frekar stóran pakka í ár, þá var þetta eina markmiðið með ferðinni, því ég treysti mér ekki til að koma meiru en þessu heim á hjólinu.
Á leiðinni niðureftir (já, það er SMÁ brekka þangað.....!) datt mér samt í hug að það væri nú kannski allt í lagi að nota ferðina og líta við í gæludýrabúðinni til að kaupa jólagjafirnar hennar Ljúfu, þá væri það frá. Það yrði aldrei svo mikið að það kæmist ekki í körfuna á hjólinu.

(Svona til frekari skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Ljúfu, þá er hún ein af fjölskyldunni í Lækjarási og jólahundur hinn mesti. Hún opnar alla pakkana sína sjálf og er farin að stikla kringum jólatréð á aðfangadag löngu á undan börnunum. Hún verður svo æst á aðfangadagskvöld að hún þarf að liggja fyrir í heilan sólarhring á eftir til að jafna sig. Þetta er auðvitað aðal skemmtunin á aðfangadagskvöld, þess vegna pössum við vel upp á að hún fái örugglega nógu marga pakka!)

Á leiðinni í gæludýrabúðina gekk ég fram hjá fataverslun sem ég hef ekki séð fyrr (er búin að venja mig á að líta alltaf í hina áttina þegar ég fer fram hjá fatabúðum í DK). Þar í búðarglugganum stóð gína, klædd í kjól sem ég sá mjög greinilega að hafði verið sérstaklega hannaður fyrir mig (ekkert að grínast með það!). Eftir skamma orrustu við samvisku mína gekk ég inn, mátaði kjólinn, sá að ég hafði haft rétt fyrir mér með hönnunina og ........ keypti hann. KOM, SÁ OG SIGRAÐI...............eða....................KOM, MÁTAÐI OG KEYPTI!

Þegar þessum óvænta þætti í verslunarferðinni var lokið, fór ég í gæludýrabúðina og keypti þrjár jólagjafir handa Ljúfu. Svo fann ég ágætis ódýra búð þar við hliðina á og keypti nokkra vel valda hluti í gjafaskápinn (þurfa ekki bæði börnin og Hallur að hafa með sér pakka á litlujólin?!?) Þar með var ég allt í einu komin með fjóra haldapoka og átti enn eftir að kaupa jólagjöfina hennar Birgittu. Ég sá að þetta gengi ekki lengur, hélt beinustu leið í .......búðina þar sem ég keypti jólagjöfina og ........mundi þá allt í einu eftir tölvupóstinum frá Agnesi. MIG VANTAÐI GRÆNMETI!!! .........fór í Kvickly, þar sem ég keypti fullt af grænmeti, rauðsprettu í raspi og frosin jarðarber. Þar með voru komnir tveir haldapokar í viðbót.

Ég staulaðist með allt draslið út (meðan ég bölvaði sjálfri mér í hljóði og rifjaði upp t.d.......þegar ég kom ein heim frá Ítalíu með 80 kg í flugvélinni......................þegar við Hallur fluttum inn rugguhestinn frá Prag...............nú, eða bollastellið og loftljósin frá Portúgal................., hugsaði með mér að ég hefði nú líklega séð það svartara og minnti sjálfa mig á að ég ætti að baki langa sögu vel heppnaðra flutninga á allt of miklu af drasli.) Svo setti ég þrjá poka í körfuna framan á hjólinu, tvo poka á annað stýrið, einn poka á hitt stýrið og stóra kassann á bögglaberann (þess vegna heitir þetta bögglaberi, ekki satt?!?) Svo ætlaði ég bara að leiða hjólið heim. Eftir nokkra stund fannst mér það samt ganga allt of hægt, svo ég vippaði mér upp á sætið og hjólaði OFUR varlega alla leið heim án þess að missa neitt á leiðinni. Þetta var gríðarlega vel heppnuð verslunarferð!

