søndag den 9. november 2008

Trick or Treat?!?

x

7:30. Vakna og fer í sturtu. Fæ mér kalda pizzu í morgunmat.

8:30. Ákveð að taka af rúminu og setja í þvottavél í dag. Ætla samt að bíða aðeins með að setja þvottavélina í gang þar til kominn er eðlilegur sunnudagsfótaferðartími, af tillitssemi við íbúa neðrihæðar.

9:30. Nenni ekki að bíða lengur og fer niður til að setja í þvottavélina. Árans! Kallinn niðri var slægur og stillti hana á tíma í gærkvöldi. Þarf að bíða í 80 mín eftir að hún klári að þvo.

10:30. Þurrka af og viðra. Þetta verður að duga sem aðalhreingerning þessa vikuna.

11:30. Fer niður og set í þvottavélina. Fæ mér kalda pizzusneið í hádegismat. Reyni að lesa smávegis í leiðinlega faginu................það er MJÖÖÖÖÖG erfitt!

13:30. Fer niður og hengi upp þvottinn. Fæ mér tvær kaldar pizzusneiðar milli mála.

14:47. HAH! Fann súkkulaðibita ofan í tösku sem ég keypti í skólanum á fimmtudaginn og gleymdi að borða. Já, ævintýrin gerast enn! Best að borða samt nokkrar gamlar mandarínur fyrst. ;-)

14:48. Komin úrhellisrigning, þrumur og eldingar.............ætla ekki út að hjóla í dag.

14:58. Hætt að rigna og komin sól. Ósköp var þetta aumingjalegt þrumuveður.......! Ætla samt ekki út að hjóla! Best að stelast í jólasmákökurnar hennar Fíu! hehe

15:42. Gleymdi alveg að segja ykkur hvað við Fía gerðum í gærkvöldi. Þegar pizzudeigið var tilbúið og við ætluðum að fara að fletja það út, þá allt í einu áttuðum við okkur á því að hér var ekkert kökukefli til. Fía vildi reyna að nota fulla maltölsdós til að fletja út, en mér fannst það ómögulegt, þannig að ég fór niður og spurði kallinn á neðri hæðinni hvort hann gæti lánað mér "en kagerulle". Hann varð vandræðalegur og sagði svo að fyrrverandi konan sín hefði fengið kökukeflið við skilnaðinn (líklega þurft á því að halda ef hún fengi sér nýjan mann, þeim verður ekkert haldið í skefjum með öðru móti, er það?!?). Kærastan hans ætti kökukefli, en hún hefði líka tekið það með sér þegar hún flutti út í haust (hvað er þetta eiginlega með kvenfólk og kökukefli?). EN!.........hann vissi ráð, og sagðist geta lánað mér flösku til að fletja út með. Lét sig svo hverfa inn í geymslu og kom til baka með fulla rauðvínsflösku sem hann lánaði mér. Sagði að það væri örugglega betra að nota fulla flösku en tóma og að sjálfsögðu tók ég í sama streng. Að þeim orðum sögðum fór ég upp með flöskuna og flatti út pizzudeigið. Það gekk ákaflega vel. Eftir matinn opnuðum við Fía svo flöskuna og drukkum allt rauðvínið meðan við horfðum á Spaugstofuna. Sváfum alveg rosalega vel í nótt! Í morgun fylltum við flöskuna svo af vatni, settum tappann í og skiluðum henni á eldhúsborðið niðri með þessum skilaboðum:

"Kæri Carsten.
Þúsund þakkir fyrir lánið á flöskunni.
Þegar við vorum búnar með hana, fylltum við hana af vatni og settum tappann aftur í. Hún lítur alveg út fyrir að vera óupptekin, finnst þér það ekki?
Enn og aftur, kærar þakkir fyrir lánið.
Bestu kveðjur,
Elín og Fía."

Síðan höfum við ekki séð Carsten. Það var auðvitað mjög djarft teflt hjá okkur að haga okkur svona gagnvart lögreglumanni og fyrrverandi slökkviliðsmanni. Það er ekkert víst að hann bjargi okkur þótt það kvikni í húsinu í nótt.......................sjáum til. :-)

17:33. Best að við fáum okkur heita pizzu í kvöldmatinn.

Bless í bili,
Elín og Fía
x

6 kommentarer:

  1. Þú ert svo forhert! En vona að rauðvínið hafi runnið ljúflega niður.

    SvarSlet
  2. Elín ekki datt mér í hug að þú værir svona svöl.. vonandi ætlar þú að baka mikið,fyrir þessi jól og ætlar Fía ekki öruglega vera í baunalandi um jólin...kveðja frá efri og neðri Skarðshlíð

    SvarSlet
  3. Jú, ég reikna fastlega með að fara í búðina á morgun að kaupa meira hveiti.
    Fía verður að sjálfsögðu eftir í Danmörku um jólin, við förum sko ekki að borga flug fyrir okkur báðar heim, það yrði allt of dýrt!!! ;-)

    SvarSlet
  4. Það er ekki víst að það verði jafn gaman að baka þegar þú kemur heim.

    A Það er til kökukefli hérna
    B Ég er ennþá ekki búinn að laga til í bökunarskúffunni sem ég ætlaði að gera fyrir síðustu jól :-)

    Hallur

    e.s. Mér skilst þá að ég geti verið rólegur þó að þú búir hjá fráskildum manni úr því að kökukeflið varð eftir heima.

    SvarSlet
  5. Nei, þá býst ég við að þú hafir tvo kosti í stöðunni:

    A: Þú verður búinn með jólabaksturinn ÁÐUR en ég kem heim.
    B: Þú verður búinn að "týna" kökukeflinu þegar ég kem heim. Það geta t.d. verið töluverðar líkur á að það týnist þegar þú lagar til í bökunarskúffunni! ;-)

    e.s. Þú ert sem sagt alveg rólegur yfir rauðvíninu, bara ef ég er ekki með kökukefli........?!

    SvarSlet
  6. Spurning hvað gerist þegar ég flyt inn til EINHLEYPA mannsins um næstu mánaðamót. Ætli HANN eigi kökukefli..........?!? ;-)

    SvarSlet