torsdag den 6. november 2008

Baðdagurinn mikli

.
Í dag fór ég í bað.

"Jahá!" hugsa nú kannski sumir. "Eru þetta nú fréttir? Þvær hún sér sjaldan, eða hvað? Er þetta kannski jólabaðið í ár!!!" Eða eins og Ragga Gísla myndi orða það: "Hvað er svona merkilegt við það........?"

En, á þessu heimili er það afar merkileg, að ég segi nú ekki flókin aðgerð að fara í bað. Danskt bað, kalla ég það núna. Tengdamamma mun staðfesta þetta, eftir að hún heimsótti mig um daginn.

Þegar ég flutti hingað í haust, gerði húseigandinn mikið veður út af því að íbúðinni fylgdi SPABAD, sem honum þótti mjög merkilegt. Við nánari athugun komst ég að því að spabad er nuddbaðkar. Ég hugsaði með mér að ég hefði nú alveg getað látið mér nægja venjulega sturtu, en ákvað svo að vera bara jákvæð, það gæti jú verið ágætt að komast í heitt bað stöku sinnum. Nokkrum dögum eftir að ég flutti inn ákvað ég svo að prófa baðkarið góða. Þá rak ég mig á það að heitavatnsrennslið úr krananum var alveg með minnsta móti. Og þá meina ég MINNSTA móti. Það rétt seytlaði úr krananum. Ég ákvað samt að gefast ekki upp þótt það tæki kannski dálítinn tíma að láta renna í baðið, stillti kranann á heitasta og beið svo..........í uppundir klukkutíma. Þá var baðkarið orðið hálffullt, svona tæplega, og vatnið sem í byrjun hafði runnið heitt úr krananum farið að kólna töluvert. Ég gafst upp og fór í hálffullt (eða ætti ég að segja hálftómt) og hálfvolgt bað.

Daginn eftir talaði ég við kallinn á neðri hæðinni. (Þetta hljómar svolítið eins og hann sé skrattinn sjálfur, hehe,..... en það er hann ekki. Hann býr bara niðri.) Einhvernveginn fannst mér hann ekki hafa nægan skilning á vandamálinu, enda ábyggilega vanur að fara bara í kalt bað á heitum sumardögum,....og aldrei búið á Íslandi...... Eina ráðið sem hann gat gefið mér var að hita vatn í katlinum og hella út í! Hmm......fáránlegt, hugsaði ég með mér.

En......af því að ég er ekki týpan sem gefst upp mjög auðveldlega, þá ákvað ég samt að reyna þetta þegar Eyþór var í heimsókn hjá okkur Birgittu í haust. Einhvernveginn varð að þvo barninu og hann harðneitaði að fara í sturtu. Mér til halds og traust var tengdamamma, sem veitti góð ráð þegar henni sýndist ég þurfa á þeim að halda. Miðað við hitastigið á vatninu úr krananum taldi hún ekki nóg að hita vatn í katlinum og benti mér á að hita frekar vatn í stóra pottinum á eldavélinni, sem ég og gerði.......og í miðjupottinum.......og í litla pottinum.......og í katlinum. Best að flýta fyrir þessu eftir föngum svo barnið kæmist í bað fyrir miðnætti. Þetta gekk allt saman ágætlega. Við hituðum tvær umferðir í eldhúsinu og fannst þá komið nóg vatn í baðið og drengurinn komst ofaní á innan við klukkutíma. Allt gekk vel þar til hann var kominn upp úr. Þá "tók ég tappann úr" baðkarinu, vatnið streymdi niður..................og svo beinustu leið aftur upp úr niðurfallinu í gólfinu. Sem betur fer varð ég vör við þetta áður en það flæddi af stað niður stigann og minnkaði all snarlega rennslið úr baðkarinu góða. Við tengdamamma býsnuðumst dágóða stund yfir pípulögnunum í þessu húsi og ákváðum að það væri nóg fyrir Eyþór að fara bara næst í bað þegar hann kæmi aftur heim. Það tók annan klukkutíma að láta renna úr baðkarinu aftur.......

Síðan hefur ekki hvarflað að mér að fara í bað........