Kom svo heim og vaskaði upp (sem er alveg nóg að gera bara einu sinni í viku), nennti svo ekki að elda úr öllu grænmetinu sem ég keypti og fékk mér bara rúgbrauð og bollasúpu í kvöldmatinn.

Nokkuð góður dagur, svona þegar á heildina er litið. (Fía fékk auðvitað nett áfall yfir kjólnum, en hún er að jafna sig inni í rúmi.)

Kveðja,
Elín
x

mandag den 10. november 2008

Holdið er veikt........

x
Fór ein í búðina í dag og keypti brjóstsykur, súkkulaði og ís................og AB-mjólk til að laga meltinguna eftir allan sykurinn. Á leiðinni að kassanum sá ég svo að uppáhalds skyndinúðlurnar okkar Birgittu voru komnar á útsölu. 3 stk á 25 kr meðan 1 stk kostar 15 kr. Stökk á þær og keypti 9 stk.
Hjólaði svo blindandi heim í myrkrinu, því ég hafði ekki nennt að taka gleraugun með. Komst samt alla leið.
Fía var alls ekki ánægð með sælgætiskaupin og minnti mig á öll fötin heima sem áttu að "passa á mig í vor!" Það glaðnaði samt aðeins yfir henni þegar hún frétti af öllum útsölunúðlunum sem ég keypti.
Erum búnar með pizzuna.........jibbííí!

Komst að því, þegar ég horfði á fréttirnar áðan, að enn er verið að fara illa með Íslendinga í útlöndum og það ekki bara með því að reka þá út úr verslunum. Jú, í 10 mínútna þrumuveðrinu, sem ég sagði ykkur frá í gær, laust niður eldingu með þeim afleiðingum að sex ÍSLENSKIR hestar drápust! Hér í Danmörku................
.............einhversstaðar.......!

Kveðja,
Elín
x

søndag den 9. november 2008

Trick or Treat?!?

x

7:30. Vakna og fer í sturtu. Fæ mér kalda pizzu í morgunmat.

8:30. Ákveð að taka af rúminu og setja í þvottavél í dag. Ætla samt að bíða aðeins með að setja þvottavélina í gang þar til kominn er eðlilegur sunnudagsfótaferðartími, af tillitssemi við íbúa neðrihæðar.

9:30. Nenni ekki að bíða lengur og fer niður til að setja í þvottavélina. Árans! Kallinn niðri var slægur og stillti hana á tíma í gærkvöldi. Þarf að bíða í 80 mín eftir að hún klári að þvo.

10:30. Þurrka af og viðra. Þetta verður að duga sem aðalhreingerning þessa vikuna.

11:30. Fer niður og set í þvottavélina. Fæ mér kalda pizzusneið í hádegismat. Reyni að lesa smávegis í leiðinlega faginu................það er MJÖÖÖÖÖG erfitt!

13:30. Fer niður og hengi upp þvottinn. Fæ mér tvær kaldar pizzusneiðar milli mála.

14:47. HAH! Fann súkkulaðibita ofan í tösku sem ég keypti í skólanum á fimmtudaginn og gleymdi að borða. Já, ævintýrin gerast enn! Best að borða samt nokkrar gamlar mandarínur fyrst. ;-)

14:48. Komin úrhellisrigning, þrumur og eldingar.............ætla ekki út að hjóla í dag.

14:58. Hætt að rigna og komin sól. Ósköp var þetta aumingjalegt þrumuveður.......! Ætla samt ekki út að hjóla! Best að stelast í jólasmákökurnar hennar Fíu! hehe

