fredag den 14. november 2008

Hörðu efnin og aukaverkanir þeirra

x

Fyrst í haust kom það stundum fyrir að ég fengi mér lítinn kaffibolla inn á milli fyrirlestra. Ekkert á hverjum degi, heldur meira svona einu sinni í viku, að meðaltali. Þar sem ég hef aldrei drukkið kaffi og mér finnst það með eindæmum vont, þá var eini tilgangurinn með þessari drykkju að koma heilasellunum í gang. Ég er nefnilega búin að komast að því að kaffi hefur sérlega góð áhrif á námsframvinduna hjá mér, einkum og sér í lagi ef ég er illa sofin. Heilasellurnar bara spretta á fætur og fara í gang og skyndilega skil ég allt sem sagt er við mig.

Eins og með önnur vímuefni, þá kemur samt að því fyrir rest að virknin fer að minnka. Þess vegna var ég í gær, námsins vegna, tilneydd að byrja í hörðu efnunum, þ.e.a.s. stórum kaffibolla (+ einni kökusneið, til að geta þolað bragðið af kaffinu!). Þetta virkaði svo vel að í gær vann ég það afrek (heilmikið afrek á minn prívat og persónulega mælikvarða) að sitja samfleytt í sex klukkustundir og skrifa verkefni á dönsku. Með hjálp kaffibollans og orðabókar gekk það alveg vonum framar. Svo bara vona ég að stóri kaffibollinn hætti ekki að virka fyrr en eftir jól, því þá þarf ég líklega að byrja á amfetamíninu..............svo þegar það hættir að virka, þá verður vonandi bara komið vor!!!

Skrambinn, það er eiginlega verst með aukaverkanirnar af stóru bollunum. Þótt hjálpin við námið sé óumdeilanleg, þá satt best að segja "renna þeir beint í gegn". Auðvitað er ákveðin tilbreyting fólgin í því að brjóta upp námið á 10 mín fresti til að fara á klósettið................en................öllu má nú ofgera. Fór örugglega 15 sinnum í dag!

Þetta minnir mig eiginlega á það þegar ég var að kenna ákveðnum nemendum í fyrravetur (engin nöfn nefnd). Mér þótti einum drengnum í bekknum verða óvenju tíðförult á klósettið í stæðfræðitímum (hefur líklega vantað tilbreytingu!), gjarnan fljótlega eftir frímínútur, sem ég reyni nú að segja krökkunum að sé ákaflega heppilegt að nýta til klósettferða. Þegar ég var farin að hafa verulegar áhyggjur af því að þessi reglubundna fjarvera úr tímum færi að há stærðfræðinámi drengsins, þá setti ég á hann kvóta. Þrisvar í viku fengi hann leyfi til að fara á klósettið úr stærðfræðitíma!!! (Gribba!) Þetta gekk mjög vel og hann stóð við samninginn. Um svipað leyti byrjaði ég á grænmetisfæðinu sem minnst var á hér í fyrra bloggi og fór að taka nesti með mér í skólann til að borða í hádeginu. Megin uppistaðan í nestinu var hrátt grænmeti; gúrka, paprika, tómatar og gulrætur, svona mestmegnis. Gallinn við hráa grænmetið er hinsvegar sá, að það líkist kaffinu að einu leyti: Það er afskaplega vatnslosandi og RENNUR BARA BEINT Í GEGN! Afleiðingarnar voru þær, að u.þ.b. klukkutíma eftir að ég borðaði, þá bara varð ég MJÖG nauðsynlega að komast á klósettið! Því miður var ég alltaf í miðri kennslustund á þeim tímapunkti.......og........viljiði giska á hvaða bekk ég var yfirleitt að kenna??? Nú, auðvitað bekknum þar sem ég setti klósettkvótann!!! Nú voru góð ráð dýr! Ekki getur maður sett klósettkvóta á nemendur sína og farið svo sjálfur á klósettið tvisvar í hverjum tíma! (Á þessu tímabili var ég semsagt líka að reyna að auka vatnsdrykkjuna......hehe.....og hellti alltaf líka í mig hálfum lítra af vatni í hádeginu). Hvað átti ég eiginlega til bragðs að taka? Það endaði með því að ég leysti málið með alls konar lygum og undanbrögðum..........."Þarf aaaaðeins að skreppa og ljósrita, krakkar!"................"Æ, ég bara alveg STEINGLEYMDI verkefnablaðinu inni á kennarastofu, krakkar!"...................."Þarf aaaaðeins að skjótast í símann, veriði stillt á meðan!" Það var mikið að ekki var dregið af laununum mínum vegna umtalsverðrar fjarveru frá kennslustundum!! Ég segi nú ekki annað............!

Bless í bili.......og passiði ykkur á kaffinu/grænmetinu!
Elín Eydís

x

Ingen kommentarer:

Send en kommentar