......fyrr en í dag! Munurinn var hinsvegar sá, að núna vissi ég við hvaða ofurefli var að etja og var vel undirbúin. Og nákvæmlega svona gekk þetta fyrir sig:
Kl. 15:00. Kom heim úr skólanum og skrúfaði frá krananum. Setti svo alla pottana á eldavélina og vatn í ketilinn og kveikti undir. Kveikti á tölvunni.
Kl. 15:15. Hellti úr katlinum og litla pottinum í baðkarið. Fyllti hvorutveggja aftur og kveikti undir. Skoðaði tölvupóstinn minn.
Kl. 15:20. Hellti úr stóra pottinum í baðið....vantaði mikið upp á að það væri orðið nógu heitt. Fyllti stóra pottinn aftur og kveikti undir.
Kl. 15:30. Hellti úr miðpottinum, litla pottinum og katlinum í baðkarið og fyllti svo allt saman aftur og setti af stað. Kíkti á mbl.is en sá svo eftir því, það eyðilagði alveg stemninguna......
Kl. 15:37. Borðaði nestið mitt sem ég kláraði ekki í skólanum á milli pottahellinga.
Kl. 15:43. Fékk mér negrakoss.
Kl. 15:46. Fékk mér negrakoss með kókos.
Kl. 16:00. Baðið loksins orðið nógu heitt og nógu fullt að mínu mati, eftir þrjár umferðir á eldavélinni og í katlinum. Náði í uppáhalds sálfræðibókina mína, setti útvarpið í botn á RADIO SOFT (kallinn niðri ábyggilega farinn að naga sig í handarbökin fyrir að hafa lánað BIRGITTU þetta útvarp í haust, miðað við hvernig ég hef misnotað það eftir að ég rakst á þessa útvarpsstöð um daginn.............Radio Soft - blød musik hele dagen........!), og skutlaði mér ofan í baðið. Aldeilis frábært! Söng hástöfum með Tinu Turner, Boy George, George Michael og fleiri stórkostlegum tónlistarmönnum eins og ég væri ein í heiminum og las í bókinni inn á milli, þar til........
Kl. 16:00......að ég sá eftir að hafa ekki tekið fjórðu umferðina á eldavélinni, því vatnið var farið að kólna og ég var bara alls ekki búin að fá nóg. En af því að ég er ekki týpan sem gefst upp.....þá.......fór ég upp úr baðinu, skutlaði pottunum á eldavélina og katlinum í samband og ákvað að taka bara aðra umferð.
Kl. 16:30. Bað númer tvö tilbúið. Fór aftur ofan í, las í bókinni og söng með Radio Soft og fannst öll fyrirhöfnin fullkomlega þess virði. Setti nuddið af stað svolitla stund og hafði það gott.
Kl. 18:30. Ávað að nú væri ég tilbúin til að fara upp úr, opnaði fyrir niðurfallið úr baðkarinu og vandaði mig mikið við að opna bara lítið. Það flæddi SAMT upp úr gólfinu! Þá fékk ég allt í einu hugljómun: "Hvað ef........HVAÐ EF.....það væri nú ekkert athugavert við pípulagnirnar! Hvað ef niðurfallið í gólfinu væri nú bara stíflað?! (Ókey, ókey, þetta var kannski frekar augljóst, svona eftir að hyggja, en það verður að taka það með í reikninginn að ég er enginn sérfræðingur í pípulögnum.....) Mér fannst þetta a.m.k. alveg frábær hugmynd hjá mér og þar sem að það er tiltölulega stutt síðan ég losaði stífluna í vaskanum á litla klósettinu, þá taldi ég mig færa í flestan sjó, náði í gulu gúmmíhanskana og skrúfjárnið og hófst handa.

Þetta er kannski ekki það sem mann langar mest til að fást við eftir slakandi nuddbað, en ég var samt ákaflega stolt af sjálfri mér þegar stóð og horfði á vatnið úr baðkarinu renna á fullu stími ofan í niðurfallið og beina leið NIÐUR en ekki upp. Ég er viss um að Ingólfur í Hvítafelli (okkar privat and personal pípulagningamaður) hefði orðið mjög stoltur af mér líka! Leyfi mér bara að fullyrða það! Mér tókst með herkjum að stilla mig um að hlaupa niður og segja við kallinn á neðri hæðinni: "VEISTU HVAÐ ÉG GERÐI........?! (Ligga ligga lá.......!)" Stillti mig samt um það.....ég er nú ekki alveg.......! Hann fattar það næst þegar hann fer í bað.....og verður mér eilíflega þakklátur........fellir ábyggilega niður leiguna fyrir síðasta mánuðinn........(hehe). Heppin ég......eða réttara sagt: Heppinn hann! Að hafa svona handlaginn leigjanda.....!