15:42. Gleymdi alveg að segja ykkur hvað við Fía gerðum í gærkvöldi. Þegar pizzudeigið var tilbúið og við ætluðum að fara að fletja það út, þá allt í einu áttuðum við okkur á því að hér var ekkert kökukefli til. Fía vildi reyna að nota fulla maltölsdós til að fletja út, en mér fannst það ómögulegt, þannig að ég fór niður og spurði kallinn á neðri hæðinni hvort hann gæti lánað mér "en kagerulle". Hann varð vandræðalegur og sagði svo að fyrrverandi konan sín hefði fengið kökukeflið við skilnaðinn (líklega þurft á því að halda ef hún fengi sér nýjan mann, þeim verður ekkert haldið í skefjum með öðru móti, er það?!?). Kærastan hans ætti kökukefli, en hún hefði líka tekið það með sér þegar hún flutti út í haust (hvað er þetta eiginlega með kvenfólk og kökukefli?). EN!.........hann vissi ráð, og sagðist geta lánað mér flösku til að fletja út með. Lét sig svo hverfa inn í geymslu og kom til baka með fulla rauðvínsflösku sem hann lánaði mér. Sagði að það væri örugglega betra að nota fulla flösku en tóma og að sjálfsögðu tók ég í sama streng. Að þeim orðum sögðum fór ég upp með flöskuna og flatti út pizzudeigið. Það gekk ákaflega vel. Eftir matinn opnuðum við Fía svo flöskuna og drukkum allt rauðvínið meðan við horfðum á Spaugstofuna. Sváfum alveg rosalega vel í nótt! Í morgun fylltum við flöskuna svo af vatni, settum tappann í og skiluðum henni á eldhúsborðið niðri með þessum skilaboðum:

"Kæri Carsten.
Þúsund þakkir fyrir lánið á flöskunni.
Þegar við vorum búnar með hana, fylltum við hana af vatni og settum tappann aftur í. Hún lítur alveg út fyrir að vera óupptekin, finnst þér það ekki?
Enn og aftur, kærar þakkir fyrir lánið.
Bestu kveðjur,
Elín og Fía."

Síðan höfum við ekki séð Carsten. Það var auðvitað mjög djarft teflt hjá okkur að haga okkur svona gagnvart lögreglumanni og fyrrverandi slökkviliðsmanni. Það er ekkert víst að hann bjargi okkur þótt það kvikni í húsinu í nótt.......................sjáum til. :-)

17:33. Best að við fáum okkur heita pizzu í kvöldmatinn.

Bless í bili,
Elín og Fía
x

lørdag den 8. november 2008

Klofinn persónuleiki

x
Eftir mikinn lestur sálfræðikenninga undanfarið, er ég búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég sé klofinn persónuleiki. Já, mikið rétt, í mér búa sem sagt tvær persónur.
Ég held að fyrsta manneskjan til að taka eftir þessu hljóti að hafa verið Birgitta, því meðan hún bjó hérna hjá mér í haust, þá lenti hún ítrekað í því að fara út í búð að kaupa í matinn með "hinum" persónuleikanum.

Og hver ætli hann sé þá, þessi "hinn" persónuleiki? Jú, það er hún Fía, þið kannist sjálfsagt öll við hana. Ég hélt satt best að segja að hún myndi sjálfkrafa láta sig hverfa þegar sýningum á Djöflaeyjunni var hætt í vor, en undir haustið skaut hún aftur upp kollinum og hefur styrkst og eflst með hverri hörmungakreppufréttinni sem ég les á mbl.is.

Eftir að fyrsta áfallið við þessa uppgötvun var liðið hjá, þá ræddum við Fía saman og ákváðum að reyna að gera gott úr þessu. Þegar tvær manneskjur búa í sama húsinu, þá þurfa þær að sjálfsögðu að reyna að skipta með sér verkum og láta sér lynda eftir því sem framast er unnt.

Fram að þessu hefur sambúðin bara gengið nokkuð vel og það hefur mikið létt af mér vinnuálaginu að Fía tekur fullan þátt í heimilisstörfunum á móti mér. Hún sér t.d. alfarið um að kaupa í matinn og elda. Ég hef nokkrum sinnum farið með henni út í búð en þar sem ég fæ engu ráðið um það hvað keypt er, þá er ég eiginlega alveg hætt að nenna að fara með. Tíma mínum er miklu betur varið í að sitja heima og læra.

