tirsdag den 16. marts 2010

Prince Siddhartha

x
Í kvöld fór ég í fjórða skipti í Búddhamusterið niðri í bæ og líkar bara svo ljómandi vel. Í þetta skiptið var mér kennt að sjálfið er ekki til. Þetta finnst mér alveg stórmerkilegt og satt best að segja alveg frábær hugmynd. Til allrar hamingju kláraði ég persónuleikasálfræðina í fyrra. Það er hætt við að ég hefði ekki staðist það próf með því að halda einhverju svona fram, hehe.....!

Hallur hefur lítið tjáð sig um þetta glænýja áhugamál mitt, en ég veit að innst inni er hann oggolítið hræddur um að ég hætti við bílskúrinn og ákveði að byggja Búddhamusteri í staðinn. ;-)

Í síðustu viku lærði ég að tæma hugann. Það gekk svo ljómandi vel að næstu þrjá daga á eftir gat ég ekkert hugsað af viti. Ég fór upp í vitlausar lestar, gleymdi að fara úr lestunum á réttri stöð og ýmislegt fleira sem ég rakti til þessarar nýju kunnáttu minnar. Til allrar hamingju var Sandra, frænka mín frá Þýskalandi, í heimsókn hjá mér og gat passað upp á mig á meðan þetta gekk yfir.

Nú er stóra spurningin bara sú hvort sjálfið sé að eilífu týnt og Elín ekki lengur til............spurning hvort Fía sé þá horfin líka. Það verður spennandi að sjá hvað gerist næstu dagana. Mér líkaði nefnilega bara býsna vel að vera svona tóm í kollinum í síðustu viku..........

........nema ég hafi bara alltaf verið svona. Það kom nefnilega upp úr kafinu í dag að ég gleymdi að sækja um námslán síðasta haust (eða réttara sagt gerði mér enga grein fyrir að ég þyrfti að gera það aftur, sem lýsir mér kannski bara enn betur........enda eftirtektarsemin sjaldnast verið í lagi), þannig að námslánin sem ég er búin að bíða eftir alla önnina koma sem sagt alls ekki neitt. Ekki króna fyrr en ég fæ námslánin fyrir þessa önn einhverntíma í sumar, sem ég er núna búin að sækja um, nota bene! Stundum algjör sauður, og ekki hægt að skrifa það á búddhismann!

Það verður bara að lifa á loftinu fram á vorið.............hm.............og allir verða mjög glaðir þegar ég fer loksins að vinna í haust.

Kær kveðja,
Elín
x

Ingen kommentarer:

Send en kommentar