Nú skiljið þið kannski hvað er svona merkilegt við það að ég skyldi fara í bað í dag......og af hverju ég er búin að ákveða að fara ekki aftur í bað fyrr en ég kem heim næst. Er bara ekki alveg búin að ákveða hvernig ég leysi útvarpsleysið heima. Kannski maður nái Radio Soft á netinu. Ég er nefnilega búin að komast að því að útvarp er nauðsynlegur fylgihlutur eigi maður að njóta baðsins til fulls (trix sem ég lærði af kallinum á neðri hæðinni; ...svona getur nú verið gott að kynna sér menningu framandi þjóða!!!)

Eftir þessa dýrmætu reynslu af danskri baðmenningu hef ég ákveðið að kalla Spabaðið á Knuthenborgvej 12, Bláa Lónið. Þetta virkar eiginlega alveg eins. Kalda vatnið rennur inn á einum stað og heita vatnið annarsstaðar. Mig vantar bara grænan matarlit og sjávarsalt og þá get ég farið að selja inn!

Frábær hugmynd! Vind mér í þetta strax á morgun!
Lifið heil og njótið íslensku hitaveitunnar í botn!

Kveðja,
Elín Eydís

7 kommentarer:

  1. Halló.
    Á ég heiðurinn að fyrsta kommentinu? Verð að viðurkenna að vegna anna þá hef ég ekki lesið allan pistilinn ennþá en hef hug á að skemmta mér við hann um helgina :-)
    Knús til Danmerkur.
    Kata

    SvarSlet
  2. ha..ha..ha..ha.. Ég vissi að ég fengi skemmtilega sögu! Dásamlegt! Vona bara ákaflega mikið að ég hitti þig ekki fyrir bað, þegar þú kemur heim, heldur eftir! Geturðu ekki tekið quik bað í stóru pissuskálunum í Leifsstöð áður en við hittumst, svo ég þurfi ekki að keyra rauðka minn með allar rúður niðri?

    SvarSlet
  3. Hehehe enn fyndið ;)
    tók reyndar smá tíma a'ð lesa vegna truflana frá litla gaurnum en hafðist að lokum og var svo sannarlega þess virði :)
    fann þessa stöð á netinu fyrir þig, veit samt ekki hvort þetta er það sem þú ert að leita að
    http://www.live365.com/cgi-bin/mini.cgi?membername=scottfhn&tm=6000
    Kær kveðja Sibba.

    SvarSlet
  4. Engar áhyggjur Kolla mín, ég geri alveg ráð fyrir að fara samt í sturtu svona einu sinni í mánuði. Reyni bara stíla upp á að taka desembersturtuna stuttu áður en ég kem heim. ;-)

    SvarSlet
  5. Neibb, það er ekki þessi stöð,en takk samt fyrir hugulsemina Sibba mín. Þetta er hinsvegar síðan:

    http://radiosoft.dk/

    Smella svo á Start Netradio og þá fer allt á fullt. Svo verð ég bara að biðja og vona að ég fái stóra hátalara í jólagjöf til að koma fyrir á baðherberginu heima......hehe.....engir nágrannar þar á neðri hæðinni sem ég get gert vitlausa!

    SvarSlet
  6. Ég held ég fari bara í heitt og langt bað og hugsi til þín.

    Hallur

    e.s. voru þetta skilaboð til mín með jólagjöfina, get ég þá hætt að hugsa um það

    SvarSlet
  7. Svona Hallur, vertu ekki að monta þig af öllu heita vatninu sem þú hefur heima!!! Ég veit alveg af því!
    Nei, það er allt of snemmt að hugsa um jólagjafir núna, er það ekki?!? Ég geri bara ráð fyrir að þú verðir búinn að koma hátölurunum upp á vegg þegar ég kem heim!! Það verður mitt fyrsta verk að fara í bað, þú skilur! ;-)

    SvarSlet