Fía kaupir engan mat nema hann sé á tilboði. Því miður þá er allur tilboðsmatur hérna seldur í magnpakkningum, þannig að ég lendi ítrekað í að borða sama matinn svo dögum skiptir, því það má ekki kaupa meira fyrr en allt er búið. Ekkert má skemmast og engu má henda. (Núna eru t.d. tveir pokar af gömlum mandarínum í ísskápnum, sem hún keypti á útsölu, og þeim er sko troðið í mig með góðu eða illu.) Um daginn kom Fía hróðug heim úr búðinni með eldgamla, kolsvarta banana sem hún hafði fengið á niðursettu verði. Ég sagði henni að þetta léti ég ekki inn fyrir mínar varir þótt ég fengi borgað fyrir það. Hún svaraði því til að þetta væri fínt í blandarann með AB-mjólk og jarðarberjum, skellti þeim í og setti af stað. Ég drakk þetta allt saman og varð að viðurkenna að þetta var alveg rétt hjá henni. Sniðug, sú gamla!!!

Fía eldar einu sinni í viku.............stóra skammta. Svo borðum við afgangana í öll mál restina af vikunni. Einstaka sinnum stelst ég samt í salatbarinn í skólanum, til að fá smá tilbreytingu. (Hún nennir nefnilega ekki alltaf með mér í skólann, held að hún sé ekkert mjög akademískt þenkjandi...........bara kapítalískt þenkjandi.) Síðasta laugardag eldaði Fía hakkgrýtu með salati. Það kláraðist í gær. Í dag ákváðum við að hafa pizzu í kvöldmatinn og hjálpuðumst að við að búa hana til. Ég stakk varfærnislega upp á því að gera bara hálfa uppskrift, þ.e.a.s. bara eina pizzu en ekki tvær eins og við erum vön að gera heima,.... svona fyrst við værum bara tvær í mat. Hún tók vel í það og svo byrjuðum við. Ég vildi henda hveitiafganginum með bréfsnifsunum í ruslið (bréfsnifsi sem rifnuðu úr pokanum og lentu saman við hveitið) en Fíu þótti það sóun og tíndi öll snifsin sem hún fann samviskusamlega upp úr skálinni (restina borðaði ég líklega með kvöldmatnum!). Þegar Fía átti svo að setja þurrgerið saman við (hálft bréf í hálfa uppskrift), þá skellti hún skyndilega öllu saman út í! Hún varð alveg miður sín, sagðist hafa gert þetta óvart og sagði að nú yrðum við að stækka uppskriftina svo við fengjum ekki gereitrun.....! Þar sem hún var mjög sannfærandi, þá endaði þetta með því að við settum tvær pizzur í ofninn í staðinn fyrir eina. Eftir nánari umhugsun, þá hef ég hana grunaða um að hafa gert þetta viljandi til að þurfa ekki að elda aftur í vikunni............það var eitthvað andstyggðar glott á henni þegar hún opnaði bakaraofninn! ......og ég veit hvað ég fæ að borða næstu dagana.........(andvarp!)

Eins og ég sagði, þá hefur Fía yfirtekið öll innkaup á heimilinu. Mér er aldrei, ég endurtek ALDREI!...........hleypt einni út í búð. Og.......það er best að þið fáið að vita það strax........... Fía keypti allar jólagjafirnar í ár! Bara svo þið getið búið ykkur undir vonbrigðin þegar þið opnið jólapakkana frá fjölskyldunni í Lækjarási þetta árið.

Þegar ég nenni ekki að hjóla í skólann í rigningunni, þá er það Fía sem rekur mig samt af stað, því "það kostar heilar 500 kr!" að fara með lestinni fram og til baka. Þegar ég velti því fyrir mér að byrja í líkamsrækt, þá er það Fía sem sannfærir mig um að það sé alveg nægileg líkamsrækt fyrir mig að hjóla í skólann á hverjum degi.....og "miklu ódýrara, líka!" Svo notar hún sömu röksemdafærslu þegar ég nenni ekki að hjóla.................vítahringur, ekki satt?!

