søndag den 24. maj 2009

Atorkusemi eiginmanna heimavið.........

x
Fyrir nokkru síðan skrapp ég út í búðina á horninu. Þegar ég var að koma aftur út eftir innkaupin, rak ég augun í mann sem var að vinna við að hreinsa gamla málningu af húsinu við hliðina á búðinni. Ég ákvað samstundis að þarna væri kominn duglegur og "hard-working" eigandi hússins að dytta að eign sinni (hvað annað?!?). Í sömu andra sá ég konuna hans fyrir mér í "sixties hillingum" inni í eldhúsi með svuntuna að baka handa honum vöfflur þegar verkinu væri lokið.
Næsta dag "þurfti" ég aftur út í búð (ókey, ókey.......hann VAR ber að ofan daginn áður þegar hann var að vinna í húsinu.........!) og þá var hann farinn að múra húsið að utan. Ég staldraði við dágóða stund og dáðist að dugnaðinum í honum (og upphandleggsvöðvunum......) áður en ég kláraði að versla og fór aftur heim.
Í gær skrapp ég svo í sömu búðina eftir nokkurt hlé. Mig rak í rogastans þegar ég gekk framhjá áðurnefndu húsi, því það var búið að múra það, mála allt að utan og félaginn var fyrir utan, hálfnaður með að helluleggja heimreiðina.
Því er spurning dagsins þessi: Hvort er líklegra að þessi blessaði maður eigi húsið sjálfur og sé atvinnulaus.................eða að þetta sé bara iðnaðarmaður í vinnunni sinni?!? (Þriðji kosturinn gæti reyndar verið sá að þetta sé náfrændi Sigga nágranna á Laugum, og atorkusemin sé bara svona svakalega mikil í ættinni..............!)
Mikið rosalega hlýtur konan hans að baka mikið magn af vöfflum þessa dagana.............. ;-)

