lørdag den 28. februar 2009

Þolinmæðikeppnin

x
Ég er í þolinmæðikeppni við ósýnilega leigjandann!
Keppnin snýst um það hvort okkar gefst upp fyrr og fer út með ruslið í eldhúsinu. Síðan ég kom til baka úr jólafríinu hef ég eingöngu gert það. Ég hef með ýmsum brögðum reynt að fá hann til þess, en ekki tekist. Þrisvar sinnum hef ég verið búin að loka pokanum og setja út fyrir dyrnar þegar ég hef heyrt ósýnilega leigjandann fara í vinnuna. Framan af var ég vongóð um að hann myndi kannski kippa pokanum með sér og henda í ruslatunnuna (þetta er jú, eftir allt saman, hans rusl líka!) en þær vonir hafa algjörlega brugðist. Maðurinn bara strunsaði framhjá eins og þetta kæmi honum ekki við og ég mátti fara með pokann í tunnuna. Núna, í þessum töluðum orðum er rusladallurinn í eldhúsinu orðinn fullur. (Reyndar er rusladallurinn á klósettinu orðinn fullur líka, en af því að hann er bara fullur af tómum klósettpappírrúllum sem hafa greinilega verið að safnast upp þar í áraraðir, þá geri ég mér engar væntingar um að hann skilji að sá rusladallur tæmi sig ekki sjálfur.........!) Að mínu mati var rusladallurinn í eldhúsinu þegar orðinn fullur fyrir nokkrum dögum síðan, en, ég hef lítið verið heima síðustu dagana og hefur tekist, með þó nokkru átaki, að stilla mig um að tæma hann þegar ég er heima. Núna bara treð ég öllu nýju rusli ofan á hitt og bíð eftir að vinurinn taki við sér. Ég er jafnvel að velta því fyrir mér að mæla á hverjum morgni hæðina á ruslinu til að hafa nákvæmar vísindalegar niðurstöður úr þessari tilraun. Ég hef nú dálítið gaman af svona tilraunastarfsemi..........! ;-)

Þegar ég tók herbergið hérna á Parosvej til leigu, þá sagði leigusalinn mér að leigjendurnir tveir skiptust á um að þrífa sameiginlega rýmið, þ.e. eldhúsið, klósettið og þvottahúsið, einu sinni í viku. Ég taldi að það yrði nú ekki vandamál og hann sagði mér bara að tala við ósýnilega leigjandann til að fá upplýsingar um hvernig skipulagið á því væri. Sem ég svo gerði í byrjun desember. Samtalið fór svona fram:

E: „Hvernig er það með að gera hreint hérna frammi,.......skiptumst við á að þrífa?.....er einhver regla á því?............eða.....?!? (Dönskukunnáttan mín leyfir enn ekki miklu flóknari setningamyndun en þetta..........því miður........)

Ó: „Nei, bara passa að það verði ekki skítugt.“ (Orðrétt: „Nej, bare det ikke bliver beskidt.“)

Svo mörg voru þau orð.................og ég er enn að reyna að skilja hvað maðurinn átti við, því síðan ég kom, fyrir fjórum vikum síðan, hef ég ekki orðið vör við að hann gerði nokkurntímann nokkuð hreint hérna. Ég hef þrifið sturtubotninn, vaskana og skúrað eldhúsgólfið. Svo hef ég að sjálfsögðu tekið mitt eigið herbergi í gegn. Er hann bara einn af þessum mörgu karlmönnum sem ekki sjá skítinn þótt hann sé til staðar? Eða er það bara ég sem er að sjá skít sem „er ekki til staðar“!?! Hvernig „passar“ maður að húsið verði ekki skítugt, ef það er aldrei þrifið???? Vill einhver í almáttugs bænum segja mér hvernig á að fara að því, því ég kann það ekki! Plíííííís!

Ég er samt að hugsa um að gefast upp í þolinmæðikeppninni hvað varðar þrif á klósettinu. Ég hef bara alls ekki endingu í að bíða eftir að honum finnist það nógu skítugt til að þrífa það.....bjakk.....!
Stóra spurningin er: Er þetta bara hormónatengt vandamál sem allir karlmenn glíma við, eða ber að skella skuldinni á slæmt uppeldi? Ég hneigist mest að því að kenna móður hans um!........og í rauninni er ég þeirrar skoðunar að hún ætti að koma hingað á hálfsmánaðar fresti og þrífa sameignina, fyrst hún brást svona gjörsamlega hlutverki sínu!!!

Kveðja,
Elín
x

4 kommentarer:

  1. Mér þykir ágætis hugmynd að móðir hans komi og þrífi hálfsmánaðarlega ef karlómyndin hefur ekki dug í sér í það verkefni! En þér til mikillar upplýsinga, þá virðist þessi leigjandi vera mjög "típískt" eintak af karlmenni. Hallur er líklega "stökkbreyttur" ef þessi lýsing passar ekki við hann. Ég hef reynt ýmis ráð til að fá testósteron til að þrífa og laga til, en það er ekki í genaflækju karlmanna, nema þeirra stökkbreyttu. Þetta er töpuð barátta, nema þú náttúrulega hótir því að fá hreingerningarkonu og senda honum reikninginn hálfsmánaðarlega. Ef hann er nýskur dani mun hann taka við sér!
    Knús til Köben, Kolla.

    SvarSlet
  2. Já, hann má reyndar eiga það greyið, svo ég gæti nú allrar sanngirni, að hann gengur MJÖG vel um. Engin mylsna eða matarleifar á eldhúsgólfinu, ekkert óhreint leirtau í eldhúsvaskanum, engar tannkremsslettur í baðherbergisvaskanum og nánast ekkert kusk eða hár í sturtubotninum (ekki nema eftir mig, þá.....hehe.....). Satt best að segja, þá göngum við í sameiningu nógu vel um, til að við þurfum ekki að þrífa nema einu sinni í mánuði. Hann hefur m.a.s. tvisvar vaskað upp fyrir mig óhreinan hníf sem ég skildi eftir í eldhúsvaskanum og lagt á hilluna mína. Mér fannst það mjög sætt af honum......hehe....
    Þannig að líklega er hann "hálfstökkbreyttur" ef hægt er að orða það þannig. Ætli Hallur sé þá ekki "hálfstökkbreyttur" líka, bara á annan hátt......hmhmm....... ;-)

    SvarSlet
  3. Þú gætir etv. reynt að hræða hann með svínaflensunni til að koma honum að verki.
    Annars finnst mér þetta með að kenna mömmu hans um ekki nógu góð latína. Hélt það væri hlutverk beggja foreldra að ala börnin upp, nema verkaskiptingin sé svo stíf að það eigi alltaf að vera mamman sem kennir hreinlæti - er amk ekki þannig heima hjá mér.

    Kveðja,
    Eygló

    SvarSlet
  4. Að sjálfsögðu er það hlutverk beggja foreldra að kenna börnum hreinlæti. Ég gerði bara sjálfkrafa ráð fyrir að fyrst hann er svona, þá sé pabbi hans ekkert skárri. Og hverjum skal kennt um það? Föðurömmu hans, nú eða bara enn og aftur mömmu hans sem hefur greinilega ekkert orðið ágengt síðan hún tók við kallinum?!? Ég hneigist helst að því að kenna um öllum konum sem láta sig hafa það að sjá einar um þrifin á heimilinu og sýna þar með slæmt fordæmi! Það vantar bara alla samstöðu!!! ;-)

    SvarSlet