Fía er svo gróf í sparseminni að einn daginn kom ég að henni þar sem hún var að róta í fataskápnum mínum. Ég spurði hana svona frekar hryssingslega að því hvað hún héldi eiginlega að hún væri að gera, að róta svona í fötunum mínum?! Þar sem Fía er svona manneskja sem ekki kann að skammast sín, þá svaraði hún bara hryssingslega til baka að þarna hefði hún fundið fullt af fötum sem ekki pössuðu á mig lengur og tilvalið væri að gefa í jólagjafir!!! Ég varð alveg krossbit á henni, en tókst samt fyrir rest að sannfæra hana um að þessi föt myndu nú "pottþétt" passa á mig þegar ég kæmi aftur heim frá Danmörku og þar myndu sko sparast háar fjárhæðir í fatakaupum! Eftir þetta keyrir hún mig áfram við hjólreiðarnar sem aldrei fyrr!

Mér hefur nokkrum sinnum dottið í hug að gera mér dagamun og skreppa í bíó. (Það er allt í lagi að fara einn í bíó, maður situr þegjandi allan tímann, hvort sem maður er með einhverjum eða ekki....!) Þetta hefur Fía aftekið með öllu. Hún byrjar á að benda mér á himinhátt verðið ....... og svo fer hún að telja upp allt sem fyrir mig gæti komið, eina í ferð í náttmyrkrinu í stórborginni Kaupmannahöfn. Þar eru morðingjar, nauðgarar og hryðjuverkamenn sem sitja um mig á hverju götuhorni............og kerla er sko óspör á lýsingarnar! Svo er ég að undrast það hvað mig hefur dreymt illa á nóttunni undanfarið!

Jæja, ætli það sé ekki best að fara að koma þessum pizzuafgöngum í ísskápinn ....... og okkur báðum í rúmið. Þið sjáið að ég er sko EKKI úti að skemmta mér þótt það sé laugardagskvöld! (Síðasta laugardagskvöld fór ég nefnilega út að borða með Sibbu, frænku hans Halls, og Fía er ekki enn búin að jafna sig eftir eyðslusemina.)

Bless í bili,
Elín Eydís
x

fredag den 7. november 2008

Hjólreiðar í Kaupmannahöfn

X
Tíðindalítið í dag.

Við Tina sátum í tíma og skrifuðumst á og flissuðum eins og smástelpur. Töldum okkur ekki vera að missa af miklu. Ég alveg fílaði mig eins og 15 ára í Gagganum í enskutíma hjá Rósu Dóru.......Linda man líklega eftir því, .....hvað var það, Big Mouth...??? Er ekki alveg með staðreyndirnar á hreinu lengur, en ég held að við höfum aldrei verið eins nálægt því að vera hent út úr tíma eins og þennan dag fyrir, hvað, 20 árum síðan?!? Who's counting?!? ;-)

Fór með harðfisk og smjör í leshópinn og gaf þeim sem mættu að smakka. Michelle er frá Grænlandi, vön svona mat og þótti hann að sjálfsögðu góður. Tina a.á.m. fitjaði upp á nefið yfir lyktinni en fannst hann samt góður á bragðið. Opnuðum svo gluggann af tillitssemi við næsta hóp sem á eftir okkur kæmi.

Síðan hjólaði ég heim. Í Danmörku eru nokkrar reglur sem gilda þegar maður hjólar í umferðinni. Ég er búin að komast að því að þessar eru þær mikilvægustu:


1. Ef næsti hjólreiðamaður á undan þér hjólar aðeins hægar en þú - farðu þá fram úr honum!

2. Ef næsti hjólreiðamaður á undan þér hjólar aðeins hraðar en þú - gefðu þá í og farðu samt fram úr honum. Staða þín sem hjólreiðamanns veltur á því hversu oft þú getur tekið fram úr!

