onsdag den 12. november 2008

Verslunarferðin mikla

x
Nú þarf ég aldeilis að vinna upp fyrst ég skrifaði ekkert í gær. Ég var nefnilega heima að læra allan daginn í gær og gerði ekkert mér til skemmtunar nema að skreppa eina ferð í búðina. Mér fannst allt í einu Læra-Sofa-Kaupaímatinn rútínan orðin full einhæf til að skrifa um.
Ég er að samt að hugsa um að segja ykkur aðeins frá deginum í gær til að komast aftur á "the right track".

Til að byrja með, þá fékk ég tölvupóst í gærmorgun frá vinnufélaga mínum, henni Agnesi. Þar spurði hún mig meðal annars: ".......en hvernig gengur með grænmetisfæðið?". Ég varð að sjálfsögðu eitt stórt spurningamerki: "Ætlaði ég að vera á einhverju grænmetisfæði í vetur?!? Hmm.......heldur hún kannski að ég sé í Puerto Rico á hráfæðisnámskeiðinu.....? Nei, það er ekki fyrr en næsta vetur!!! Í öllu falli heldur hún að ég sé að hugsa um heilsuna hérna í Köben! Hvað ætti ég að gera í þessu? Allavega ekki láta hana frétta af namminu sem ég keypti í gær!"

Svo hætti ég hugsa um þetta og ákvað að fara niður í Spinderiet (nálægasta verslunarmiðstöð) til að lyfta mér aðeins upp. Var líka búin að fá leyfi frá Halli til að fara og kaupa jólagjöf handa Birgittu (ekki það að við ætluðum ekki að gefa henni jólagjöf, við vorum bara búin að koma okkur saman um hvað það ætti að vera). Þar sem Birgitta fær frekar stóran pakka í ár, þá var þetta eina markmiðið með ferðinni, því ég treysti mér ekki til að koma meiru en þessu heim á hjólinu.
Á leiðinni niðureftir (já, það er SMÁ brekka þangað.....!) datt mér samt í hug að það væri nú kannski allt í lagi að nota ferðina og líta við í gæludýrabúðinni til að kaupa jólagjafirnar hennar Ljúfu, þá væri það frá. Það yrði aldrei svo mikið að það kæmist ekki í körfuna á hjólinu.

(Svona til frekari skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Ljúfu, þá er hún ein af fjölskyldunni í Lækjarási og jólahundur hinn mesti. Hún opnar alla pakkana sína sjálf og er farin að stikla kringum jólatréð á aðfangadag löngu á undan börnunum. Hún verður svo æst á aðfangadagskvöld að hún þarf að liggja fyrir í heilan sólarhring á eftir til að jafna sig. Þetta er auðvitað aðal skemmtunin á aðfangadagskvöld, þess vegna pössum við vel upp á að hún fái örugglega nógu marga pakka!)

Á leiðinni í gæludýrabúðina gekk ég fram hjá fataverslun sem ég hef ekki séð fyrr (er búin að venja mig á að líta alltaf í hina áttina þegar ég fer fram hjá fatabúðum í DK). Þar í búðarglugganum stóð gína, klædd í kjól sem ég sá mjög greinilega að hafði verið sérstaklega hannaður fyrir mig (ekkert að grínast með það!). Eftir skamma orrustu við samvisku mína gekk ég inn, mátaði kjólinn, sá að ég hafði haft rétt fyrir mér með hönnunina og ........ keypti hann. KOM, SÁ OG SIGRAÐI...............eða....................KOM, MÁTAÐI OG KEYPTI!

Þegar þessum óvænta þætti í verslunarferðinni var lokið, fór ég í gæludýrabúðina og keypti þrjár jólagjafir handa Ljúfu. Svo fann ég ágætis ódýra búð þar við hliðina á og keypti nokkra vel valda hluti í gjafaskápinn (þurfa ekki bæði börnin og Hallur að hafa með sér pakka á litlujólin?!?) Þar með var ég allt í einu komin með fjóra haldapoka og átti enn eftir að kaupa jólagjöfina hennar Birgittu. Ég sá að þetta gengi ekki lengur, hélt beinustu leið í .......búðina þar sem ég keypti jólagjöfina og ........mundi þá allt í einu eftir tölvupóstinum frá Agnesi. MIG VANTAÐI GRÆNMETI!!! .........fór í Kvickly, þar sem ég keypti fullt af grænmeti, rauðsprettu í raspi og frosin jarðarber. Þar með voru komnir tveir haldapokar í viðbót.

Ég staulaðist með allt draslið út (meðan ég bölvaði sjálfri mér í hljóði og rifjaði upp t.d.......þegar ég kom ein heim frá Ítalíu með 80 kg í flugvélinni......................þegar við Hallur fluttum inn rugguhestinn frá Prag...............nú, eða bollastellið og loftljósin frá Portúgal................., hugsaði með mér að ég hefði nú líklega séð það svartara og minnti sjálfa mig á að ég ætti að baki langa sögu vel heppnaðra flutninga á allt of miklu af drasli.) Svo setti ég þrjá poka í körfuna framan á hjólinu, tvo poka á annað stýrið, einn poka á hitt stýrið og stóra kassann á bögglaberann (þess vegna heitir þetta bögglaberi, ekki satt?!?) Svo ætlaði ég bara að leiða hjólið heim. Eftir nokkra stund fannst mér það samt ganga allt of hægt, svo ég vippaði mér upp á sætið og hjólaði OFUR varlega alla leið heim án þess að missa neitt á leiðinni. Þetta var gríðarlega vel heppnuð verslunarferð!

Kom svo heim og vaskaði upp (sem er alveg nóg að gera bara einu sinni í viku), nennti svo ekki að elda úr öllu grænmetinu sem ég keypti og fékk mér bara rúgbrauð og bollasúpu í kvöldmatinn.

Nokkuð góður dagur, svona þegar á heildina er litið. (Fía fékk auðvitað nett áfall yfir kjólnum, en hún er að jafna sig inni í rúmi.)

Kveðja,
Elín
x

Ingen kommentarer:

Send en kommentar