Kveðja,
Elín
x

onsdag den 13. maj 2009

Gervigreind

x
Þeir sem halda því fram að mennirnir séu greindustu lífverur jarðarinnar, hafa algjörlega rangt fyrir sér. Bakteríur eru okkur mun snjallari og kænni.
Fyrir þremur vikum síðan tóku sér bólfestu í mér bakteríur af áður óþekktri tegund, eða öllu heldur, með áður óþekkta greindarvísitölu. Að sjálfsögðu fór ég beint til heimilislæknisins þegar ég var þeirra fyrst vör og bað um pensillín. Eftir miklar prófanir og rannsóknir hjá hjúkrunarkonunni fékk ég ekkert pensillín, því þetta voru ekki streptókokkar, heldur einhverjir fjarskyldir frændur þeirra. Síðan hafa bölvaðar pöddurnar herjað grimmt á mig.
Fyrst fékk ég svæsna hálsbólgu, varð svo rám og byrjaði að hósta. Eftir einnar og hálfrar viku veikindi, vaknaði ég upp einn morguninn, hvorki með hósta né hálsbólgu og varð alveg ægilega glöð. Ég varð SVO glöð, að ég skellti mér í skógarferð með dönskum vinum mínum. Það sem ég áttaði mig ekki á, var að ofurgreindu bakteríurnar voru bara að plata mig. Þær vildu að ég færi út í kuldann, svo þær gætu gert mig enn veikari daginn eftir.
Morguninn eftir vaknaði ég svo stútfull af kvefi og hóstinn orðinn tíu sinnum verri. Næstu dagana fór ég ekkert í skólann, heldur lá bara heima í rúmi og barðist við innrásarliðið. Um miðja vikuna fór að heyrast brak og hvæs þegar ég andaði, þannig að ég ákvað að fara til læknisins á fimmtudeginum og láta kíkja á mig.
Ég vaknaði á fimmtudagsmorguninn, fór í sturtu og tók svo strætó til læknisins. Á leiðinni áttaði ég mig á því að hvæsið og brakið í lungunum á mér heyrðist ekkert lengur. Ég vissi sem var, að læknirinn myndi ekkert vilja gefa mér nema hann heyrði í kvikindunum, þannig að ég ákvað, full bjartsýni, að mér væri líklegast bara farið að batna, hætti við læknisferðina og fór í skólann í staðinn. Hringdi svo í lækninn til að fá að fresta ofnæmissprautunni minni, sem ég hafði átt að fá þennan dag, um viku. Hvæsið og brakið í lungunum á mér byrjaði að sjálfsögðu aftur uppúr klukkan þrjú, þegar læknastofan var búin að loka!
Sama kvöld, þegar ég fór að sofa, var ég farin að eiga örðugt um andardrátt. Mér til mikillar skelfingar áttaði ég mig á því að næsta dag var 1. maí = lokað hjá lækninum! Ég tók eina parkódín forte, fór að sofa og vonaði að þetta væri bara einhver ímyndun í mér...........vaknaði svo morguninn eftir og átti enn erfitt með að anda. Mér leist ekki á að vera svona fram á mánudag, þannig að ég hringdi í Tinu, sem hjálpaði mér að finna símanúmerið hjá vaktlækninum. Svo hringdi ég í vaktlækninn og sagðist vera búin að vera veik í tvær vikur, með hálsbólgu, hósta og kvef, og nú gæti ég ekki andað lengur. Manngreyinu leist auðvitað ekkert á lýsinguna og sagði mér að koma strax svo hann gæti hlustað mig. Mikið svakalega varð ég glöð, híaði á bakteríurnar og lagði af stað á hjólinu mínu. Sem betur fer hafði ég í einum ævintýraleiðangrinum óvart hjólað fram á sjúkrahúsið, þannig að ég vissi hvar það var og gat farið beinustu leið.
Vaktlæknirinn byrjaði á að draga upp trépinnann og skoða í hálsinn á mér. Þar sá hann auðvitað ekkert, því hálsbólgan var löngu bötnuð. Svo spurði hann um kvefið og ég gat ekki annað en viðurkennt að það væri líka heldur farið að skána. Á því augnabliki held ég að hann hafi alveg hætt að taka nokkurt mark á mér. Hann kíkti samt í eyrun á mér (sem ég hafði ekkert heyrt með alla vikuna út af kvefinu) en fullyrti að þetta væri bara „kvef í eyrunum“ á mér. Fyrsta skipti sem ég heyri talað um kvef í eyrum.......hmm. Næst dró maðurinn upp hlustunarpípuna og þá fór ég að kætast. Sá í hillingum allar pensillíntöflurnar sem ég fengi nú skrifað upp á. Ég er enn að reyna að átta mig á því sem gerðist næst: Vaktlæknirinn sagði mér að anda djúpt, sem ég og gerði, nema hvað, að hvæsið og brakið í lungunum var bara nærri alveg horfið. Það heyrðist oggolítið inn á milli, ég virkilega vandaði mig við að anda djúpt svo það myndi heyrast, en í hvert skipti sem það heyrðist, þá lyfti læknirinn hlustunarpípunni til að skipta um stað á bakinu á mér. Það var engu líkara en helvítis bakteríurnar héldu bara niðri í sér andanum meðan læknirinn var að hlusta og gripu svo andann á lofti inn á milli þegar hann færði hlustunarpípuna. Mannræfillinn sá auðvitað ekki við þessum ofurgreindu veirum, enda líklega ekki nema í meðallagi greindur sjálfur, sagði mér að ég væri bara með venjulegt kvef og yrði bara að bíða eftir að þetta lagaðist. Ég fylltist örvæntingu, (því ég vissi við hvaða ofurefli var að etja), lagðist á hnén fyrir framan hann, felldi fögur tár og grátbað hann um að skrifa að minnsta kosti upp á astmalyf fyrir mig, svo ég gæti andað meðan mér væri að batna! „Jú, það gæti kannski hjálpað,“ sagði hann, skrifaði resept og sendi mig heim í rúm. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram að hvæsið og brakið upphófst aftur um leið og ég var komin út af læknastofunni!
Ég var nú samt heldur bjartsýnni en áður, hjólaði glöð í næsta apótek og sótti astmapústið mitt. Það verður að segjast eins og er, að það hjálpaði mikið við öndunina. Næstu daga á eftir smábatnaði kvefið, þótt það tæki alveg fimm daga í viðbót þar til ég fór að heyra eitthvað með hægra eyranu. Mér fannst hjálpa aðeins að hafa hitapoka á brjóstkassanum, þannig að næstu daga á eftir var ég mest heima í rúmi, með hitapokann og heitt te, og reyndi að lesa.
Í dag átti ég svo að mæta í ofnæmissprautuna hjá heimilislækninum mínum. Ég sagði við sjálfa mig að það þýddi ekkert að biðja hann um að hlusta mig, fyrst mér væri farið að skána, þannig að ég ákvað bara að láta það eiga sig...........gæti í mesta lagi spurt hann hvað ég ætti að nota pústið lengi! Ég fór til læknisins, fékk sprautuna, sýndi honum pústið og spurði hvort ég ætti að nota það alveg þar til mér væri batnað? Áður en ég vissi hvaðan á mig stóð veðrið, var hann búinn að rífa upp hlustunarpípuna, draga bolinn minn upp að öxlum og byrjaður að hlusta. Ég vandaði mig við að draga andann eins djúpt og ég gat, og pöddurnar, sem höfðu alls ekki átt von á þessari skyndiárás, gátu ekkert gert sér til bjargar. Ég var úrskurðuð með bæði bronkítis og lungnabólgu og send heim með resept upp á tíu daga pensillínkúr.

