torsdag den 27. november 2008

Undarlegar uppákomur

x
Ég lenti í sérdeilis skrýtinni uppákomu í gærkvöldi sem ég hef engar rökstuddar skýringar á en er búin að búa til eina kenningu um.

Kl. hálf átta í gær lagði ég af stað heim úr skólanum. Þegar ég var komin út á lestarstöð rak ég augun í konu eina sem var að tala í farsíma. Það var svo sem ekki í frásögur færandi, nema hvað að þegar ég var að ganga framhjá henni og virti hana fyrir mér af fullkomnu áhugaleysi, þá rak blessuð manneskjan út úr sér tunguna framan í mig. Ég hrökk hálfpartinn við, enda ekki vön svona löguðu frá fullorðnu fólki, hélt að þetta hefði bara verið vitleysa í mér, sneri mér við og leit aftur á hana. Þá bara rak hún aftur út úr sér tunguna framan í mig og því fylgdu viðeigandi fúkyrði á dönsku sem ég vissi ekki hvort var beint til mín eða viðmælandans í símanum.........til allrar hamingju skildi ég ekki orð af því sem hún sagði. Það var augljóst mál að ég hafði eitthvað gert þessari manneskju á móti skapi, þannig að ég reyndi að hugsa þessar fáu sekúndur aftur í tímann til að komast að því hvað það gæti verið. Ég taldi mig ekki hafa glápt á hana, a.m.k. ekki neitt meira en aðra sem ég mæti á götu, og ákvað fyrir rest að svona hefði atburðarásin verið:

Rétt áður en ég kom að "símakonunni", fór mig að klæja í nefið. Þar sem þetta var hvorki mjög alvarlegur né truflandi kláði, og ég bæði með báðar hendur fullar og í vettlingum, þá nennti ég ekki að leggja frá mér það sem ég hélt á til að geta klórað mér, svo málið var leyst á einu augabragði með því, að ég nuddaði efri vörinni á mér við nefið. Þetta gerði ég mjög ómeðvitað, á einu sekúndubroti, án nokkurrar umhugsunar. Kenning mín er sem sagt sú, að einmitt á þessu augnabliki, þegar ég var að "klóra mér í nefinu með efrivörinni" (getið þið gert þetta?!?), þá hafi aumingjans konan snúið sér við og litið á mig, og ............... haldið að ég væri að gretta mig framan í hana! (Ég sem sagt prófaði að endurtaka þetta fyrir framan spegilinn heima og ég verð bara að viðurkenna að þetta lítur ákaflega ankannalega út!) Auðvitað ákvað hún, eins og hver önnur þroskuð og vel upp alin manneskja hefði gert, að svara fyrir sig, og þar sem hún var ekki eins liðug í andlitinu eins og ég, þá varð tunguútrekstur fyrir valinu,......TVISVAR!
Hljómar þessi skýring ekki sennilega? Allir svo að fara að æfa sig fyrir framan spegilinn!

......................................................................

Í morgun fengum við Tina hópverkefnið sem ég vann í þarsíðustu viku (á dönsku) til baka. Bestået og með fullt af góðum umsögnum frá kennaranum. Mikið svakalega var ég ánægð. Þetta var fyrsta verkefnið sem ég vinn á dönsku, alein, og alls ekki viss um að hafa skilið fyrirmælin rétt, og Tina gerði ekkert nema fara yfir málfræðina hjá mér. Þá er ég allavega pottþétt með að hafa lagt mitt á vogarskálarnar í þessari hópavinnu og get hætt að hafa áhyggjur af ritgerðinni sem ég á að skila 18. des. Vel gert, Elín!

..................................................................

Það er alveg furðulegt, hvað ég hef undanfarið mætt mörgum manneskjum hérna á förnum vegi, sem líkjast alveg rosalega einhverjum sem ég þekki heima. Hafið þið lent í þessu?!? Í gærkvöldi t.d. sat ég á móti Ísey Dísu í lestinni á leiðinni heim og í búðinni í fyrradag var ég nærri því búin að heilsa einhverjum manni sem var nauðalíkur einhverjum heima. Ætli þetta gefi vísbendingar um að genasamsetningum heimsins séu takmörk sett, eða er ég bara að verða svona illa haldin af heimþrá?!? Verst er samt þegar maður mætir einhverjum sem manni finnst vera líkur manni sjálfum. Ég hef lent í því, held ég, þrisvar á ævinni og það er sko með óþægilegri upplifunum.

Nákvæmlega tvær vikur í dag þangað til ég kem heim!!!

Kveðja,
Elín
x

3 kommentarer:

  1. HAHAHHA þú ert nú snillingur í þessum efrivarar-klóraínef gjörningi. Sá þig ljóslifandi fyrir mér.. :)

    Svo bara.. ef þú ert ekki farin að sjá neinn sem líkist mér þarna úti, þá ertu ekki orðin illa haldin af heimþrá. Þegar það gersis, að "ég" birtist ljóslifandi fyrir framan þig, þá er kominn tími á að koma heim

    SvarSlet
  2. Eru það ekki blíðuhót í einhverju landi að reka útúr sér tunguna? Kannski var þetta innflytjandi.
    Kv. Kolla

    SvarSlet
  3. Linda: Læt þig vita um leið og ég mæti "þér" úti á götu! ;-)

    Kolla: Því miður, þetta var hvorki innflytjandi né blíðuhót! Pottþétt!!! Bara Dani með óvenju litla sjálfsstjórn........

    SvarSlet