lørdag den 8. november 2008

Klofinn persónuleiki

x
Eftir mikinn lestur sálfræðikenninga undanfarið, er ég búin að komast að þeirri niðurstöðu að ég sé klofinn persónuleiki. Já, mikið rétt, í mér búa sem sagt tvær persónur.
Ég held að fyrsta manneskjan til að taka eftir þessu hljóti að hafa verið Birgitta, því meðan hún bjó hérna hjá mér í haust, þá lenti hún ítrekað í því að fara út í búð að kaupa í matinn með "hinum" persónuleikanum.

Og hver ætli hann sé þá, þessi "hinn" persónuleiki? Jú, það er hún Fía, þið kannist sjálfsagt öll við hana. Ég hélt satt best að segja að hún myndi sjálfkrafa láta sig hverfa þegar sýningum á Djöflaeyjunni var hætt í vor, en undir haustið skaut hún aftur upp kollinum og hefur styrkst og eflst með hverri hörmungakreppufréttinni sem ég les á mbl.is.

Eftir að fyrsta áfallið við þessa uppgötvun var liðið hjá, þá ræddum við Fía saman og ákváðum að reyna að gera gott úr þessu. Þegar tvær manneskjur búa í sama húsinu, þá þurfa þær að sjálfsögðu að reyna að skipta með sér verkum og láta sér lynda eftir því sem framast er unnt.

Fram að þessu hefur sambúðin bara gengið nokkuð vel og það hefur mikið létt af mér vinnuálaginu að Fía tekur fullan þátt í heimilisstörfunum á móti mér. Hún sér t.d. alfarið um að kaupa í matinn og elda. Ég hef nokkrum sinnum farið með henni út í búð en þar sem ég fæ engu ráðið um það hvað keypt er, þá er ég eiginlega alveg hætt að nenna að fara með. Tíma mínum er miklu betur varið í að sitja heima og læra.

Fía kaupir engan mat nema hann sé á tilboði. Því miður þá er allur tilboðsmatur hérna seldur í magnpakkningum, þannig að ég lendi ítrekað í að borða sama matinn svo dögum skiptir, því það má ekki kaupa meira fyrr en allt er búið. Ekkert má skemmast og engu má henda. (Núna eru t.d. tveir pokar af gömlum mandarínum í ísskápnum, sem hún keypti á útsölu, og þeim er sko troðið í mig með góðu eða illu.) Um daginn kom Fía hróðug heim úr búðinni með eldgamla, kolsvarta banana sem hún hafði fengið á niðursettu verði. Ég sagði henni að þetta léti ég ekki inn fyrir mínar varir þótt ég fengi borgað fyrir það. Hún svaraði því til að þetta væri fínt í blandarann með AB-mjólk og jarðarberjum, skellti þeim í og setti af stað. Ég drakk þetta allt saman og varð að viðurkenna að þetta var alveg rétt hjá henni. Sniðug, sú gamla!!!

Fía eldar einu sinni í viku.............stóra skammta. Svo borðum við afgangana í öll mál restina af vikunni. Einstaka sinnum stelst ég samt í salatbarinn í skólanum, til að fá smá tilbreytingu. (Hún nennir nefnilega ekki alltaf með mér í skólann, held að hún sé ekkert mjög akademískt þenkjandi...........bara kapítalískt þenkjandi.) Síðasta laugardag eldaði Fía hakkgrýtu með salati. Það kláraðist í gær. Í dag ákváðum við að hafa pizzu í kvöldmatinn og hjálpuðumst að við að búa hana til. Ég stakk varfærnislega upp á því að gera bara hálfa uppskrift, þ.e.a.s. bara eina pizzu en ekki tvær eins og við erum vön að gera heima,.... svona fyrst við værum bara tvær í mat. Hún tók vel í það og svo byrjuðum við. Ég vildi henda hveitiafganginum með bréfsnifsunum í ruslið (bréfsnifsi sem rifnuðu úr pokanum og lentu saman við hveitið) en Fíu þótti það sóun og tíndi öll snifsin sem hún fann samviskusamlega upp úr skálinni (restina borðaði ég líklega með kvöldmatnum!). Þegar Fía átti svo að setja þurrgerið saman við (hálft bréf í hálfa uppskrift), þá skellti hún skyndilega öllu saman út í! Hún varð alveg miður sín, sagðist hafa gert þetta óvart og sagði að nú yrðum við að stækka uppskriftina svo við fengjum ekki gereitrun.....! Þar sem hún var mjög sannfærandi, þá endaði þetta með því að við settum tvær pizzur í ofninn í staðinn fyrir eina. Eftir nánari umhugsun, þá hef ég hana grunaða um að hafa gert þetta viljandi til að þurfa ekki að elda aftur í vikunni............það var eitthvað andstyggðar glott á henni þegar hún opnaði bakaraofninn! ......og ég veit hvað ég fæ að borða næstu dagana.........(andvarp!)