3. Ef þú ert með strengi í lærunum - GOTT! Þú varst greinilega bestur í gær!

4. Ef þú lendir í kapp við strætó og hann tekur fram úr þér, ekki gefast upp - þú nærð honum aftur á næstu stoppistöð!!!

5. Ef þú sérð að það er alveg að koma rautt ljós - EKKI GEFA Í til að ná því! Nú ertu ekki lengur á tryllitækinu sem þú ert vanur heima. Reyndu að haga þér samkvæmt því.

6. Ef þú sérð að það er alveg að koma rautt ljós - og þú ert að fara að taka hægri beygju - eða fara yfir MJÖG STUTT gatnamót - og það eru ENGIR bílar sjáanlegir til að keyra þig niður -.....................þá fellur regla 4 úr gildi! (Fyrir þá sem ekki eru alveg samviskulausir: Ekki örvænta, samviskubitið hverfur um leið og þú ert kominn yfir gatnamótin!)

7. Hagaðu seglum eftir vindi. Hjólreiðamenn eru millibilsástand þess að vera bíll eða gangandi vegfarandi. Ef þú ert fljótari með því að hjóla á gangstéttinni eða fara yfir á gangbraut, þá geristu bara "gangandi vegfarandi á hjóli". Ef þér hentar betur að vera "bíll" (og þú metur aðstæður svo að það sé tiltölulega öruggt fyrir heilsu þína), þá geturðu hjólað á götunni. Aðalatriðið er að komast milli staða á sem stystum tíma og þurfa sem sjaldnast að stoppa á leiðinni. Það er auðvelt að komast hjá illilegum augnagotum frá öðrum vegfarendum einfaldlega með því að horfast ALDREI í augu við þá!

8. Mundu svo bara að: FYRSTUR = BESTUR !!! Sýndu metnað með því að taka tímann reglulega og telja á hverjum degi hversu mörgum þér tekst að fara fram úr!!!


Gott að geta komið þessu á hreint. Ég var svolítinn tíma að læra þetta, en núorðið ganga hjólreiðarnar bara mjög vel.

Bestu kveðjur,
Elín Eydís
x

torsdag den 6. november 2008

Baðdagurinn mikli

.
Í dag fór ég í bað.

"Jahá!" hugsa nú kannski sumir. "Eru þetta nú fréttir? Þvær hún sér sjaldan, eða hvað? Er þetta kannski jólabaðið í ár!!!" Eða eins og Ragga Gísla myndi orða það: "Hvað er svona merkilegt við það........?"

En, á þessu heimili er það afar merkileg, að ég segi nú ekki flókin aðgerð að fara í bað. Danskt bað, kalla ég það núna. Tengdamamma mun staðfesta þetta, eftir að hún heimsótti mig um daginn.

Þegar ég flutti hingað í haust, gerði húseigandinn mikið veður út af því að íbúðinni fylgdi SPABAD, sem honum þótti mjög merkilegt. Við nánari athugun komst ég að því að spabad er nuddbaðkar. Ég hugsaði með mér að ég hefði nú alveg getað látið mér nægja venjulega sturtu, en ákvað svo að vera bara jákvæð, það gæti jú verið ágætt að komast í heitt bað stöku sinnum. Nokkrum dögum eftir að ég flutti inn ákvað ég svo að prófa baðkarið góða. Þá rak ég mig á það að heitavatnsrennslið úr krananum var alveg með minnsta móti. Og þá meina ég MINNSTA móti. Það rétt seytlaði úr krananum. Ég ákvað samt að gefast ekki upp þótt það tæki kannski dálítinn tíma að láta renna í baðið, stillti kranann á heitasta og beið svo..........í uppundir klukkutíma. Þá var baðkarið orðið hálffullt, svona tæplega, og vatnið sem í byrjun hafði runnið heitt úr krananum farið að kólna töluvert. Ég gafst upp og fór í hálffullt (eða ætti ég að segja hálftómt) og hálfvolgt bað.

