fredag den 7. november 2008

Hjólreiðar í Kaupmannahöfn

X
Tíðindalítið í dag.

Við Tina sátum í tíma og skrifuðumst á og flissuðum eins og smástelpur. Töldum okkur ekki vera að missa af miklu. Ég alveg fílaði mig eins og 15 ára í Gagganum í enskutíma hjá Rósu Dóru.......Linda man líklega eftir því, .....hvað var það, Big Mouth...??? Er ekki alveg með staðreyndirnar á hreinu lengur, en ég held að við höfum aldrei verið eins nálægt því að vera hent út úr tíma eins og þennan dag fyrir, hvað, 20 árum síðan?!? Who's counting?!? ;-)

Fór með harðfisk og smjör í leshópinn og gaf þeim sem mættu að smakka. Michelle er frá Grænlandi, vön svona mat og þótti hann að sjálfsögðu góður. Tina a.á.m. fitjaði upp á nefið yfir lyktinni en fannst hann samt góður á bragðið. Opnuðum svo gluggann af tillitssemi við næsta hóp sem á eftir okkur kæmi.

Síðan hjólaði ég heim. Í Danmörku eru nokkrar reglur sem gilda þegar maður hjólar í umferðinni. Ég er búin að komast að því að þessar eru þær mikilvægustu:


1. Ef næsti hjólreiðamaður á undan þér hjólar aðeins hægar en þú - farðu þá fram úr honum!

2. Ef næsti hjólreiðamaður á undan þér hjólar aðeins hraðar en þú - gefðu þá í og farðu samt fram úr honum. Staða þín sem hjólreiðamanns veltur á því hversu oft þú getur tekið fram úr!

3. Ef þú ert með strengi í lærunum - GOTT! Þú varst greinilega bestur í gær!

4. Ef þú lendir í kapp við strætó og hann tekur fram úr þér, ekki gefast upp - þú nærð honum aftur á næstu stoppistöð!!!

5. Ef þú sérð að það er alveg að koma rautt ljós - EKKI GEFA Í til að ná því! Nú ertu ekki lengur á tryllitækinu sem þú ert vanur heima. Reyndu að haga þér samkvæmt því.

6. Ef þú sérð að það er alveg að koma rautt ljós - og þú ert að fara að taka hægri beygju - eða fara yfir MJÖG STUTT gatnamót - og það eru ENGIR bílar sjáanlegir til að keyra þig niður -.....................þá fellur regla 4 úr gildi! (Fyrir þá sem ekki eru alveg samviskulausir: Ekki örvænta, samviskubitið hverfur um leið og þú ert kominn yfir gatnamótin!)

7. Hagaðu seglum eftir vindi. Hjólreiðamenn eru millibilsástand þess að vera bíll eða gangandi vegfarandi. Ef þú ert fljótari með því að hjóla á gangstéttinni eða fara yfir á gangbraut, þá geristu bara "gangandi vegfarandi á hjóli". Ef þér hentar betur að vera "bíll" (og þú metur aðstæður svo að það sé tiltölulega öruggt fyrir heilsu þína), þá geturðu hjólað á götunni. Aðalatriðið er að komast milli staða á sem stystum tíma og þurfa sem sjaldnast að stoppa á leiðinni. Það er auðvelt að komast hjá illilegum augnagotum frá öðrum vegfarendum einfaldlega með því að horfast ALDREI í augu við þá!

8. Mundu svo bara að: FYRSTUR = BESTUR !!! Sýndu metnað með því að taka tímann reglulega og telja á hverjum degi hversu mörgum þér tekst að fara fram úr!!!


Gott að geta komið þessu á hreint. Ég var svolítinn tíma að læra þetta, en núorðið ganga hjólreiðarnar bara mjög vel.

Bestu kveðjur,
Elín Eydís
x

4 kommentarer:

  1. Ekki hafði ég græna glóru um að þú værir svona góður penni Elín. Er það fleira sem þú hefur leynt mig?
    Kveðja, Bryndís

    SvarSlet
  2. Í dag sat ég í eldhúsinu á Laugum, ekki það að sé bara eitt eldhús á Laugum, en við í Framhaldsskólanum segjum bara svona. Aðalumræðuefnið voru draumráðningar fyrir kokkinn og sitt sýndist hverjum og spáð var allt óróa á fjármálamarkaði, afsagnar Davíðs að frægð og velgengni kokksins í næsta verkefni. Sem reyndar var ágætt fyrir mig þar sem ég var nýbúinn að biðja hann um að sjá um veitingarnar í fermingarveislu dóttur okkar (hann getur varla sagt nei eftir þetta)

    Hér í Reykjardal eru allt aðrar reglur varðandi hjólreiðar en í Köben, þær helstu eru:

    1. Ef svo ólíklega vill til að þú sjáir annan hjólreiðamann reynir þú ekki að ná honum heldur hættirðu bara við að hjóla þann daginn og leifir hinum að svitna.

    2. Ef úti næðir vindur hjólar þú fyrst á móti vindi svo þú komist örugglega heim aftur eða bara sleppir því að hjóla þann daginn

    3. Ef það er svell á milli snjóskafla er ráðlagt að taka niður gardínurnar í baðherberginu og nota grdínugorminn sem keðjur, best er þó breyta líkamsræktinni þann daginn og fara í heitapottinn í sundlauginni og spjalla við sveitungana.

    4. Ef þú ert með strengi í lærunum – ÓHEPPNI – þú hefur þá ekki fundið neina afsökun í gær og hjólað á móti vindi allann hringinn og gardínugormurinn ónýtur.

    5. Ef þú sérð langa og bratta brekku framundan EKKI gefa í til að komast upp brekkuna, snúðu við og farðu aftur í heita pottinn

    6. Ef þú sérð að það er brekka framundan - og brekkan er MJÖG STUTT - og það er MJÖG LANGT að hjóla heim -.....................þá fellur regla 5 úr gildi! (Fyrir þá sem eru alveg búnir að vera: Ekki örvænta, þreytan hverfur að mestu um leið og þú ert kominn uppá hæðina!)

    7. Hagaðu seglum eftir vindi. Leggðu bílnum stundum við íþróttahúsið (þá halda allir að þú sért að æfa) Leggðu bílnum á bakvið hús taktu hjólið úr skottinu og sett það við aðalinnganginn (þá halda allir að þú hafir komið á hjóli) Betra er að kaupa grænmeti í heimabyggð en óhollustuna í bæjarferðum (þá halda allir að þú hugsir um heilsuna) Ef þú átt von á gestum seturðu miða á útidyrnar stílaðan á börnin “Fór að hjóla kem heim kl 17” (þá vita allir hvað þú ert duglegur) orðspor deyr aldrei hjá þeim er sér gott getur

    Með kveðju frá Lækjarási

    SvarSlet
  3. Vá, gott að ég á nóg af auka gardínugormum einhversstaðar ofan í kassa.......!!! :-)

    SvarSlet
  4. já gaman að þessu...nr 7 hjá Halli útsmoginn strákurinn. Kveðja Unnur

    SvarSlet