ÉG ELSKA DANSKA HEIMILISLÆKNINN MINN!!!

Kveðja,
Elín
x

onsdag den 6. maj 2009

Pöddulíf

x
Ég VISSI að ég hefði ekki átt að blogga í gær! Mig dreymdi eintómar pöddur í nótt og þar á meðal risastóran sporðdreka sem tók langan tíma að lóga........og þurfti sko verkfæri til.

Svo þegar ég vaknaði í morgun var það fyrsta sem mætti mér þegar ég opnaði augun......hvað haldið þið?.............nú auðvitað kóngulóargerpi sem sat á gólfinu við hliðina á rúminu mínu og GLÁPTI á mig! Ég kann ekkert vel við að láta glápa svona á mig snemma á morgnana og hún fékk að sjálfsögðu fyrir ferðina. Stóð svo upp, klæddi mig í inniskóna og tókst að komast þrjú skref áður en ég gekk fram á margfætlu sem var á röltinu hinum megin við rúmið mitt. Ég var sem sagt umkringd og ekki nema von að mig dreymdi svona illa í nótt! En meðan kvikindin eru svona af svipaðri stærð og toga og frændur þeirra heima á Íslandi, þá held ég nú alveg sönsum.......

Kveðja,
Elín
x

tirsdag den 5. maj 2009

Vor í Kaupmannahöfn

x
Eitt kvöldið í síðustu viku sat ég við skrifborðið mitt og var að vinna í tölvunni..........eða "vinna" í tölvunni, réttara sagt! Allt í einu heyri ég dynk á bak við mig, eins og eitthvað hafi dottið niður á gólf. Mín fyrsta hugsun var, að þar sem það er teppi á gólfinu, þá þurfi nú líklegast frekar stór hlutur að detta á gólfið til að það heyrist. Mín önnur hugsun var að hlutir dyttu nú ekki bara svona af sjálfu sér, og þar sem mér fannst hljóðið vera rétt á bak við mig, og á bak við mig var ekkert nema glugginn (já, fyrir þá sem það ekki vita, þá bý ég í kjallaraherbergi), þá varð mér nú satt best að segja ekki um sel. Ég sat grafkyrr dálitla stund, meðan ég var að ákveða hvort það borgaði sig að athuga þetta eða ekki. Loks herti ég upp hugann, stóð upp og leit á gólfið bak við stólinn minn. Þar sá ég, liggjandi marflata á gólfinu, einhverja þá allra, ALLRA, RISASTÆRSTU kónguló sem ég hef á ævi minni séð. Hún var svo stór og feit að hún gat sem sagt ekki einu sinni klifrað niður vegginn eins og venjulegar kóngulær, eða rennt sér lipurlega eftir þræði sem hún spann, heldur bara hlunkaðist hún niður á gólfið eins og kartöflupoki! Ég byrjaði á að fá nett taugaáfall við þessa hræðilegu sjón, krossaði mig svo og þakkaði Guði fyrir að hún skyldi ekki hafa dottið niður á öxlina eða hárið á mér. Svo sótti ég ósköpin öll af eldhúspappír og henti yfir hana, (það varð mér til bjargar að hún var enn dálítið vönkuð eftir fallið) og hoppaði svo ofan á henni þar til blóðið spýttist upp um alla veggi og ófreskjan gaf upp öndina!!!

Það var alveg á mörkunum að ég gæti farið að sofa þetta kvöldið........ég gerði a.m.k. mjög nákvæma leit í rúminu mínu áður en ég lagðist til svefns. Svo ákvað ég að segja börnunum mínum ekki frá þessari lífsreynslu, því þá myndu þau pottþétt neita að koma í heimsókn til mín. (Gat samt ekki stillt mig um að segja Birgittu frá, bara til að heyra viðbrögðin, og það stóð sko ekki á þeim............vona bara að hún geti staðist það að kjafta þessu í bróður sinn, því hann er sko hálfu verri........hehe.......!)

Eftir þessa uppákomu hef ég stútað fimm maurum og einni lítilli kónguló hérna inni........síðan hefur ekkert kvikt sést. Ég er bara ákaflega glöð yfir að verða ekki hér í sumar..............!

Kveðja,
Elín
x