Daginn eftir talaði ég við kallinn á neðri hæðinni. (Þetta hljómar svolítið eins og hann sé skrattinn sjálfur, hehe,..... en það er hann ekki. Hann býr bara niðri.) Einhvernveginn fannst mér hann ekki hafa nægan skilning á vandamálinu, enda ábyggilega vanur að fara bara í kalt bað á heitum sumardögum,....og aldrei búið á Íslandi...... Eina ráðið sem hann gat gefið mér var að hita vatn í katlinum og hella út í! Hmm......fáránlegt, hugsaði ég með mér.

En......af því að ég er ekki týpan sem gefst upp mjög auðveldlega, þá ákvað ég samt að reyna þetta þegar Eyþór var í heimsókn hjá okkur Birgittu í haust. Einhvernveginn varð að þvo barninu og hann harðneitaði að fara í sturtu. Mér til halds og traust var tengdamamma, sem veitti góð ráð þegar henni sýndist ég þurfa á þeim að halda. Miðað við hitastigið á vatninu úr krananum taldi hún ekki nóg að hita vatn í katlinum og benti mér á að hita frekar vatn í stóra pottinum á eldavélinni, sem ég og gerði.......og í miðjupottinum.......og í litla pottinum.......og í katlinum. Best að flýta fyrir þessu eftir föngum svo barnið kæmist í bað fyrir miðnætti. Þetta gekk allt saman ágætlega. Við hituðum tvær umferðir í eldhúsinu og fannst þá komið nóg vatn í baðið og drengurinn komst ofaní á innan við klukkutíma. Allt gekk vel þar til hann var kominn upp úr. Þá "tók ég tappann úr" baðkarinu, vatnið streymdi niður..................og svo beinustu leið aftur upp úr niðurfallinu í gólfinu. Sem betur fer varð ég vör við þetta áður en það flæddi af stað niður stigann og minnkaði all snarlega rennslið úr baðkarinu góða. Við tengdamamma býsnuðumst dágóða stund yfir pípulögnunum í þessu húsi og ákváðum að það væri nóg fyrir Eyþór að fara bara næst í bað þegar hann kæmi aftur heim. Það tók annan klukkutíma að láta renna úr baðkarinu aftur.......

Síðan hefur ekki hvarflað að mér að fara í bað........

......fyrr en í dag! Munurinn var hinsvegar sá, að núna vissi ég við hvaða ofurefli var að etja og var vel undirbúin. Og nákvæmlega svona gekk þetta fyrir sig:
Kl. 15:00. Kom heim úr skólanum og skrúfaði frá krananum. Setti svo alla pottana á eldavélina og vatn í ketilinn og kveikti undir. Kveikti á tölvunni.
Kl. 15:15. Hellti úr katlinum og litla pottinum í baðkarið. Fyllti hvorutveggja aftur og kveikti undir. Skoðaði tölvupóstinn minn.
Kl. 15:20. Hellti úr stóra pottinum í baðið....vantaði mikið upp á að það væri orðið nógu heitt. Fyllti stóra pottinn aftur og kveikti undir.
Kl. 15:30. Hellti úr miðpottinum, litla pottinum og katlinum í baðkarið og fyllti svo allt saman aftur og setti af stað. Kíkti á mbl.is en sá svo eftir því, það eyðilagði alveg stemninguna......
Kl. 15:37. Borðaði nestið mitt sem ég kláraði ekki í skólanum á milli pottahellinga.
Kl. 15:43. Fékk mér negrakoss.
Kl. 15:46. Fékk mér negrakoss með kókos.
Kl. 16:00. Baðið loksins orðið nógu heitt og nógu fullt að mínu mati, eftir þrjár umferðir á eldavélinni og í katlinum. Náði í uppáhalds sálfræðibókina mína, setti útvarpið í botn á RADIO SOFT (kallinn niðri ábyggilega farinn að naga sig í handarbökin fyrir að hafa lánað BIRGITTU þetta útvarp í haust, miðað við hvernig ég hef misnotað það eftir að ég rakst á þessa útvarpsstöð um daginn.............Radio Soft - blød musik hele dagen........!), og skutlaði mér ofan í baðið. Aldeilis frábært! Söng hástöfum með Tinu Turner, Boy George, George Michael og fleiri stórkostlegum tónlistarmönnum eins og ég væri ein í heiminum og las í bókinni inn á milli, þar til........
Kl. 16:00......að ég sá eftir að hafa ekki tekið fjórðu umferðina á eldavélinni, því vatnið var farið að kólna og ég var bara alls ekki búin að fá nóg. En af því að ég er ekki týpan sem gefst upp.....þá.......fór ég upp úr baðinu, skutlaði pottunum á eldavélina og katlinum í samband og ákvað að taka bara aðra umferð.
Kl. 16:30. Bað númer tvö tilbúið. Fór aftur ofan í, las í bókinni og söng með Radio Soft og fannst öll fyrirhöfnin fullkomlega þess virði. Setti nuddið af stað svolitla stund og hafði það gott.
Kl. 18:30. Ávað að nú væri ég tilbúin til að fara upp úr, opnaði fyrir niðurfallið úr baðkarinu og vandaði mig mikið við að opna bara lítið. Það flæddi SAMT upp úr gólfinu! Þá fékk ég allt í einu hugljómun: "Hvað ef........HVAÐ EF.....það væri nú ekkert athugavert við pípulagnirnar! Hvað ef niðurfallið í gólfinu væri nú bara stíflað?! (Ókey, ókey, þetta var kannski frekar augljóst, svona eftir að hyggja, en það verður að taka það með í reikninginn að ég er enginn sérfræðingur í pípulögnum.....) Mér fannst þetta a.m.k. alveg frábær hugmynd hjá mér og þar sem að það er tiltölulega stutt síðan ég losaði stífluna í vaskanum á litla klósettinu, þá taldi ég mig færa í flestan sjó, náði í gulu gúmmíhanskana og skrúfjárnið og hófst handa.