Eins og ég sagði, þá hefur Fía yfirtekið öll innkaup á heimilinu. Mér er aldrei, ég endurtek ALDREI!...........hleypt einni út í búð. Og.......það er best að þið fáið að vita það strax........... Fía keypti allar jólagjafirnar í ár! Bara svo þið getið búið ykkur undir vonbrigðin þegar þið opnið jólapakkana frá fjölskyldunni í Lækjarási þetta árið.

Þegar ég nenni ekki að hjóla í skólann í rigningunni, þá er það Fía sem rekur mig samt af stað, því "það kostar heilar 500 kr!" að fara með lestinni fram og til baka. Þegar ég velti því fyrir mér að byrja í líkamsrækt, þá er það Fía sem sannfærir mig um að það sé alveg nægileg líkamsrækt fyrir mig að hjóla í skólann á hverjum degi.....og "miklu ódýrara, líka!" Svo notar hún sömu röksemdafærslu þegar ég nenni ekki að hjóla.................vítahringur, ekki satt?!

Fía er svo gróf í sparseminni að einn daginn kom ég að henni þar sem hún var að róta í fataskápnum mínum. Ég spurði hana svona frekar hryssingslega að því hvað hún héldi eiginlega að hún væri að gera, að róta svona í fötunum mínum?! Þar sem Fía er svona manneskja sem ekki kann að skammast sín, þá svaraði hún bara hryssingslega til baka að þarna hefði hún fundið fullt af fötum sem ekki pössuðu á mig lengur og tilvalið væri að gefa í jólagjafir!!! Ég varð alveg krossbit á henni, en tókst samt fyrir rest að sannfæra hana um að þessi föt myndu nú "pottþétt" passa á mig þegar ég kæmi aftur heim frá Danmörku og þar myndu sko sparast háar fjárhæðir í fatakaupum! Eftir þetta keyrir hún mig áfram við hjólreiðarnar sem aldrei fyrr!

Mér hefur nokkrum sinnum dottið í hug að gera mér dagamun og skreppa í bíó. (Það er allt í lagi að fara einn í bíó, maður situr þegjandi allan tímann, hvort sem maður er með einhverjum eða ekki....!) Þetta hefur Fía aftekið með öllu. Hún byrjar á að benda mér á himinhátt verðið ....... og svo fer hún að telja upp allt sem fyrir mig gæti komið, eina í ferð í náttmyrkrinu í stórborginni Kaupmannahöfn. Þar eru morðingjar, nauðgarar og hryðjuverkamenn sem sitja um mig á hverju götuhorni............og kerla er sko óspör á lýsingarnar! Svo er ég að undrast það hvað mig hefur dreymt illa á nóttunni undanfarið!

Jæja, ætli það sé ekki best að fara að koma þessum pizzuafgöngum í ísskápinn ....... og okkur báðum í rúmið. Þið sjáið að ég er sko EKKI úti að skemmta mér þótt það sé laugardagskvöld! (Síðasta laugardagskvöld fór ég nefnilega út að borða með Sibbu, frænku hans Halls, og Fía er ekki enn búin að jafna sig eftir eyðslusemina.)

Bless í bili,
Elín Eydís
x

1 kommentar:

  1. Svei mér þá ef þið Fía eruð ekki bara búnar að taka upp lifnaðarhætti sem Brekkutraðarfjölskyldan er farin að tileinka sér síðustu vikurnar. Hér eru magninnkaup og svo er engum afgöngum hent. Allt skal borðast með góðu eða illu. Við hjónin erum orðin svo gegnsýrð af sparnaði að ég nánast sá eftir kjúklingnum sem Jói ældi upp úr sér í magapestinni sem heltók okkur núna um helgina. En ég er viss um að pabbi sé stoltur af okkur fyrir nýtni og hagsýni!!
    Knús frá Kötu

    SvarSlet