Þetta er kannski ekki það sem mann langar mest til að fást við eftir slakandi nuddbað, en ég var samt ákaflega stolt af sjálfri mér þegar stóð og horfði á vatnið úr baðkarinu renna á fullu stími ofan í niðurfallið og beina leið NIÐUR en ekki upp. Ég er viss um að Ingólfur í Hvítafelli (okkar privat and personal pípulagningamaður) hefði orðið mjög stoltur af mér líka! Leyfi mér bara að fullyrða það! Mér tókst með herkjum að stilla mig um að hlaupa niður og segja við kallinn á neðri hæðinni: "VEISTU HVAÐ ÉG GERÐI........?! (Ligga ligga lá.......!)" Stillti mig samt um það.....ég er nú ekki alveg.......! Hann fattar það næst þegar hann fer í bað.....og verður mér eilíflega þakklátur........fellir ábyggilega niður leiguna fyrir síðasta mánuðinn........(hehe). Heppin ég......eða réttara sagt: Heppinn hann! Að hafa svona handlaginn leigjanda.....!

Nú skiljið þið kannski hvað er svona merkilegt við það að ég skyldi fara í bað í dag......og af hverju ég er búin að ákveða að fara ekki aftur í bað fyrr en ég kem heim næst. Er bara ekki alveg búin að ákveða hvernig ég leysi útvarpsleysið heima. Kannski maður nái Radio Soft á netinu. Ég er nefnilega búin að komast að því að útvarp er nauðsynlegur fylgihlutur eigi maður að njóta baðsins til fulls (trix sem ég lærði af kallinum á neðri hæðinni; ...svona getur nú verið gott að kynna sér menningu framandi þjóða!!!)

Eftir þessa dýrmætu reynslu af danskri baðmenningu hef ég ákveðið að kalla Spabaðið á Knuthenborgvej 12, Bláa Lónið. Þetta virkar eiginlega alveg eins. Kalda vatnið rennur inn á einum stað og heita vatnið annarsstaðar. Mig vantar bara grænan matarlit og sjávarsalt og þá get ég farið að selja inn!

Frábær hugmynd! Vind mér í þetta strax á morgun!
Lifið heil og njótið íslensku hitaveitunnar í botn!

Kveðja,
Elín Eydís